151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[19:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri nú lítið af því að þakka ræðumönnum á undan mér fyrir ræður sínar en ég vil þakka hv. þingmanni og forseta Alþingis. Ég skynja það að hann, forsetinn og þingmaðurinn, hefur áhuga á því og leggur mikið upp úr því að auka vegferð þingsins og styrkja það í alla staði. Og það á að vera markmið okkar allra. Ég skal hins vegar viðurkenna það að málþóf í einhverju hófi truflar mig ekki mikið. Ég hef ekki alveg skilið umræðu marga þingmanna um að þetta sé eina vopnið sem menn hafi til þess að koma sínu í gegn. Ég upplifi það þannig að þeir þingmenn stjórnarandstöðu í nefndarstarfi sem setja sig mjög vel inn í mál nái ýmsu fram. Þannig er upplifun mín af nefndarstarfinu. Það kemur margt frá stjórnarandstöðu til að bæta frumvörp en svo sér maður kannski hér í ræðustól sömu þingmenn segja að þegar komi breytingartillögur sé öllu hafnað en gleyma því að það er margt búið að taka inn í frá stjórnarandstöðu áður en málið kom til umræðu á þinginu. Bara ein spurning: Er hv. þingmaður sammála mér í því að kannski sé helst að finna að það skorti svolítinn aga í þingstörfin, aga hjá þingmönnunum sjálfum?