151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:26]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður má eiga það að hann staðfestir það sem ég sagði, að það er eiginlega ekki hægt að eiga við hann samtal og hvað þá rökræðu. Hv. þingmaður gerir fólki upp tilfinningar eins og hatur. Hann gerir fólki upp ástæður eins og vilja til að vekja ugg eða ótta eða að vilja koma einhverju illu til leiðar. Ég sætti mig bara alls ekki við eitthvert bann af hálfu hv. þingmanns um það hvernig annað fólk megi haga orðum sínum. Því síður sætti ég mig við það að það sé óleyfilegt í einhverjum skilningi að vitna hér til ráðamanna á Norðurlöndum. Töluð orð eru staðreynd út af fyrir sig, þetta stendur nú í Kristnihaldi undir jökli. Það er biskupinn sem segir þetta við Umba þegar hann er að búa hann undir sendiferðina vestur á Snæfellsnes, undir jökul. Ég vitnaði til orða Mette Frederiksen í því skyni að menn gætu dregið sínar ályktanir af þeim orðum um þá stefnubreytingu sem hún hefur beitt sér fyrir í þessum málaflokki, um ástæður þeirrar stefnubreytingar og hvaða málefnaleg rök liggja þar að baki. Þetta er fullkomlega leyfilegt. Það má vitna til annars fólks og af þessum ummælum leyfi ég mér að álykta að hægt sé að draga lærdóma ef við leggjum á okkur að hlusta og læra af reynslu nágrannaþjóðanna.