151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að róta upp sandi í sandkassanum fyrir hv. þingmann. En hann má alveg vita að minnimáttarkennd er eitt af því sem við búum ekki mikið yfir. En við trúum á skynsemi og eins og ég sagði áðan þá bara örlaði lítið á henni í ræðu hv. þingmanns. Hann verður bara að þola það að með því að hann talaði hér eins og hann ætti sannleikann skuldfrjálsan þá sé fundið að því.

Ég lagði fyrir hann fjórar spurningar sem eru um þetta sérstaka málefni sem við erum að ræða hérna og hann svarar engu. Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann svona almennra spurninga: Telur hv. þingmaður að hægt sé að læra af reynslu annarra? Telur hv. þingmaður að hægt sé að taka 30 ára reynslu frændþjóða okkar á Norðurlöndum af móttöku hælisleitenda og þeirra sem leita að alþjóðlegri vernd og læra eitthvað af því sem þeir hafa ratað í eða mistekist jafnvel, að eigin sögn, á þessum tíma?

Nú veit ég ekki, herra forseti, hvort Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hlustar mikið á menn eins og mig, ég veit reyndar ekki hvernig menn það eru. Ég veit heldur ekki hvort hún hlustar á Útvarp Sögu, það getur vel verið að hún geri það, ég veit það ekki. En eitt veit ég, Mette Frederiksen er núna og hennar ríkisstjórn undir stjórn sósíaldemókrata með auglýsingar í erlendum blöðum, utan Danmerkur, sem segja: Ef þú ert með réttindi í öðru landi, komdu þá ekki til Danmerkur, þér verður snúið við. Ef þú ert ekki með réttarstöðu flóttamanns samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna komdu þá ekki til Danmerkur, þér verður snúið við. Er hún að spara með þessu? Hugsanlega. Er hún að spara sér peninga? Mögulega. Er hún að spara sér einhver önnur áhrif? Klárlega. En spurningin er: Er það ekki hygginna manna háttur að læra af því sem aðrir hafa gert bæði vel og miður?