151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[18:50]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér heyrist ekki vera mikill ágreiningur milli mín og hv. þm. Söru Elísu Þórðardóttur. Ég tek alveg undir að hér á þinginu erum við að takast á um hugmyndafræði, um grundvallaratriði í samfélagsgerðinni, hvernig við sjáum framtíðina fyrir okkur. Það er bara mjög heilbrigt. En af því að við erum að tala um upplifanir þá upplifi ég það þegar tekist er á að menn líti á það sem einhvers konar ofbeldi. Auðvitað geta stór orð fallið, ég er ekkert viðkvæmur fyrir því. Mér finnst gaman að takast á. Mér myndi ekki finnast gaman ef allir væru sammála mér hér. Þá getum við talað um að maður gæti hreinlega drepist úr leiðindum. Það væri ekki fjölskylduvænn vinnustaður heldur. Í öllum betri fjölskyldum er tekist á. Ég skora bara á okkur að gera betur. Við getum vandað orðfærið o.s.frv. og við getum almennt í háttsemi gert betur eins og allir aðrir svo sem. En þessi vinnustaður, sem ég vil að vísu ekki kalla vinnustað, en löggjafarþingið er mjög merkilegt fyrirbæri, frábært í mínum huga. Það hefur bara staðið sig nokkuð vel þrátt fyrir öll átökin og leiðindin og við eigum að vera glöð yfir því.