151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[15:07]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég segi nei við þessu frumvarpi af mörgum ástæðum. Ég hef orðið var við að þingmenn þyrpast hingað upp í ræðustól til að lýsa því yfir að þeir styðji jafnrétti. Það geri ég líka. Þetta er bara ekki rétta leiðin til þess. Jafnrétti er ekki það sama og jafnstaða. Þá ættum við líklega að setja það í lög að jafn margir stúdentar af báðum kynjum eigi að vera í háskólum landsins og ákveða refsingu við því ef svo er ekki. Við getum gengið mjög langt í þessu. Þetta er alröng leið. Við erum að ganga á ystu nöf varðandi eignarrétt, að mati fræðimanna, einnig gagnvart félagafrelsinu. Við erum að þvinga félög, frjáls félög sem eru í eigu fólks úti í samfélaginu, til að kjósa í stjórnir fólk af báðum kynjum, ef svo má segja. Við erum að þvinga og leggja sektir við því ef það er ekki gert. Þetta er ekki jafnrétti. Við göngum hér allt of langt. Alþingi gengur allt of langt í þessu máli. Ég segi nei.