sóttvarnalög.
Virðulegi forseti. Full ástæða er til að þakka hv. velferðarnefnd fyrir þá mikilvægu samstöðu sem náðist í nefndinni við vinnslu þessa máls. Öll nefndin hefur lagt sitt af mörkum til að ná þeirri samstöðu, eins og raunar hefur verið hjá þjóðinni og þinginu í langflestum málum er snúið hafa að faraldrinum. Hér er tekið á þeim þáttum sem þörf er á að skýra betur nú og lögunum breytt til skýrleika og til að styðja þær heimildir sem sóttvarnayfirvöld þurfa að hafa. Breytingartillögurnar eru allnokkrar og endurspegla annars vegar vilja nefndarinnar til að ná sameiginlegum lendingum og hins vegar þá sameiginlegu sýn nefndarinnar að heildarendurskoðun laganna þurfi að hefjast sem fyrst. Það er fagnaðarefni að þessi samstaða skuli hafa náðst, herra forseti, og ég fagna því að málið sé komið á þennan stað.