151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[15:03]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að láta málið snúast um annað er í raun um mjög einfalt mál að ræða, þ.e. að lögum sé framfylgt. Því miður hefur viljað brenna við að svo sé ekki hvað varðar þessi lög. Þegar engin viðurlög eru við brotum er enda auðvelt að leyfa sér að horfa fram hjá þeim. Það er svo merkilegt að einhverjir virðast telja að sumum lögum sé óþarfi að fylgja á meðan annað gildir um önnur og í þeirra huga greinilega merkilegri lög. Það er alveg ljóst að lög eru sett af góðri ástæðu og það var sannarlega ástæða til þegar þessi lög voru sett á sínum tíma, lög um hlutfall kynja í stjórnum. En við fjöllum ekki um þau lög hér heldur fjöllum við um hver viðbrögð og viðurlög eiga að vera þegar lögum er ekki fylgt. Hér greiðum við atkvæði um að hægt verði að beita sektarákvæðum þegar lögin eru brotin og þingflokkur Samfylkingarinnar styður að svo verði.