151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér fallast stundum í hendur í þessari umræðu þegar fólk fer að tala um einhvern rauveruleika sem er ekki til og að mér vitandi enginn er að berjast fyrir á Alþingi. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson fjallaði um það í lokin á seinna svari sínu til mín að það væri ekki hægt að hafa hér rosalega gott velferðarkerfi og galopin landamæri. Það eru ekki galopin landamæri á Íslandi. Þau eru það ekki og eru hvergi nálægt því. Það er bara mjög erfitt að fá að vera á Íslandi ef maður kemur annars staðar frá en EES-svæðinu. Það er erfitt fyrir Bandaríkjamenn og Kanadamenn að vera á Íslandi. Galopin landamærin — þetta er bara einhver þvæla og þetta er ekki raunveruleikinn í dag. Enginn hefur lagt fram frumvarp til að koma á galopnum landamærum. Það er þessi óttablandni hræðsluáróður sem kemur úr ákveðinni átti í samfélaginu sem ruglar alla umræðuna og þess vegna komumst við ekki að niðurstöðu um hluti sem við gætum annars alveg verið sammála um.

Ég varð að opna með þessu því að ég verð svo þreyttur á að ræða einhverja ímyndun hjá fólki, ímyndun sem heyrist í Útvarpi Sögu eða álíka miðlum, frá fólki sem getur ekki lyft litla fingri til að skoða staðreyndirnar á bak við það sem þar er fullyrt. Ég ætla ekki að hætta mér lengra út í það því að þá er hætta á því að ég eyði allri ræðu minni í að tala bara um hversu mikið af vitleysu kemur úr þeirri átt, vitleysu eins og þeirri sem kom fram í lok ræðu hv. þingmanns.

Nú er spurningin hvar eigi að byrja eftir þennan stutta inngang. Kannski ég byrji á því að ítreka það sem ég nefndi í andsvörum við hv. þm. Ólaf Ísleifsson, að þingsályktunartillagan hérna gerir að því er virðist ráð fyrir því, og fyrirgefið ef ég verð ég pínu tæknilegur með þetta, að allar þær umsóknir sem hv. þingmenn telja að ætti ekki að samþykkja hér séu bersýnilega tilhæfulausar. Bersýnilega tilhæfulaus umsókn er ákveðið fyrirbæri. Það eru t.d. umsóknir þar sem fólk er frá ríkjum sem er á lista yfir svokölluð örugg ríki, t.d. Albaníu sem er talið öruggt ríki. Sagan á bak við það er flóknari en ég hef ekki tíma til að fara út í það. Málsmeðferðartíminn í slíkum málum á Íslandi er ekki langur. Fólk hangir ekki hér mánuðum saman þegar það er með bersýnilega tilhæfulausar umsóknir. Þær umsóknir eru afgreiddar hratt og fólk er sent úr landi mjög hratt, innan daga, jafnvel núna í Covid-ástandinu er það staðan, þannig að ég veit ekki alveg hvaða vandamál hv. þingmenn halda að þeir séu að leysa með 48 tíma reglu þar.

Hitt er síðan að það er jú fólk sem kemur sem er með alls konar mál, þau eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Sum þeirra eru þannig að fólk er að koma frá einhverju Evrópuríki, er kannski búið að sækja um þar, hefur kannski einungis millilent þar en það var tekið fingrafar af því á flugvellinum eða hvaðeina. Sumt fólk er með stöðu flóttamanns í því ríki en er þar í algörri vosbúð og ömurlegum aðstæðum, t.d. á Ítalíu eða í Grikklandi, og er ekkert að koma hingað vegna þess að því finnst gaman að ferðast, það er að koma hingað til að geta lifað mannsæmandi lífi. Það er ástæðan fyrir því að þetta fólk kemur hingað. Það þýðir ekki að umsóknin sé bersýnilega tilhæfulaus, hvorki í raunveruleikanum né samkvæmt lögunum.

Þar kem ég að gagnrýni minni á málið efnislega eða öllu heldur því sem eiginlega fær mig til að styðja það, með fyrirvara um að þá þurfi að umbylta kerfinu okkar og fjármagna almennilega og styðja, frekar en að vera sífellt að reyna að rífa það niður meðfram því að skerða réttindi hælisleitenda. Þessu virðast flutningsmenn tillögurnar ekki alveg átta sig á og ég get alveg skilið það. Þetta er flókinn málaflokkur, fullt af orðum sem maður heldur að maður skilji en gerir ekki fyrr en það er komin þokkalega reynsla á það. En ég átta mig ekki á því hvernig hv. þingmenn hyggjast koma á þessari 48 klukkustunda reglu án þess að samþykkja í leiðinni til efnismeðferðar allar umsóknir um hæli á Íslandi, allar, nema bersýnilega tilhæfulausar umsóknir, Albaníumálin og þess háttar. Ég held ekki að það sé það sem hv. þingmenn eru að reyna að gera. Ég held þeir hafi bara svolítið misskilið hvernig kerfið virkar og álasi þeim enginn fyrir það, þetta er stórfurðulegt kerfi.

Hvað næst? Önnur mýta sem er básúnað mjög víða í samfélaginu er sú mýta að Norðurlöndin séu einhverjar rjúkandi rústir. Þetta eru enn þá velmegunarsamfélög. Það er enn þá velferðarkerfi í Noregi og í Danmörku. Það eru alveg vandamál sem geta komið upp vegna tímabundins álags á hin og þessi kerfi og flóttamannakrísan er náttúrlega afleiðing borgarastríðs í Sýrlandi m.a. og slíkt getur komið upp og það skapar áskoranir. En lausnin er ekki sjálfkrafa sú að ætla að fara að loka meira og einhvern veginn reyna að berjast á móti þróuninni, virðulegi forseti. Þannig eru krísur ekki sjálfkrafa, að það sé bara hægt að byggja vegg, eins og sumir stjórnmálamenn vilja meina, sem betur fer ekki margir hérlendis enda erum við umkringd frekar stórum landamærum, Atlantshafinu.

En hvað eigum við að gera? Ég er nefnilega í einu sammála hv. þingmönnum sem flytja þessa tillögu og koma úr þessari átt, að við erum að setja allt of mikla peninga í þetta kerfi. Ég er algerlega sammála því. En lausnin er ekki sú að blása út báknið sem étur alla þessa peninga. Það kostar ekkert að hleypa fólki einfaldlega inn, virðulegi forseti. Hversu mikið álag ætli sé á UTL, Útlendingastofnun, í dag vegna þess að hingað kemur fólk frá Póllandi eða Frakklandi? Það er ekkert sérstaklega mikið vegna þess að þeir einstaklingar mega vera hérna. Þess vegna finnst mér svona tillögur og sú orðræða sem ég heyrði hérna og gagnrýndi áðan vera til málamynda. Það er alltaf talað um þennan kostnað eins og það sé verkefnið að lækka kostnaðinn en það fylgja alltaf með einhverjar smá ábendingar um menningarmun og gildismat og þess háttar og það að við getum ekki tekið við öllum og allt þetta. Ef markmiðið er að lækka kostnað þá ættum við að hætta að reyna að beita bákni og reglum og veggjum og vörðum á veggjunum til að reyna allt sem við getum til að halda fólki úti. Og meðan ég man: Það er stefnan á Íslandi, ekki galopin landamærin.

Hv. þingmaður nefndi áðan að við eigum að læra af mistökum annarra. Ég er algerlega sammála því. En þarna kemur einmitt inn þessi undarlegi raunveruleiki, að stefnan hafi verið sú að allt væri galopið. Nei, virðulegi forseti. Við eigum að læra af mistökunum en mistökin eru ekki þau sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson telur að þau séu. Og nú er eitt sem við ættum að geta tekið saman höndum um að berjast fyrir og það er að þegar það koma upp flóttamannakrísur — og þær verða fleiri vegna ýmissa loftslagsbreytinga, borgarastríða og hvers sem er sem getur gerst. Það munu verða fleiri flóttamannakrísur og hvernig á að takast á við þær? Ég er alveg sammála því að þegar við erum með lítið kerfi eða lítið samfélag þá getur það ekki á skömmum tíma tekið við óendanlega stórum hópi. Þetta er augljóst. 350.000 manna samfélag gæti kannski ekki tekið við 5 milljón manns hérna á einum degi. Ég er alveg sammála því. En 500 milljón manna samfélag gæti það kannski. Kannski ekki á einum degi, enda erum við ekki að tala um þannig tölur og þannig tíma, en það er munur á því í hversu stóran pott þú setur dropann. Stefnan í Evrópu var ekki sú að það yrði allt opið. Það er bara rangt. Það er bara mýta. Nú eru meira eða minna öll þessi lönd með þá stefnu að reyna að taka sem minnst og velta öllu yfir á alla aðra sem bjó til þessa togstreitu og þetta álag á einstök kerfi eins og í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi. Þessu álagi hefði alveg mátt dreifa. Vandinn er sá að það var of mikið hlustað á þingmenn eins og þá sem leggja fram þessa tillögu. Of mikið hlustað á útvarp eins og Útvarp Sögu. Það er vandinn.

Virðulegi forseti. Annað sem er mjög áhugavert við málflutning hv. þingmanns og annarra úr þeirri átt er aðdáunin á kvótaflóttamannakerfinu. Það finnst mér mjög áhugavert vegna þess að ég deili þeirri aðdáun. Kvótaflóttamannakerfið virkar þannig að Sameinuðu þjóðirnar eða stofnanir á vegum þess finna fólk sem þarf að komast í skjól og reyna að púsla saman prógrammi til að það fólk geti farið til öruggs ríkis eins og Íslands. Þar er tekið á móti þessu fólki og því er komið inn í samfélagið. Það er fundið fyrir það húsaskjól. Það eru fundnir fyrir það vinir, fundnar fyrir það aðstæður sem gera fólki kleift að aðlagast samfélaginu. Og talandi um glæpatíðni og þess háttar þá er það þannig sem dregur úr glæpatíðni. Það er útskúfun og mismunun og hatur sem eykur glæpatíðnina. Það er harkan sem eykur glæpatíðnina, vonleysið sem eykur glæpatíðnina. Við drögum úr henni með því að bjóða fólk velkomið almennilega, með því að veita því almennilegt skjól og gera því kleift að aðlagast íslensku samfélagi frekar en bara að heimta að fólk sé annaðhvort alveg eins og við eða sé einhvers staðar annars staðar, alltaf til að spara peninga vitaskuld, það göfuga markmið.

Ég hef ekki tíma fyrir meira, virðulegi forseti. Ég er búinn að særa fram einhver andsvör og tek að sjálfsögðu við þeim, sé til hvort ég taki aðra ræðu. Fyrir mitt leyti er þessi umræða nú bara rétt að hefjast. Ég vildi óska þess að ég gæti sagt að ég hlakkaði til að heyra fleiri ræður um þetta mál en því miður þá óttast ég að þær verði áfram vondar hér á Alþingi.