151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

skerðingar.

[14:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi svör en ég verð að segja að ég bara skil þau ekki. Hvernig í ósköpunum fær hann það út að þeir sem fá sérstakar húsaleigubætur standi vel, (Fjmrh.: Almennar …) séu algerlega (Fjmrh.: Almennar skerðingar …) á góðum stað? Og hvernig í ósköpunum dettur honum í hug að einhver borði meðaltal launa? Það borðar enginn meðaltal launa, það er útilokað. Þú borðað það sem þú færð. Þeir sem eru t.d. að detta út af atvinnuleysisskrá, hvert fara þeir? Þeir fara á félagslega kerfið. Hvernig virkar félagslega kerfið? Ef það eru einhvers staðar skerðingar þá eru þær þar. Þar er króna á móti krónu skerðing, skerðingar vegna maka. Þetta er svo ömurlegt. Það er verið að setja fólk í þær aðstæður að það hefur ekki efni á húsaleigu, hefur ekki efni á mat fyrir börnin sín eða neitt vegna þess að það á að lifa á einni fyrirvinnu og það gat ekki einu sinni áður lifað á tveimur. Segðu að þetta sé best haldna fólkið, að þetta sé fólkið sem hefur það best og þar af leiðandi eigi ekki að taka skerðingar af því.