151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki betur en að lönd hafi verið að banna fólki að koma sem kemur frá Bretlandi, banna fólki að koma frá löndum þar sem veiran er í þvílíkum vexti. Ég veit ekki betur en að meira að segja Danir hafi sett stopp á landamærum hjá sér. Ég lenti í því sjálfur um sumarið, þá settu þeir bara stopp. Svíar stoppuðu ferðir á milli Danmerkur og Svíþjóðar. Það er verið að setja svona bönn. Af hverju getum við það ekki líka? Ég er bara að segja að við bönnum allar ónauðsynlegar ferðir. Við vitum að það er alltaf einhver nauðsyn til staðar en þá er líka sóttvarnahúsið og þarf að passa upp á að það sé fylgst með viðkomandi, að fólk sé ekki að segja: Ég ætla bara að fara í hálfsmánaðar sóttkví, en ætlar svo aldrei að standa við það. Við vitum að um leið og við slökuðum á í sumar var veiran komin inn. Það virðist hafa virkað, sem betur fer, að hafa tvöfalda skimun og sóttkví. Af hverju ekki að stoppa fólkið á staðnum, úti á Keflavíkurflugvelli? Ég hef séð og heyrt um að fólk sé að koma að ná í einstaklinga út á flugvöll, þó að það hafi verið mælt með því að gera það ekki, og jafnvel helmingur farþega fari þannig. Við vitum að það kom í eitt skipti flugvél þar sem 10% voru smituð. Þannig að við hljótum að geta gert þetta. Ef aðrar þjóðir geta sett svona takmarkanir þá eigum við að geta gert það líka.