151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[16:30]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis og einnig á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Eins og fram kemur í fyrirsögn frumvarpsins snýr þetta að allmörgum þáttum, starfi þingnefnda, tímafrestum, eftirliti, starfsfólki Alþingis og stjórnsýslu og kjörum skrifstofustjóra, þ.e. sá þáttur sem tengist inn í lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Flutningsmenn frumvarpsins ásamt mér eru aðrir þingmenn sem sátu í þingskapanefnd sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka á Alþingi. Að uppistöðu til voru það formenn þingflokkanna en þó var hv. þm. Karl Gauti Hjaltason t.d. fulltrúi síns þingflokks í starfinu og í einhverjum tilvikum mættu aðrir fyrir hönd sinna þingflokka en þingflokksformennirnir, en að uppistöðu til var það sami hópurinn sem hélt utan um þetta mál og stendur sameiginlega að flutningi frumvarpsins þó að sjálfsögðu áskilji einstakir nefndarmenn sér rétt til að hafa skoðanir á einstökum atriðum þegar í vinnslu málsins er komið. Þetta er 151. mál þessa löggjafarþings, á þskj. 790.

Frumvarpið er, eins og hér hefur komið fram, afrakstur talsverðrar vinnu í núverandi þingskapanefnd sem hefur starfað með hléum á þessu kjörtímabili, þó nokkuð samfellt, enda hefur af og til verið ýmislegt að gera hjá henni, en að nokkru leyti nær þetta lengra aftur og hér er nýttur afraksturinn af starfi fyrri þingskapanefnda sem störfuðu á undangengnum kjörtímabilum en skiluðu ekki endilega alltaf þeirri niðurstöðu sem menn vonuðust til eða náði, af ýmsum ástæðum, ekki fram að ganga, þar á meðal vegna óvæntra þingkosninga til baka litið o.s.frv.

Það var auðvitað haft að leiðarljósi við vinnu nefndarinnar að þetta frumvarp myndi styrkja og efla Alþingi, að það legði grunn að því að hægt væri að skipuleggja þingstörfin betur, treysta vandaða lagasetningu í sessi og fagmennsku í vinnubrögðum. Þau ákvæði snúa bæði að leikreglunum og að okkar starfsfólki, að styrkja eftirlits- og aðhaldshlutverk Alþingis og skýra leikreglur þar sem vafi hefur þótt leika á um eitthvað, t.d. í nefndarstarfi, og í nokkrum tilvikum er um það að ræða að verið er að festa í sessi eða færa í lög venjur og hefðir sem eru eftir atvikum tiltölulega óumdeildar en traustara þykir að hafi lagastoð.

Síðan eru allmörg nýmæli í frumvarpinu sem ég mun fara betur yfir á eftir. Þar má m.a. nefna að hér er lagt til að í fyrsta sinn komi sjálfstæður og heildstæður kafli inn í þingsköp um skrifstofu Alþingis og stjórnsýslu og hann leysir af hólmi þau takmörkuðu lagaákvæði sem áður hefur verið að finna um þetta á víð og dreif í þingsköpunum. Komið er inn á heimildir þingsins til að krefja stjórnvöld upplýsinga og settur skýrari rammi um meðferð þeirra mála í þingnefndum. Það má nefna að frestur til að svara skriflegum fyrirspurnum verður lengdur úr 15 í 25 virka daga samkvæmt frumvarpinu. Það nær þó rétt tæplega að verða meðaltalssvartíminn þannig að því miður mætti ætla að það gerðist eftir sem áður alloft að beðið yrði um enn lengri frest til að svara fyrirspurnum. En nálgunin hér er sú að rýmka þennan tíma nokkuð í ljósi reynslunnar og í ljósi þeirrar stöðu sem við stöndum frammi fyrir að í langflestum tilvikum biðja ráðuneytin um eitthvað lengri frest til svara. Á móti kæmi að ganga í framhaldinu mun ákveðnar eftir því að fullnægjandi skýringar væru færðar fram ef þessi rýmkaði tímafrestur dygði ekki til.

Hér er lagt til að skýrslubeiðnir skuli ekki settar á dagskrá þingfundar fyrr en tveimur nóttum eftir að þær eru lagðar fram og mætt þar sjónarmiðum um að eðlilegt sé að þingmenn sem eiga að taka þær til atkvæðagreiðslu fái örlítinn umþóttunartíma til að skoða þær, en samkvæmt gildandi reglum ber forseta, eins og kunnugt er, að setja beiðnina á dagskrá þegar á næsta fundi.

Þá er líka lagt til það nýmæli, þegar lögð er fram beiðni um skýrslu, þegar níu þingmenn eða fleiri beiðast skýrslu af ráðherra — samkvæmt gildandi þingsköpum ber að reyna að skila slíkri skýrslu innan tíu vikna en það heyrir til hreinna undantekninga að slíkt náist. Hér er að vísu ekki lagt til að þeim tímamörkum verði breytt en heimilt að kveða á um rýmri tíma í skýrslubeiðninni sjálfri. Það leggur þá eftir atvikum skýrslubeiðendum þá skyldu á herðar að leggja nokkurt mat á það hversu umfangsmikið verkið er sem þeir eru að fara fram á.

Til þess að hlaupa hratt yfir þetta, herra forseti, eins og þetta kemur fyrir í frumvarpinu, þá eru nokkur atriði hér fremst sem lúta að því að lagastoð verði skotið undir kjörbréfanefnd sem hægt sé að skipa strax að loknum kosningum í fullu umboði og á grundvelli laga en hún sé ekki sett umboðslaus eingöngu til undirbúnings því að formleg kjörbréfanefnd sé kosin.

Í 2. gr. er nýmæli þar sem settur er inn sá kostur eða sá möguleiki að kveðja aldursforseta, þann sem elstur er í röðinni á þingfundi, til fundarstjórnar ef svo afbrigðilega vill til að forseti forfallist eða þurfi að víkja af fundi og ekki sé tiltækur varaforseti til að fylla í skarðið.

Í 3. gr. er kveðið skýrar á um sumarleyfi þingsins sem samkvæmt þingsköpum stendur að jafnaði frá júlímánuði og fram til 10. ágúst, en sleginn sá varnagli til skýringar, þetta er auðvitað óbreytt miðað við þá túlkun sem verið hefur, að slíkt eigi að sjálfsögðu eingöngu við hafi Alþingi áður verið frestað með þingsályktun, þ.e. sumarleyfið hefst ekki ef Alþingi er áfram að störfum

4. gr. er 11. gr. orðuð upp á nýtt og snýr að ráðningu skrifstofustjóra Alþingis og hlutverki og skyldum skrifstofustjóra, auk þess sem þar er að finna málsgrein um starfsfólk og skyldur þess sem líkist mjög því sem nú er kveðið á um í stjórnarráðslögunum hvað varðar starfsmenn Stjórnarráðsins, að starfsmönnum beri að vinna sitt starf af fagmennsku, að sjálfsögðu, veita réttar upplýsingar og ráðgjöf sem byggist á gögnum, staðreyndum og besta fáanlega mati, til að greiða götu þess að þingmenn geti sinnt sínu hlutverki vel. Að öðru leyti er ekki fjallað um skrifstofuna eða starfsfólk að heitið getur fyrr en svo í þessum nýja sjálfstæða kafla aftan til í þingsköpunum sem ég nefndi áður.

Lagt er til, svo að dæmi sé tekið, það nýmæli að heimilt sé að hafa mannaskipti í nefndum á milli þingflokka. Í viðbót við núverandi heimild, um að þingflokkur geti tilkynnt um og hreyft til sinn mannskap í þingnefndum án þess að það kalli á kosningu, geti þingflokkar sem eftir atvikum starfa í kosningabandalagi, og hafa í upphafi þings gert bandalag um skiptingu þingnefndasæta sín í milli, fært til sín á milli ef það auðveldar slíkt og er þá til að auka svigrúm þingflokka sem ganga í samstarf af því tagi að mæta aðstæðum sem kunna að koma upp á kjörtímabilinu.

Betur er hnykkt á samráðsskyldu framkvæmdarvaldsins við utanríkismálanefnd og tekið fram að slíkt samráð eigi sér að jafnaði stað fyrir fram. Það þykir eðlilegt en í lögskýringum er auðvitað tekið fram að ef ómöguleiki hindrar þá teljist það ekki brot á þessu ákvæði. Það er mikilvægt að leggja áherslu á það að hið reglulega sumarhlé þingsins hefur ekki áhrif á og þrengir ekki á neinn hátt að þessu samráðshlutverki utanríkismálanefndar við ríkisstjórn né heldur að hinu almenna eftirlits- og aðhaldshlutverki almennt, enda geta nefndir, ef mikið liggur við, haldið fundi þó að um sumarhlé sé að ræða. Færð eru upp til veruleikans í dag ákvæði á nokkrum stöðum sem lúta að skýrslugjöf utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál en þær skýrslur eru nú orðnar fleiri en áður var.

Skýrð eru betur ákvæðin sem gilda komi til þess að nefnd kjósi sér að nýju formann eða varaformann á kjörtímabilinu og hvernig nákvæmlega um það verður búið. Lagt er til það nýmæli að almennt verði tilgreint í fundarboðum fastanefnda, ef til stendur að afgreiða mál eða bera mál upp til afgreiðslu á fundi þannig að fyrirsjáanleiki og gagnsæi í störfum nefndarinnar sé aukið að þessu leyti. Óhaggaður stendur þó réttur nefndarmanna til að geta lagt til að mál verði afgreitt og ber þá formanni nefndar, eða þeim sem fundi stjórnar, að láta slíkt fara til atkvæða en þá er sett sú skylda á að meiri hluti allra nefndarmanna standi að afgreiðslu málsins. Sé hins vegar tillaga um að ljúka umfjöllun um mál og afgreiða það borin upp af annaðhvort formanni eða framsögumanni er það hefðbundin afgreiðsla þingnefndar og er það þá meiri hluti af ályktunarbærum fundi sem er myndugur til slíks. Skrifi nefndarmaður undir álit með fyrirvara er hnykkt á því að hann skuli þá gera stuttlega grein fyrir því í hverju fyrirvari hans er fólginn og það eykur sömuleiðis á gagnsæi.

Vikið er að þeim möguleika að innleiðing á reglum sem byggjast á EES-gerðum geti farið fram með öðrum hætti en með þingsályktun, t.d. beint með lagafrumvarpi, en á þann möguleika hefur reynt þó sjaldgæfur sé. Gerð eru skýrari ákvæði um atkvæðagreiðslur og möguleika forseta til að fækka atkvæðagreiðslum þegar hann hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli og atkvæði muni falla eins út í gegnum atkvæðagreiðsluna, þ.e. þegar ekki er um ágreining að ræða eða hann er afmarkaður. Ástæðulaust er að eyða lengri tíma í atkvæðagreiðslu í málum þar sem slíkt á við og atkvæðagreiðslan er endalaus endurtekning á hinu sama. Óhaggaður stendur réttur þingmanna til að láta brjóta upp atkvæðagreiðslu og bera hvert og eitt ákvæði, hverja og eina tillögu eða jafnvel hálfa setningu undir atkvæði ef svo ber undir.

Hér er eitt atriði til viðbótar sem tengist atkvæðagreiðslum eða því sviði lagt til og það er að ekki þurfi að leita afbrigða vegna breytingartillagna þingmanna við 2. og 3. umr. um fjárlög og fjáraukalög, þ.e. að á meðan á umræðu stendur megi leggja fram breytingartillögu án þess að heimila þurfi sérstaklega með afbrigðum að taka hana á dagskrá. Á móti kemur sá varnagli að um slíkar tillögur verða ekki greidd atkvæði fyrr en að nóttu liðinni.

Síðan kem ég að því sem snýr að skrifstofu Alþingis og skrifstofustjóra og er það nýr kafli. Ég ætti kannski að nefna það fyrst, ef ég var ekki búinn að taka sérstaklega til þess, að í 23. gr. frumvarpsins er mikilvægt ákvæði þar sem tekið er af skarið um að eftirlitshlutverk Alþingis taki einnig til svonefndra sjálfstæðra stjórnvalda. Þannig hefur verið litið á og á það hefur reynt, en rétt að það sé skýrt tekið fram í þingsköpum.

Þá að nýjum VII. kafla sem yrði í þingsköpunum með þessum breytingum um skrifstofu Alþingis og stjórnsýslu sem kæmi þar í fimm nýjum greinum. Vegna þess að þessi ákvæði eru öll færð saman á einn stað í einn kafla er á nokkrum stöðum að finna brottfellingarákvæði í frumvarpinu. Þar eru þá á ferðinni ákvæði sem færast þaðan yfir í þennan nýja kafla.

Þarna er í fyrsta lagi talað um ráðningu skrifstofustjóra og ráðningarkjör og að ákvörðun um laun og önnur starfskjör forseta Alþingis verði alfarið í höndum Alþingis. En sú niðurstaða varð að þetta lenti að hluta til inni í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þegar Kjaradómur var lagður niður en á þar augljóslega ekki heima og samrýmist ekki sjálfræði Alþingis að binda þetta slíkum ákvæðum heldur myndi þá eftirleiðis gilda nákvæmlega það sama um skrifstofustjóra Alþingis, þennan æðsta embættismann, að Alþingi ákvarðaði þau kjör eins og ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis.

Reynt er að draga upp með skýrari hætti hvernig verk skipast milli forseta Alþingis og skrifstofustjóra, þar á meðal með því nýmæli að forseti Alþingis setji skrifstofustjóra erindisbréf. Þá er sömuleiðis skýrara kveðið á um að skrifstofustjóri sé í forsvari þegar teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsfólks samkvæmt lögum um kjarasamninga og fleiri ákvæði sem skýra hlutverk og mikilvæg verkefni skrifstofustjóra er hér að finna.

Ákvæðin um starfsfólk, sem ég hafði lítillega vikið að áður, eru sömuleiðis til mikilla bóta að mínu mati. Þar er mælt fyrir um ráðgjafarskyldu starfsfólks skrifstofunnar sem skal í störfum sínum og í samræmi við hlutverk sitt og verkefni gæta fagmennsku, veita réttar upplýsingar og ráðgjöf, eins og áður sagði, og byggja á bestu fáanlegum gögnum, staðreyndum og faglegu mati. Það er mikilvægt að árétta þennan mikilvæga þátt sem snýr að starfsfólki Alþingis og þeirra gríðarlega mikilvæga hlutverki til að stuðla að því að hér geti farið fram vandað og gott löggjafarstarf og Alþingi að öðru leyti sinnt skyldum sínum vel. Þetta er að mínu mati löngu tímabær breyting að setja saman á einn stað og í einn kafla þau ákvæði sem lúta að skrifstofunni. Það er þegar þannig um það búið í þingsköpum eða starfsreglum sumra nágrannaþinga okkar.

Að lokum eru nokkur ákvæði sem færast á þennan stað sem lúta að hlutum eins og upplýsingalögum. Í þessum kafla þingskapanna yrðu þá núverandi ákvæði um að stjórnsýsla Alþingis falli undir upplýsingalög með þeim hætti sem þegar hefur verið lögfest, sömuleiðis er að finna ákvæði um bókasafn, skjalasafn Alþingis og skyldur í þeim efnum sem einmitt er ágætt að mæla fyrir um á einum og sama staðnum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Frumvarpið talar í sjálfu sér fyrir sig sjálft og ítarleg greinargerð þess gerir mjög rækilega grein fyrir þeim ákvæðum sem hér eru á ferð og lögskýringar að mínu mati mjög vandaðar, enda hefur mikil vinna verið lögð í það að búa um málið með slíkum hætti. Til dæmis má vekja athygli á mjög ítarlegri umfjöllun um 23. gr. sem snýr að eftirlitshlutverki þingsins.

Hér er auðvitað fyrst og fremst á ferðinni það sem við getum kallað tæknilegar lagfæringar, lögfesting á ýmsum nýmælum og færsla ákvæða til nútímans og þeirra hefða sem hér hafa skapast. Þegar á þessu þingi er búið að flytja tvö frumvörp um breytingar á þingsköpum. Hið fyrra var um fjarfundi og hefur þegar verið lögfest þannig að nú er starfað samkvæmt skýrri lagaheimild í þingsköpum þar um. Seinna málið tengist mikilli endurskoðun ákvæða jafnréttislaga og stjórnsýslu jafnréttismála sem hæstv. forsætisráðherra lagði hér fram allmörg frumvörp um á haustþingi og hafa reyndar flest verið gerð að lögum. Því tengdist lítið frumvarp sem flutt var af forsætisnefnd og er með vísireglum í þeim efnum að Alþingi skuli, eftir því sem hlutföll hér frekast leyfa, taka tillit til kynjasjónarmiða þegar það velur í stjórnir, nefndir og ráð og er þar gerður greinarmunur á annars vegar nefndum innan þings og hins vegar stjórnum og ráðum utan þings þar sem kynjahlutföll sem kosningar skila Alþingi til að vinna úr eiga ekki við. Það mál hefur verið um allnokkurt skeið í allsherjar- og menntamálanefnd og forseti bindur vonir við að nefndin nái fyrr en síðar að klára það mál. Í öllu falli er þá ágætt að af því sé vitað, þegar þetta mál gengur til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að þau ákvæði verða þá annaðhvort þegar komin inn í þingsköpin og á sinn stað eða horfa þarf til þess áður en þetta frumvarp fengi fullnaðarafgreiðslu.

Ég tel, virðulegur forseti, að með þessari endurskoðun sem á sér, eins og áður kom fram, alllangan aðdraganda — margt af þessu hefur verið hér til umræðu í tíð fyrri þingskapanefnd og forvera minna sem forseta Alþingis — værum við búin að ná nokkuð vel landi með uppfærslu þingskapa hvað tæknileg atriði og skýrleika snertir. En auðvitað hefur ekki verið hróflað við þeim stóru hlutum sem ber þó eðlilega á góma, sem eru reglur um ræðutíma og annað það sem setur sitt sterka mark á þingstörfin. Það var lengi ætlan mín að láta á það reyna að loknu þessu verki hvort vilji væri til þess meðal forystumanna hér á þingi að skoða slíkt nú undir lok kjörtímabilsins. Það hefur oft verið niðurstaða manna að ætli menn í slíkar breytingar, sem eru að sjálfsögðu vandasamar og viðkvæmar vegna jafnvægisins hér milli meiri hluta og minni hluta og einstakra flokka, væri e.t.v. vænlegast að glíma við slíkt undir lok kjörtímabils og jafnvel með það í huga að slíkt tæki gildi í upphafi nýs af ástæðum sem ekki þarf að útskýra fyrir reyndum stjórnmálamönnum, eru menn kannski opnari fyrir því að hugleiða breytingar á leikreglunum áður en þeir vita nákvæmlega í hvaða hlutverki þeir koma til með að vera þegar þeir fara að búa við þær. Það bíður þá síns tíma í öllu falli. Ég tel engu að síður rétt að upplýsa að ég hef hugsað mér að kalla formenn þingflokka og/eða þingskapanefndina aftur saman einhvern tímann á útmánuðum og fara yfir stöðuna í þeim málum.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu gangi málið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er hreint aukaatriði í mínum huga hvort það kemur til með að hljóta afgreiðslu í þeim skilningi eða það skjóta að það öðlist gildi gagnvart störfum þessa kjörtímabils eða bíði nýs. Aðalatriðið er að ég tel að hér sé um góðar og þarfar breytingar að ræða.