151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:20]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú kannski ekki svo auðvelt að eiga orðastað við hv. þingmann sem fer úr einu í annað, sem gefur sig út fyrir að hafa yfirburðaþekkingu á þessum málaflokki, talar eins og sá sem valdið hefur og þekkinguna alla og kvartar yfir ræðu sem er meira og minna byggð á stefnumótun í Danmörku, Noregi og annars staðar á Norðurlöndunum; tilvitnanir í ræður og ummæli ráðamanna á Norðurlöndunum, einkanlega úr röðum jafnaðarmanna. Ég nefndi Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sem er leiðtogi jafnaðarmanna og vitnaði til ummæla sem Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, lét sér um munn fara á liðnu ári sem líka er leiðtogi jafnaðarmanna. Þetta verður hv. þingmanni einhvers konar tilefni til einhverra óskaplega mikilla upphrópana og hann virðist haldinn einhverjum sérstökum kvíða yfir því að þetta mál sé rætt. Hann er búinn að dæma ræður í málinu fyrir fram sem ómögulegar þannig að það er bara mjög erfitt að fjalla um þetta mál í samtali við hv. þingmann.

Ég fjallaði um það í minni ræðu að stuðningur við fólk ætti að felast annars vegar í þátttöku í því alþjóðlega kerfi sem Sameinuðu þjóðirnar halda úti, og þar eru þessir svokölluðu kvótaflóttamenn — það er í samræmi við það sem bæði Danir og Norðmenn leggja mikla áherslu á í þeim skjölum sem ég vitnaði til — og hins vegar í hjálp við fólk á heimaslóð eða nærri heimaslóð.

Ég er með nokkrar spurningar en ég ætla að ljúka með einni spurningu: Hvað telur hv. þingmaður að við getum fjárhagsins vegna tekið við mörgum hælisleitendum hér á ári? Miðað við þessi 600–700 núna, hvað segir hann um 6.000 eða 60.000?