Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[18:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur að mörgu leyti verið athyglisverð og skemmtileg en mér finnst hún bera þess vitni dálítið hvað við ræðum raunverulega sjaldan saman um störf þingsins, skipulag starfa o.s.frv. Og síðan hefur það ákveðið skemmtigildi sem helgast náttúrlega af því í hvaða stöðu menn eru á hverjum tíma, hvort þeir tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu, að hér komi fólk og bölsótist yfir löngum ræðutíma, eins og það sé bara björt mey og hrein og hafi aldrei tekið þátt í málþófi eða lengt umræður að nokkru leyti. En þetta, eins og ég segi, hefur nú mest skemmtigildi.

Það er margt gott í frumvarpinu, það er t.d. eitt sem ég tók hér aðeins til, að það á að skerpa á eftirlitshlutverki þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þannig vill til að sá sem hér stendur er búinn að standa í þó nokkru strögli, afsakið, herra forseti, í þó nokkrum átökum má segja, við framkvæmdarvaldið um að fá fram sjálfsagðar upplýsingar sem varða almenning. Og svo því sé til skila haldið hefur forseti þingsins tekið að hluta mjög vel á til að slíkar upplýsingar kæmu fram. Það hefur hins vegar tekið nokkur ár að fá fram upplýsingar sem varða almenning en viðkomandi ráðherrar hafa sem sagt hangið á þeim eins og hundar á roði, ef ég má orða það þannig, herra forseti, og meira að segja fengið þá einkunn í greinargerð frá yfirlögfræðingi Alþingis að þeir hafi gengið á svig við lög um þingsköp og lög um ráðherraábyrgð með því að draga að svara fyrirspurnum um brýn mál. Þetta er eitt sem ég vildi aðeins koma fram með.

En síðan er annað af því að mönnum hefur orðið tíðrætt um langan ræðutíma o.s.frv. Jú, það er alveg rétt, við búum við þá venju, ég vil ekki kalla það hefð. Við búum við þá venju að meiri hluti hverju sinni stýrir náttúrlega þeirri ferð sem við erum á og menn höndla það misvel. Eitt er það t.d. sem markar störfin hér af því að mönnum verður tíðrætt um skipulagsleysi á Alþingi. Ég viðurkenni, herra forseti, að mér leiðist það þegar þingmenn tala niður starfið sem hér fer fram, að sumu leyti, að mér finnst að ósekju og ekki að réttu. Kannski er byrjunin á því að skipulagið sé ekki upp á það besta, þ.e. að ráðuneytin og einstakir ráðherrar koma seint fram með mál. Það hefur samt orðið bót á þessu en það þarf að skipuleggja þetta enn betur. Það eru hér tveir dagar á ári sem eru svona skiladagar og þess vegna verður þingsalurinn, segjum tvisvar á vetri, svolítið eins og bréfalúgan hjá skattstjóra í den síðasta daginn fyrir skattskil. Þetta þarf ekki að vera svona, herra forseti. Ef þetta væri skipulagt betur að hausti og jafnvel á fyrstu vikum nýs árs væru þingstörf ekki þannig að menn væru hér nætur og daga. Bara með þessu einu held ég að hægt væri að bæta störfin umtalsvert.

Í öðru lagi er þingmálaskrá ríkisstjórnar á hverjum tíma oft og tíðum það sett og það hlaðin, ég held í rauninni að það sé líka einn siður sem menn hafa tekið upp, eða ósiður, að tína til tugi þingmála sem eru sett á þingmálaskrá. Ég held að allir geri sér grein fyrir því, og líka ráðherrarnir sem um ræðir, að þetta muni ekki nást. En kannski er þetta til að búa sér til samningsstöðu því að eins og hér hefur komið fram setjast menn tvisvar á ári niður og reyna að ná samkomulagi um þingstörf, um þinglok bæði fyrir jól og vor. Ég segi aftur: Þetta þarf heldur ekki að vera svona.

Við höfum í rúmt ár búið við mjög sérstakar kringumstæður og ég verð að hrósa núverandi stjórnarandstöðu enn einu sinni fyrir að sýna ábyrgð þegar mikið liggur við og tefja ekki fyrir málum sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa í sjálfu sér haldið fram og þóst vita og jafnvel vitað að væru ekki upp á það besta, hafa samt ekki tafið þau en bent á að þau gætu verið betri og betur undirbúin. Og margt af því hefur komið á daginn. En það hafa engir tilburðir verið uppi á þinginu að menn séu að þvælast fyrir málum sem eru brýn út af því ástandi sem við búum við. Ég held að menn geti alveg svo sem virt það að stjórnarandstaðan, nánast sem einn maður, held ég, hafi unnið með þeim hætti.

En þegar við höfum þennan sið, sem ég segi ég aftur, að meiri hluti þingsins keyrir fram mál nokkuð hart stundum, þá er bara eitt ráð til fyrir þá sem eru í minni hluta og það er að grípa til mikilla umræðna sem stundum eru kallaðar málþóf. En þá ætla ég að segja annað: Við höfum líka dæmi um mál, mjög nýleg meira að segja, þar sem drjúg umræða hefur bætt þau mál, þ.e. þegar samningar hafa náðst um að afgreiða mál með einhverjum ákveðnum hætti, að gerðum ákveðnum breytingum, þá hafa þau mál batnað. Síðan verð ég að koma því að, ég held að það hafi verið minn ágæti vinur, Ögmundur Jónasson, fyrrverandi hv. þingmaður og ráðherra, sem var einn mesti skörungur í ræðustól árum saman, hann sagði einhvern tímann, ef ég man rétt, ég vona að ég hafi ekki rangt eftir honum, að í þessum sal ætti ekki að vera samstaða, það ættu að vera átök hérna. Vegna þess að við erum að fást við mál og við horfum á þau frá ólíku sjónarhorni. Við erum náttúrlega búin að láta kjósa okkur út á þessi mismunandi sjónarmið. Ef við héldum þeim ekki fram áfram eftir að hingað er komið þá værum við í sjálfu sér að bregðast því sem við hefðum lagt upp með þegar við sækjumst eftir því að komast hingað inn, þannig að auðvitað er þetta átakapunktur. En það er líka nauðsynlegt að þau átök, og það tekst lengst af, eigi sér upphaf hér inni og þau endi hér inni.

Svo að ég vitni í annan ágætan þingmann, núverandi forseta þingsins, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, þá man ég ekki betur en að hann hafi sagt mér einhvern tímann þegar ég var ungur maður, óreyndur þingmaður, að ef menn væru ekki færir um að skilja eftir hér inni það sem hér ætti sér stað væri Alþingi óbærilegur vinnustaður. Þetta er alveg laukrétt. Það er hugsanlegt, herra forseti, og nú ætla ég ekki að ganga í lið með þeim sem tala þingið niður, það vil ég ekki og það er engin ástæða til þess, ekki nokkur, en mér finnst samt að það örli á því — nú hef ég ekki mjög langa þingreynslu, ég er ekki búinn að vera hérna í 37 ár, ég er bara búinn að vera hér í sjö ár, held ég — mér hefur kannski fundist hallast aðeins á þetta eftir því sem á líður, þ.e. að menn hafi ekki getað stillt sig um að fara með átök héðan og fara með þau út fyrir salinn, sem er mjög miður, og auðvitað eigum við náttúrlega að kappkosta að geta stillt okkur um það. Síðan er annað líka sem er hugsanlegt, þrátt fyrir að mér finnist það ekki kannski vera lenska hér eða hafi aukist, að það séu einhver persónuleg átök, að menn persónugeri átök milli þingmanna. Mér hefur ekki fundist það aukast, alls ekki. Eins og ég segi, ég vil ekki taka undir með þeim sem tala þingið niður og það sem hér fer fram.

Það er aftur á móti annað mál, af því að í ágætri ræðu áðan sagði hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson að almenningur þyrfti að vita hvað við værum að gera hérna. Það er alveg laukrétt. Það stendur upp á Alþingi sjálft að kynna fyrir þjóðinni hvernig störfin fara fram. Þingmenn hafa sagt, sem hingað hafa dottið inn, eins og innkomu undirritaðs var lýst í blaði um daginn, að þegar menn detta inn reynist þeim nokkuð erfitt að komast inn í hvernig störfin ganga fyrir sig, hvað þá heldur hinum almenna borgara sem annaðhvort horfir á okkur í beinni útsendingu eða ekki. Ég verð t.d. að viðurkenna að fréttaflutningur af því sem hér gerist frá degi til dags hefur verið mér oft undrunarefni vegna þess að það virðist vera að hér sé helst tekið á því ef menn æsa sig við hvern annan og láta gamminn geisa, en ekki er verið að ræða það sem vel er gert. Það eru engar fréttir ef atkvæðataflan er algræn eins og yfirleitt oftast er. Það er ekki frétt, en það er frétt þegar menn standa hér og þurfa að standa hér og tjá sig verulega um einhver mál, þá er það frétt.

Það sem sumir kalla málþóf og aðrir kalla umræður þá man ég eftir nýlegu slíku þar sem rætt var um orkupakka þrjú. Fréttir af þeim umræðum í fjölmiðlum voru helst þær hversu margar ræður hver og einn þingmaður hafði flutt og hversu langar þær höfðu verið eða hversu löng umræðan hefði verið, en aldrei kom neitt fram um innihaldið, hvað verið var að ræða og af hverju það var. Það var eins og enginn gerði minnstu tilraun til þess að velta því fyrir sér.

Eins og ég sagði í upphafi finnst mér frumvarpið og efni þess bera með sér, og umræðan núna, að við tölum of lítið um störf þingsins og ættum að taka umræðu um þau oftar og jafnvel sérstaka umræðu sem væri þá tímamæld vegna þess að þrátt fyrir að hér sé um að ræða afurð sem allir eiga einhvern þátt í, vænti ég, sem sátu í þingskapanefnd, þá fer ekki hjá því að menn munu að sjálfsögðu taka þátt, og ég held að það sé nauðsynlegt. Þetta er ekki bara eitthvert mál, þetta eru þingsköp Alþingis, þetta er um þann ramma sem við störfum eftir og ég held að menn eigi bara að vanda sig. Og segi ég þá aftur að inn í þing rata oft mál sem eru vanbúin, stundum vanhugsuð að hluta, og þá kemur til kasta nefndanna náttúrlega að lagfæra það. En að sjálfsögðu þarf líka að taka umræðu um þau mál til að reyna að bæta þau, og það tekst okkur.

Að þessu sögðu skora ég á okkur öll að taka ærlega umræðu um skipulag þingstarfa og kannski gefst okkur tími til þess í 2. umr. um málið þar sem ræðutími verður rýmri, við getum hugsanlega samið um það líka. (Gripið fram í.) En það er full þörf á því að þeir sem á okkur treysta og á okkur hlusta viti til hvers refirnir eru skornir, til hvers farið er í þessar breytingar, hverju þær eiga að skila o.s.frv. Það er skylda okkar að skýra það út fyrir þjóðinni vegna þess að hún getur ekki áttað sig á því sjálf, ein og sér sitjandi heima. Ég hvet okkur öll til að taka ærlega umræðu um málið í 2. umr. og þá verður nefndin væntanlega búin að fara yfir það og gera jafnvel á því breytingar eða endurbætur og/eða leggja gott til.