151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[15:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Skilningur minn er sá að málið fari til nefndar milli umræðna, milli 2. og 3. umr. Það er vel því að það er allt í lagi að ræða þetta betur. Mig langar að segja að mér er illa við svona lög. Mér finnst vont að hafa svona lög í lagasafninu en mér finnst verra að þau séu nauðsynleg. Ég vona að það komi sú tíð að við þurfum ekki svona lög, að við þurfum ekki að vera að rífast um það hér hvort við séum jafnréttissinnar eða ekki. Mitt mat á þessum tímapunkti er að við þurfum svona lög, því miður. Ég vil því segja við einkaaðila og fyrirtæki: Sannið að þau þurfi ekki, sannið að þetta gerist sjálfkrafa án þess að löggjafinn grípi inn í. Þá getum við fjarlægt þessi lög. En þangað til verðum við föst í þessari umræðu, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.