151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[12:45]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við höldum hér áfram að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um sameignarfélög. Við ræðum sérstaklega viðurlög vegna hlutfalls kynja í stjórn eða með öðrum orðum að festa sektarákvæði þannig að félög sem ekki uppfylla skilyrði um jafnt hlutfall kynja, karla og kvenna, í stjórnum félaga geti átt von á sektum sem geta numið frá 10.000 kr. á dag og upp í 100.000 kr. á dag.

Þetta mál er lagt hér fram í þriðja sinn og við fyrstu framlagningu þess voru það tveir aðilar sem sendu inn umsagnir, Félag kvenna í atvinnulífinu og ríkisskattstjóri. Þetta var árið 2018 og þá var hlutfall kvenna í stjórnum félaga með fleiri en 50 launamenn 28,8%, það er ágætt að hafa þá tölu í huga. Þegar málið kom næst fram bárust fjórar umsagnir. Sem fyrr frá Félagi kvenna í atvinnulífinu. Það var frá Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands og ríkisskattstjóra. Þá var hlutfall kvenna í stjórnum félaga 34,7%, þetta var árið 2019. Nú þegar málið er lagt fram í þriðja sinn eru umsagnir orðnar sjö, frá Alþýðusambandi Íslands, minnisblað frá atvinnuvegaráðuneytinu, umsögn frá Finni Sigurðssyni, frá Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands, Podium og svo Skattinum sem nú heitir svo. Til að varpa enn frekara ljósi á málið fengu eftirtaldir aðilar sendar til sín umsagnarbeiðnir, og ég ætla aðeins að nefna þá sem ekki sendu inn umsagnir, sem ekki svöruðu kallinu: Deloitte ehf., Ernst og Young hf., og ég biðst velvirðingar á því, hæstv. forseti, að við eigum ekki íslensk nöfn á þessum félögum, Félag atvinnurekenda, Félag kvenna í atvinnulífinu, sendu ekki inn umsögn núna, notuðust við aðra umsögn, Félag löggiltra endurskoðenda, Kauphöll Íslands, KPMG, Kvenfélagasamband Íslands, Landssamtök lífeyrissjóða, Lögmannafélag Íslands, PricewaterhouseCoopers ehf., Samtök iðnaðarins, Seðlabanki Íslands, fjármálaeftirlitsnefnd, Samtök verslunar og þjónustu og Viðskiptaráð Íslands. Öll þessi félög fengu til sín umsagnarbeiðnir sem þau svöruðu ekki. Það vekur mann óneitanlega til umhugsunar um það hvort þessi félög séu það vel tengd að þau horfi á þessa tölu, 34,7% árið 2019, og áætli sem svo að þetta sé nánast í höfn og þess vegna hafi þau ekki sýnt málinu áhuga fram til þessa.

Af gögnum málsins má sjá að gestir komu fyrir nefndina, og þá er ég að tala um þegar málið kom fram núna. Þeir voru frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, frá skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu, frá Jafnréttisstofu, frá Skattinum, frá Félagi kvenna í atvinnulífinu og frá Kvenréttindafélagi Íslands. Þetta má lesa í meirihlutaáliti nefndarinnar sem liggur frammi. Ekki er tiltekið að Stefán Már Stefánsson prófessor hafi komið fyrir nefndina en hann gerði það vissulega og auk þess er heldur ekki að finna umsögn hans undir umsagnalista enda skilst mér að hún hafi komið í tölvupósti. Ekki verður annað sagt en að ekki sé stór eða mikil þörf eða alla vega ekki mikill áhugi á því að innleiða sektarákvæði í lögin og ég vel að trúa því að það sé vegna þess að ágætlega hafi gengið. Það kom einnig fram í máli hv. þingmanna hér í gær að umræðan um málið hefði haft þau áhrif að staðan er eins og hún er, sem sagt 34,7% árið 2019. Ég veit til þess að formaður atvinnuveganefndar er í þessum töluðu orðum að kalla eftir upplýsingum um hver staðan er núna. Það gæti skipt máli og ég vona svo sannarlega að talan hafi hækkað. Þetta sýnir okkur að það virðist virka að halda umræðunni lifandi. En ef við gefum okkur að þetta hafi gengið bærilega, eins og kom fram í í umsögn Alþýðusambands Íslands, ágætlega hratt fyrir sig, að koma þessu ákvæði inn þá er það vegna þess að við höfum ekki bætt við sektarákvæði sem kveður á um að fyrirtækjum verði gert að borga frá 10.000 kr. og upp í 100.000 kr. á dag og heldur ekki vegna þess að stjórnvöld hafi beitt einhverjum sérstökum hvötum til að ná þessum árangri. En það hefði samt sem áður þótt vænlegri kostur, eða mér hefði fundist það, ef stjórnvöld hefðu beitt sér með einhverjum hvata til að ná fram jafnrétti kynjanna.

Ég minnist þess á sínum tíma, þegar innleiða átti jafnlaunastaðalinn, að í fyrstu var honum ætlað að vera ákveðinn hvati fyrir fyrirtæki og stofnanir. Það þótti gott að við gætum litið upp til þeirra fyrirtækja sem myndu innleiða þennan jafnlaunastaðal. Þetta átti að vera hvati en varð einhvers konar kvöð. Ég vel að kalla þetta kvöð því að smám saman munum við því miður sjá, eftir því sem við förum neðar í starfsmannafjölda fyrirtækja og stofnana, að það verður kostnaðarsamara fyrir þessi sömu fyrirtæki og þessar stofnanir að innleiða þennan staðal. Ég er alls ekki á móti jafnlaunastaðlinum. Ég var einmitt dálítið skotin í honum vegna þess að hann var hvati og það gerði mig dálítið stolta að ég vissi að það var áhugi hjá fyrirtækjum á að innleiða þennan staðal. Mig minnir reyndar að það hafi kostað tollstjóraembættið meira en hálfa milljón, ég held það hafi verið um 700.000 kr., að innleiða staðalinn hjá sér. Það er nú ágætlega stöndug stofnun og með þeim stærri hér á landi og sjálfsagt var tollstjóraembættið þá þegar með starfaflokkunarkerfi sem auðveldar verkið til muna því að þetta snýr að því að raða störfum í staðinn fyrir að horfa á persónur. Það er ákveðið hvaða verðmæti liggi í störfum þeirra sem vinna þau. En ef við horfum hins vegar á minni fyrirtækin sem búa ekki yfir starfaflokkunarkerfi þá munu þau þurfa að leggja út í kostnað til að uppfylla þetta markmið laganna um jafnlaunastaðalinn og það verður þeim dýrt. Ef þau innleiða ekki staðalinn — nú er búið að setja það niður á dagsetningar og ár, hvenær ákveðin stærð fyrirtækja og stofnana á að vera búin að innleiða þetta — þá eru sektir upp á 50.000 kr. á dag. Það sem meira er, ég hjó eftir því að einn hv. þingmaður nefndi hér áðan að við værum að ræða um starfsemi sem væri með 50 launamenn og það væri ekki það minnsta, en jafnlaunastaðallinn talar alveg til þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru með 25 starfsmenn. Þeim er gert að innleiða staðalinn og ekki nóg með það heldur þurfa þessi fyrirtæki og stofnanir að endurnýja vottunina á þriggja ára fresti. Það mun sjálfsagt kosta, svona vottun kostar, og það er vissulega rétt að það er gott að fólk þurfi aðeins að kasta því inn aftur hvernig staðan er til að sjá hvernig hlutunum hefur undið fram. En ég vil samt benda á það núna, þegar við vitum að fyrirtæki, sérstaklega minni fyrirtæki, eiga í basli með öll sín gjöld af launum sem þau þurfa að greiða, að þetta bætist við. Mér liggur við að segja að nú gætu stjórnvöld búið til hvata inni í þessari kvöð og segja að fyrirtæki fái frest á greiðslu eða þá að þau sæki um eftir fimm ár aftur, en það er sjálfsagt önnur umræða. Ég vil samt halda því fram að hvati hefði verið ákjósanlegri og það hefði gengið hraðar með jafnlaunastaðallinn. Við vitum að fyrirtæki og stofnanir hafa sótt um fresti en því hefur verið frestað hvenær þessir sömu aðilar eiga að vera búnir að innleiða staðalinn.

En gott og vel. Mér fannst bara mikilvægt að koma þessu að. Ég er ekkert á móti launajafnrétti en á sama tíma getur verið erfitt fyrir fólk að sækja sér launahækkun til vinnuveitenda. Það eru dæmi þess og ég gluggaði aðeins í tvær rannsóknir sem ég fann sem sýndu þá niðurstöðu að stjórnendur virðast skýla sér á bak við þessa jafnlaunavottun og vilja því ekki ræða launamál. Fólk er einhvern veginn bundið í báða skó og fer ekki í það að vilja reyna að skara fram úr til að hækka launin sín. Við getum því tekið það saman að jafnlaunavottunin virðist þannig stuðla að því að fletja út þennan launamun. Þeir sem skara fram úr fá þá ekki umbun og eins og ég sagði benda rannsóknir í þá átt.

Ef við förum aftur í það sem við ræðum hér í dag, þá í nefndarálit meiri hlutans, og mér fannst dálítið kúnstugt að lesa þetta, með leyfi forseta:

„Regla um tiltekið lágmarkshlutfall karla og kvenna í nefndum geti eðli málsins samkvæmt tæpast tekið til einstaklinga með skráningu hlutlauss kyns enda ólíklegt að sá hópur verði ýkja stór í samanburði við fjölda kvenna og karla. Hins vegar er þar lagt til að bætt verði við ákvæði sem kveði á um að reglan um lágmarkshlutfall kvenna og karla komi ekki í veg fyrir tilnefningar og skipan einstaklinga með skráningu hlutlauss kyns í nefndir, ráð og stjórnir á vegum hins opinbera.“

Ég segi nú bara: Þó það nú væri. Í gær spurði ég flutningsmann þessa máls út í þetta af því að mér finnst þetta snúið og ég geri mér grein fyrir að það getur verið erfitt að fara að búa til eina flokkunina enn til að jafna nú þannig að allir hafi rétt. Ég skil líka vel að meiri hlutinn, það kemur alla vega fram í þeirra áliti, hafi hvatt ráðuneytið til taka til endurskoðunar þau ákvæði laganna þar sem kveðið er á um hlutfall hvors kyns í stjórnum og að orðalag ákvæðanna verði uppfært, m.a. með tilliti til laga um kynrænt sjálfræði sem heimilar einstaklingum að skrá kyn sitt sem hlutlaust. Mér finnst þetta dálítið léttvæg afgreiðsla vegna þess að það er tekið til þess að þessi hópur sé ekki ýkja stór. Það er vissulega rétt. Konur voru einu sinni ekki heldur mjög margar sem sóttu í að verða settar í stjórnir félaga og hvað þá á opinbera markaðnum og þá er ég komin á þann stað að halda því áfram fram að þetta frumvarp, sem snýr að sektargreiðslum sérstaklega, er ekki alveg í takt við nútímann. Það eru þarna ákvæði um hlutlausa kynskráningu, við erum búin að samþykkja það með lögum, og þá finnst mér arfaslakt ef nefndin ætlar að afgreiða þetta mál með þessum hætti.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að við höldum því til haga að hlutfallið milli karla og kvenna er 34,7% árið 2019 og ég fagna því sérstaklega að málið fari aftur til hv. atvinnuveganefndar. Ég er mjög ánægð með að heyra að nefndin ætlar að fá nýjustu tölur, hvort staðan sé enn þannig að hlutfall kvenna sé 34,7% eins og var árið 2019, þegar markmiðið er 40%. Mér finnst bara alls ekki gott að setja inn sektarákvæði. Ég hefði frekar viljað fá inn hvata til að ná þessu markmiði og í framhaldinu að það verði hvatar sem gera það að verkum að fyrirtæki sjái sér hag í að viðhalda jöfnum hlut kynjanna ef það á að vera markmið í sjálfu sér. Ég veit ekki alveg enn þá hvort mér finnist það eiga að vera það markmið sem skiptir öllu máli. Komandi úr skólastarfi þá veit ég að börn hafa sitt áhugasvið og þetta er ekki eins einfalt og fólk vill vera láta. Ég gef mig sem kona mikið út fyrir það að sinna velferðar- og uppeldis- og menntamálum, og því sem fólk kallar mjúku málin, meðan ég hef átta karla sem sjá um restina. Ég er mjög þakklát fyrir það vegna þess að ég hef minni áhuga á því. Þegar þingflokkurinn okkar var settur saman þá var algjörlega farið eftir óskum allra þingmanna um það í hvaða nefndum þeir vildu sitja. Það sem ég er kannski að enda á að segja hér er að við höfum mismunandi áhugasvið. Á sama tíma má það þó ekki vera þannig að eitt útiloki annað þannig að ég fagna því að þetta mál rati aftur til nefndar og vona að við náum skynsamlegri niðurstöðu.