151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

skerðingar.

[14:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Undur og stórmerki eru að gerast. ASÍ hefur rumskað af þyrnirósarsvefni og hefur hrokkið upp með andfælum af skerðingarsvefninum langa. Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir orðrétt í nýlegri grein, með leyfi forseta:

„Hér á landi hefur hins vegar ekki tekist að tryggja afkomu fólks og það er fullt tilefni til að hafa áhyggjur af spillingu og auknum ójöfnuði. Það verður ekki sagt nógu oft að grundvöllur friðar og lýðræðis er að tryggja afkomu. Það má enginn vera undanskilinn; launafólk, atvinnuleitendur, öryrkjar, aldraðir. Allir eiga að búa við afkomuöryggi í sanngjörnu samfélagi. Misréttið var til staðar fyrir kófið. Fólk hefur löngum verið sett í spennitreyju víxlverkandi skerðinga í velferðarkerfinu og oft og tíðum gert ómögulegt að bæta líf sitt án þess að eiga á hættu að missa framfærslu til framtíðar. Þetta er ósanngjarnt og býr til meiri erfiðleika en þurfa að vera. Vísbendingar eru um að kófið muni heldur auka á ójöfnuð og koma verst við þá sem höllum fæti standa en vænka hag hinna. […] Árið 2022 gæti orðið skerðingarlaust ár, svona svipað og skattlausa árið á níunda áratugnum. Þá hefði fólk tækifæri til að bæta líf sitt, vinna eftir getu og losna tímabundið úr spennitreyjunni.“

Þarna er forseti ASÍ að kynna hugmyndir um skerðingarlaust ár en Flokkur fólksins hefur flutt ítrekað frumvarp um tvö skerðingarlaus ár í vinnu. Hvernig líst hæstv. fjármálaráðherra á þessar hugmyndir ASÍ? Og í þessu samhengi að stöðva líka keðjuverkandi skerðingar á t.d. húsaleigubótum og sérstökum húsaleigubótum og taka einnig inn í þetta aðrar ósanngjarnar og mannskemmandi keðjuverkandi skerðingar?