Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[18:37]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta hafa að mörgu leyti verið fróðlegar umræður, að vísu minnst um frumvarpið og ég ætla líka að tala sem minnst um það. Ég ætla sem sagt að lengja umræðuna, öfugt við þá sem koma venjulega hingað upp og segjast ekki ætla að lengja hana en tala svo lengi. En ég ætla að lengja hana. Það sem ég vil eiginlega segja um þingstörfin almennt og aðeins koma inn á er að það sem truflar mig raunar mest er þegar þingmenn tala niður þingið og þingstörfin. Mér sjálfum þykir það afar hvimleitt vegna þess að mér þykir mjög vænt um þetta þing. Mér finnst það standa sig vel. Margt hefur tekið breytingum til batnaðar, nefndarstarfið er öflugt, við erum komin með mjög öflugt starfsfólk, aðstoðarmenn sem hafa gert þingstörfin og störfin fyrir þingmenn miklu, miklu betri. Ég vil bara mótmæla því sem margir þingmenn segja, að hér sé allt ómögulegt, að vinnustaðurinn sé sérstaklega ófjölskylduvænn sem mér finnst líka rangt.

Við getum nefnilega stjórnað tíma okkar mjög vel sem fólk á almennum vinnumarkaði getur sjaldnast. Vissulega eru hefðir og venjur þannig að þing getur lengst fram á kvöld en það er afar sjaldan að hver og einn þingmaður sé hér eða taki til máls öll kvöld sem talað er. Þessi sveigjanlegi tími í raun og veru myndi ég segja að væri mjög fjölskylduvænn. Auðvitað getur verið álag, menn vita það fyrir og það er mjög gott. Í raun finnst mér sjálfum miklu skemmtilegra að vinna undir einhverju álagi. En þetta er örsjaldan og mér finnst það ekki gefa tilefni til þessarar sterku umræðu um hvað allt sé ómögulegt hér.

Menn hafa aðeins komið inn á átök í þinginu. Auðvitað er löggjafarþingið átakastaður, skárra væri það nú. En við þurfum að kunna að takast á. Það er kannski vandinn hjá einhverjum. Ég sá það á einhverjum samfélagsmiðli eða í fjölmiðli í dag haft eftir einhverjum manni, sem ég kannast að vísu ekki við að hafi verið á þingi, að þingið sé einn samfelldur ofbeldisstaður, að hér sé bara andlegt ofbeldi. Ég held að hann hafi það eftir einhverjum þingmanni væntanlega því að ekki var þessi maður á þingi sjálfur. Þetta er ein umræða líka um hvað allt er ómögulegt. Vissulega getum við gert margt betur, ég neita því ekki, en þegar menn nálgast átökin á þingi sem einhvers konar ofbeldi, að hér sé allt ómögulegt o.s.frv., grafa þeir undan þessu ágæta þingi okkar.

Bara að lokum vil ég segja eitt: Það er ekki allt fullkomið hér. Það sem mér finnst hvimleiðast af öllu er að áberandi er að menn séu að fara í ræður, sumir nánast í öllum málum, jafnvel án þess að hafa kynnt sér málin neitt sérstaklega vel, telja að það sé skylda að nýta allan ræðutímann alltaf. Ég held að það sé ekki til framdráttar fyrir ásýnd þingsins. Ég held að við eigum að vera markvissari í þessum þingsal í því hvernig við tökum til máls, um hvað við ræðum og vera þá sæmilega undirbúin ef við ætlum að taka til máls.

Ég ætla því ekki að nýta ræðutímann minn allan og hlakka til að hlusta á lokaræðu hv. 2. þm. Norðaust., sem er forseti þingsins. Ég vil líka þakka honum fyrir vinnuna í þessu frumvarpi sem ég vil taka fram að ég tel svona að mestu leyti til bóta. Ég er ánægður með allt, ég fæ ég ekki alltaf allt mitt en mér líður vel ef ég fæ eitthvað.