151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst áhugaverð nálgunin sem kemur fram í þessu andsvari og kom líka fram í andsvari hv. þm. Ólafs Ísleifssonar; það er komið hingað upp og einhvern veginn hæðst að því að ég þykist vita þetta allt saman manna best. Það er fullt í þessum málaflokk sem ég veit ekki, virðulegi forseti. Ég kem ekki hingað upp til þess að spóka mig um með það hvað ég veit mikið. Ég veit þó nógu mikið til að vita hver afleiðing af þessari tillögu er. Ég benti á það. Ef hv. þingmenn Miðflokksins upplifa einhverja minnimáttarkennd yfir því þá verða þeir að eiga það við einhvern annan en mig. Ég kom ekki hingað upp til að monta mig af þekkingu minni, bara svo að það sé sagt.

Ég myndi ekki vilja fara yfir þessar tölur sem hv. þingmaður bað um eftir minni. Ég myndi vilja fá þær í skjölum og tala um þær af einhverri ábyrgð, þannig finnst mér að fara eigi með tölur almennt. Hitt er síðan að þessar tölur hafa breyst mjög mikið í gegnum tíðina, farið upp og niður, og ég er alveg sammála hv. þingmönnum Miðflokksins um að margt sé að í þessu kerfi, að kostnaðurinn sé of mikill og biðin of löng. Ég er bara ósammála hv. þingmanni um það hvernig eigi að leysa þau vandamál. Ég er ósammála því að til þess að draga úr kostnaði við vegginn og verðina á veggnum eigi að byggja fleiri veggi og ráða fleiri verði. Ég er ósammála þeirri nálgun. Ég tel það vera sóun þegar til eru aðrar og einfaldari leiðir til þess að gera þetta kerfi skilvirkara. Það er í stuttu máli að hætta að líta sjálfkrafa á að það spari pening að segja nei. Þar er grundvallarhugsunarvillan að mínu mati, að það spari sjálfkrafa pening að hleypa fólki ekki inn fyrir landsteinana.

Við búum í réttarríki, sem betur fer, og það er þannig að við viljum hafa ferla. Jafnvel þegar við sendum fólk úr landi þá kostar það pening. Það kostar pening og það kostar samstarf við aðrar þjóðir og þess háttar. Þetta er kostnaður, þetta er fyrirhöfn. Þessi kostnaður fer t.d. ekki á Frakka og Pólverja og Þjóðverja sem koma til landsins vegna þess að við förum ekki svona með þá. Ef það væri eitt sem ég vildi óska þess að við gætum verið sammála um þá væri það að hætta að líta sjálfkrafa þannig á að við spörum peninginn með því einfaldlega að ýta fleira fólki frá. Það er ekki þannig, virðulegi forseti.