151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég var framan af ræðu hv. þingmanns honum mjög þakklátur fyrir að birta okkur hinum yfirburðaþekkingu sína á þessum málaflokki og fyrir innsæi hans í því að skyggnast inn í sálarlíf okkar og vita betur en við af hverju við erum að leggja þessa tillögu fram. En þegar hann var aðeins kominn fram í ræðuna þá rann hv. þingmaður heiftarlega á svellinu. Afgangurinn af ræðunni var, ef ég má vitna í Mikka ref í dýrunum í Hálsaskógi: Mesta bull sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Þá var talað hér áðan um að menn þyrftu að þola stór orð. En þetta var mesta bull sem ég hef nokkurn tíma heyrt og þetta er það kurteislegasta sem ég get sagt um það mál.

Mig langar af því tilefni að þingmaðurinn býr yfir yfirburðaþekkingu á þessum málaflokki að biðja hann um að segja mér þrjá hluti. Í fyrsta lagi: Er hv. þingmanni kunnugt um það hversu hátt hlutfall þeirra sem hingað leita í von um alþjóðlega vernd uppfyllir öll skilyrði flóttamannasamningsins Sameinuðu þjóðanna? Veit hv. þingmaður hversu lengi þeir sem leita hingað í leit að alþjóðlegri vernd dveljast á Íslandi að jafnaði eða að meðaltali? Veit hv. þingmaður hvernig sú tala hefur breyst undanfarin tvö til þrjú ár? Í fjórða lagi: Veit hv. þingmaður hversu langt líður frá því að menn rata hingað í leit að alþjóðlegri vernd þar til þeir fá fyrsta viðtal við Útlendingastofnun, t.d. síðustu tvö ár?