151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum hefur nú fengið dágóða umfjöllun í hv. velferðarnefnd. Vil ég byrja ræðu mína á því að ræða það sérstaklega, af því að af stað fór einhver furðuleg flugufregn um að dráttur hefði orðið á málinu, einhver hefði verið að valda töfum í hv. velferðarnefnd, einhverjir stæðu í vegi fyrir því að málið yrði afgreitt o.s.frv., og kem ég hingað upp til að leiðrétta þá sögusögn. Mikill einhugur var í öllu nefndarfólki að klára þessa vinnu fljótt en líka vel, kasta hvergi til höndum heldur bæta við aukafundum í nefndinni til þess að hægt væri að vinna þetta mál með sóma og ég tel að það hafi verið gert. Nefndin fékk til sín fjölbreyttan hóp gesta úr ýmsum áttum sem höfðu ólíkar skoðanir á málinu og það er einmitt þannig sem nefndir eiga að vinna, reyna að skoða málin út frá öllum mögulegum hliðum, kalla aftur höfunda frumvarpa inn fyrir nefndina, fá ýmsar ábendingar frá þeim eða svör eða hvaðeina við þeim umsögnum sem bárust o.s.frv.

Engum dylst að nauðsyn er á aðgerðum til sóttvarna þegar heimsfaraldur geisar, eins og sá sem nú er. Að mjög margra mati er líka nauðsynlegt að gera breytingar á sóttvarnalögum. Hvers vegna? Jú, vegna þess að við verðum að tryggja að skýr lagastoð sé fyrir þeim aðgerðum sem stjórnvöld, heilbrigðisyfirvöld, beita vegna þess að um er að ræða þrengingar á grundvallarmannréttindum fólks með mjög víðtækum hætti. Við erum að tala um stjórnarskrárvarinn rétt almennings, um ferðafrelsi, um friðhelgi einkalífs, um atvinnufrelsi, fundafrelsi, frelsi til að koma saman o.s.frv. Það eru engin smámál sem við höfum verið að fjalla um í hv. velferðarnefnd hvað það varðar.

Þess vegna, herra forseti, þykir mér örlítið miður að ekki hafi tekist að koma í gegn að þessu sinni breytingum á sóttvarnalögum er varða aðkomu almennings. Það er reyndar svo að heildarendurskoðun á sóttvarnalögum mun bíða betri tíma og voru allir sammála um að óráðlegt væri að fara í heildarendurskoðun í miðjum heimsfaraldri og ég er alveg innilega sammála því. Þegar við sjáum bersýnilega hvernig valdið þrengist niður á eina til tvær manneskjur og í raun bara eina þá hefði ég haldið að það væri betra, ráðlegra, fyrir löggjafann sem og framkvæmdarvaldið, að veita skýrt lagaboð um það hingað inn og út til almennings að valddreifing væri þegar um svo íþyngjandi aðgerðir er að ræða.

Hvað er ég að tala um þar? Í nefndaráliti er fjallað um tilkynningarskyldu ráðherra. Þar var tekin ákvörðun um að mikilvægt væri að heilbrigðisráðherra yrði falið að upplýsa Alþingi reglulega um framvindu smitsjúkdóma og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og eru því lagðar til þær breytingar að hæstv. heilbrigðisráðherra gefi Alþingi skýrslu um sóttvarnaaðgerðir sem varað hafa lengur en í tvo mánuði. Í mínum huga er skýrsla, sem farið er yfir hér í þingsal án þess að þingmenn geti kynnt sér efni hennar fyrir fram, þótt ekki væri nema bara kvöldið eða morguninn áður, og þeir eiga svo að bregðast við, ófullnægjandi til þess að heilbrigðisráðherra hafi skýra lagaheimild fyrir þeim aðgerðum sem hann beitir.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hverju sinni hefur lagaheimild en ég tel mikilvægt að þegar um svo íþyngjandi aðgerðir er að ræða, sem dansa á grárri línu stjórnarskrárvarinna réttinda, sé nauðsynlegt að fá aðkomu löggjafans, hins lýðræðislega Alþingis, þar sem fulltrúar allra landsmanna sitja, að slíkum aðgerðum. Ég tel ekki þörf á því að hingað inn berist allar sóttvarnaaðgerðir til staðfestingar. Ég tel ekki til bóta að töf verði á máli. Þegar um er að ræða ákvörðun um rekstrarstöðvun, sem hefur verulegar afleiðingar fyrir almenning, fyrir þá sem starfa þar, fyrir eigendur og þess háttar, og ýmsar aðrar verulega íþyngjandi aðgerðir, lokun landamæra, þar sem áður var inni útgöngubann o.s.frv., tel ég að heilbrigðisráðherra hverju sinni eigi að taka hana en að innan viku skuli sú ákvörðun borin undir Alþingi til staðfestingar.

Þetta er ekkert út í bláinn, herra forseti, vegna þess að þetta er iðkað í löndunum í kringum okkur. Það er nákvæmlega svona sem verið er að gera þetta annars staðar. Þar fara jafnvel þjóðþing inn í smæstu atriði. Ég tel ekki þörf á því. Ég tel ekki þörf á því að þegar komin er grímuskylda að það þurfi að bera undir Alþingi. Það er ekki svo íþyngjandi aðgerð að mínu mati. En þegar um er að ræða aðgerðir sem hafa veruleg áhrif á daglegt líf fólks, og veruleg efnahagsleg áhrif, er það bæði mikilvægt í þágu almennings hér á landi og fyrir heilbrigðisráðherra hverju sinni að hin lýðræðislega kjörna samkoma komi að slíkri aðgerð.

Ég hefði viljað sjá þá breytingu í þessu máli, en því miður féllst meiri hlutinn ekki á að við færum sömu leið og önnur Norðurlönd, að færa endanlegt ákvörðunarvald eða staðfestingarvald hingað inn í þingið. Ég held að það sé líka mikilvægt fyrir ráðherra að standa ekki einn í brúnni með allar þessar mjög svo íþyngjandi ákvarðanir. Sums staðar erlendis er líka farin sú leið að það sé ekki bara einn ráðherra sem þurfi að staðfesta svona ákvarðanir heldur a.m.k. tveir. Einnig var rætt í nefndinni hvort það gæti verið málið. En þá var viðkvæðið: Nei, við erum með fjölskipað stjórnvald. En þess þá heldur að koma með málið hingað inn. Alþingi Íslendinga er vant því að þurfa á stundum að bregðast hratt við. Við höfum í þessum faraldri séð Alþingi setja lög þar sem frumvarp hefur komið inn að morgni og verið afgreitt seinni partinn. Við höfum líka séð það hér, t.d. í lögum um vinnustöðvun, þegar sett eru lög á verkföll, að þau eru afgreidd hér á nokkrum klukkutímum frá Alþingi. Alþingi getur brugðist svona við og svona sóttvarnaaðgerðir eru auðvitað ekki nema á einhverjum hamfaratímum eins og þeim sem við höfum lifað. Ég hefði haldið að þetta væri algjört lykilatriði.

Heildarendurskoðun laganna bíður betri tíma. Endurskoðun á stjórnsýslu sóttvarna bíður líka betri tíma, þar á meðal breytingar á sóttvarnaráði. Þær tillögur sem lágu fyrir í frumvarpinu, um að breyta sóttvarnaráði sem ætti að móta stefnu í sóttvörnum yfir í að vera eingöngu ráðgefandi, eru felldar burt og ég tel að það sé gott. En þá langar mig að árétta það og hvetja heilbrigðisyfirvöld á Íslandi til að fara þá að sóttvarnalögum vegna þess að í sóttvarnalögum kemur einmitt fram að sóttvarnaráð móti stefnu og sé til ráða þegar kemur að sóttvörnum. En það kom fram fyrir hv. velferðarnefnd að sóttvarnaráð hefur ekkert verið kallað að borðinu í það tæpa ár sem heimsfaraldur hefur ríkt, þar sem þurft hefur að grípa til fjölmargra sóttvarnaaðgerða. Á slíkum tímum hefur sóttvarnaráð, sem er lögbundið, ekkert verið kallað saman til slíkra aðgerða. Ég átta mig ekki alveg á hvort heimilt sé að skilja sóttvarnaráð svona algerlega eftir, a.m.k. ekki miðað við núgildandi lög.

Það er mjög mikilvægt að tekið sé skýrt fram að stjórnsýslulögin gildi og þau gilda auðvitað. En ég geld líka varhuga við þeirri heimild sem sóttvarnalækni er veitt í þessu, sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á í andsvari hér í dag, til að veita munnleg stjórnvaldsfyrirmæli. Árið 2021 tekur nokkrar sekúndur að senda tölvupóst úr síma eða smáskilaboð. Ef rafmagnið og allt fjarskiptasamband fer af landinu er hægt að hripa hlutina niður á blað með kúlupenna. Það tekur ekki lengri tíma að hafa slíka ráðstöfun einhvers staðar niðurritaða í tölvupósti, smáskilaboðum eða bara hripa hana niður á servíettu. Mér þykir býsna óvarlegt að veita heimild til munnlegrar stjórnvaldsákvörðunar af því að þegar um er að ræða svo brýnt ástand að grípa þurfi inn í með íþyngjandi aðgerðum þá er eins gott að ekki sé hægt að vefengja að það hafi verið gert. Sóttvarnalæknir er sjaldnast sjálfur í öllum útköllum og þegar hv. framsögumaður málsins, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, rökstyður þetta með því að þær aðstæður gætu verið uppi að skip væri að koma að bryggju þá verð ég bara að segja að það tekur nú dágóðan tíma fyrir skip að koma að bryggju, það er bara þannig, og að festa landfestarnar. Á öllum þeim tíma gefst sóttvarnalækni ómældur tími, óteljandi tækifæri, til að senda stuttan tölvupóst með stjórnvaldsfyrirmælum. Mér þykir þetta engan veginn fullnægjandi rök fyrir því að ákvörðun sé tekin um svona mikilvægan punkt. Hvað ef einhver vefengir að þetta hafi átt sér stað, orð gegn orði?

Sóttvarnahús var þó nokkuð rætt og ég tel mikilvægt að fjallað sé um mikilvægi þess að fólk fari í sóttvarnahús. Ekki er heimild fyrir því lengur að skylda fólk í sóttvarnahús en verið er að skýra betur sóttvarnahús þannig að heimildir séu til að opna slíkt hús á vegum stjórnvalda. Ég myndi telja mikilvægt að hafa skýrt valdboð til stjórnvalda um að þeim beri að halda úti sóttvarnahúsi ef þau leggja það á fólk að vera í slíku húsi, þ.e. þegar sú staða er komin upp, tilmæli til fólks um að fara í sóttvarnahús, þá sé um leið skýrt valdboð á stjórnvöldum að hafa slíkt hús til reiðu.

Nú er búið að fella út aðgerðir á landamærum er varða skyldubólusetningu og útgöngubann. Þær heimildir eru víða annars staðar. Sitt sýnist hverjum varðandi það hvort nú þegar sé heimild í sóttvarnalögum til að sóttvarnalæknir geti kveðið á um skyldubólusetningu. Hann hélt því sjálfur fram á dögunum að sú heimild væri nú þegar í lögunum en það hefði aldrei hvarflað að honum að beita henni. Í frumvarpinu var talað um skyldubólusetningu á landamærum en fallið var frá því. Ég verð að segja að ég sé ekki þessa heimild í lögunum. Ég sé þá heimild í lögunum að ráðherra getur sett í reglugerð ákvæði um ónæmisaðgerðir en það er ekki ákvæði um skyldu til ónæmisaðgerða. Og ég held að slíkt lagaboð verði að vera algjörlega skýrt, að það séu ekki bara ónæmisaðgerðir, það eru t.d. þær aðgerðir sem nú er verið að boða, þ.e. varðandi það í hvaða röð fólk fer í bólusetningu o.s.frv.

Varðandi útgöngubann og slíkt er ég þeirrar skoðunar að betra sé að hafa hlutina í lögum en að hafa þá ekki í lögum. Við höfum tekist svolítið á um nauðsyn þess, þegar verið er að grípa til skyldu eins og á landamærum um tvöfalda skimun, að til staðar sé skýrt lagaboð. Það var svo merkilegt að fyrir nefndina komu fjölmargir lögspekingar, sem eru sérfræðingar í stjórnskipun, sem efuðust stórlega um að lagaheimild væri fyrir sumum þeirra aðgerða sem nú er gripið til. Sama sagði dr. Páll Hreinsson í sinni skýrslu, að það skorti lagaheimildir fyrir aðgerðum. Þegar kemur að tvöfaldri skimun var því haldið fram hér framan af að ekki væri lagaboð en skyndilega fundust lagaheimildir fyrir því. Ég er ekki sammála því að lagaheimild hafi verið fyrir því og ekki þeir lögmenn sem mættu fyrir nefndina. Ég fagna því auðvitað að við ætlum að fara að setja lög um þetta til að styðja við þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til en verð þó að lýsa yfir áhyggjum af því að tekin sé ákvörðun um að fara ekki í ýmsar aðrar aðgerðir sem þó er verið að beita úti í heimi. Við höfum auðvitað verið mjög heppin að undanförnu að þurfa ekki að fara í þær aðgerðir, eins og t.d. útgöngubann. En ég verð þó að segja að ég vil hafa hlutina í lögunum þó að ekki þurfi að beita þeim frekar en að tekin sé ákvörðun um að beita mjög íþyngjandi aðgerðum án lagaheimildar. Ég er bara þannig hneigð.

Að lokum vil ég taka það fram að það er fjölmargt gott hér, verið er að stytta kærufresti, skýra þá betur o.s.frv. En tíminn er búinn þannig að ég verð að láta þetta gott heita.