sóttvarnalög.
Herra forseti. Það er ánægjulegt að þetta mál sé til afgreiðslu í jafn víðtækri sátt og raun ber vitni. Það er mikilvægt að renna styrkum stoðum undir mikilvægar, nauðsynlegar sóttvarnaaðgerðir. Það er ekki síður mikilvægt að við sem erum í þessum sal stöndum vörð um persónufrelsi og atvinnufrelsi fólks.
Á sama tíma og ég fagna því að við skyldum hafa náð þessari lendingu, nefndin, þá verð ég að segja að það er allt að því óþægileg tilhugsun að vita til þess að málið eins og það var upphaflega, þegar nefndin fékk það til vinnslu, skuli hafa farið þannig frá ríkisstjórnarflokkunum þremur, ekki síst með tilliti til útgöngubannsákvæðisins. Ég nefni þetta sérstaklega hér vegna þess að við höfum núna í hátt í ár rætt hvort það sé yfir höfuð nauðsynlegt að þingið komi að hinum ýmsu málum sem varða sóttvarnaaðgerðir og annað slíkt. Ef eitthvað færir okkur heim sanninn um mikilvægi þingsins er það lendingin í þessu máli. Ég hvet til þess að þegar við förum í nauðsynlega endurskoðun á heildarlögunum gefum við okkur tíma, hlustum á öll sjónarmið og vöndum vel til verka.