151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:16]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á sóttvarnalögum. Málið kom seint fram í ljósi þess að álitsgerð Páls Hreinssonar kom fram í september. Sú sem hér stendur hefði viljað sjá að unnið hefði verið upp úr þeim þáttum sem hann tiltók að mikilvægt væri að vinna í strax og koma lagastoðum undir. Það var ekki gert. Málinu var frestað ítrekað og fyrirvari minn snýr að málsmeðferðinni sem ég hefði viljað að væri vandaðri hér á hinu háa Alþingi. En ég fagna hins vegar því að tillögur um útgöngubann og skyldu til bólusetningar á landamærunum hafi verið teknar út og það er þakkarvert að nefndarvinnan hafi leitt til þess að samstaða náðist um þessa hluti, þetta mikilvæga frumvarp, að skotið sé lagastoð undir heimildir. Þá set ég fyrirvara við ákvæði um munnlega stjórnvaldsákvörðun sóttvarnalæknis. Mér fundust ekki færð greinargóð rök fyrir því hvernig það ætti að vera, hvernig því yrði fylgt eftir o.s.frv. (Forseti hringir.) Á tímum hátækninnar sér maður varla ástæðu til þess. En ég fagna þessu.