151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar mitt er: Jú, að sjálfsögðu getum við lært af reynslu annarra og eigum að gera það eftir fremsta megni. Það þýðir ekki að ályktanir Miðflokksins séu sjálfkrafa rétta lexían af vandamálum og mistökum annarra. Það þýðir ekki heldur að aðrir séu að bregðast rétt við því sem hefur farið úrskeiðis. Vandinn þarna hygg ég að liggi í þeim misskilningi og þeim rangfærslum að galopin landamæri séu eitthvert fyrirbæri á Íslandi eða í Danmörku eða annars staðar. Það er ekki þannig og var ekki þannig. (ÞorS: Danir eru nýbúnir að …) Það kemur alveg fyrir að mistök séu gerð og einhver telur sig hafa lært af þeim mistökum, en stundum bara lærir fólk ranga lexíu og fer að reyna að gera meira af sömu mistökunum, það er það sem er svo skrýtið.

Nú ætla ég ekki að standa hér og láta eins og þessi málaflokkur sé einfaldur því hann er það ekki. Ég kemst ekki hjá því að benda á gallann í tillögunni en hann kemur mér ekkert á óvart. Ég skil mætavel að þetta sé ekki augljóst vegna þess að þetta er þannig málaflokkur að hann er flókinn og kerfið er flókið og allt það. Vandamálin eru flókin og lausnirnar eru flóknar. Það fýkur í mig þegar ég heyri fólk koma í pontu, eins og hv. þm. Ólaf Ísleifsson, með sömu orðræðu og ég heyri á Útvarpi Sögu og sambærilegum miðlum, sem eru sem betur fer fáir, að hér séu galopin landamæri, að hér streymi inn í einhverju ofboðslegu magni fólk sem við einhvern veginn förum á hausinn við að þurfa að taka á móti, eins og hv. þingmaður orðaði það. Ég skrifaði það hjá mér, mér þótti það svo áhugavert: Við höfum ekki efni á þessu.

Jú, við höfum vel efni á þessu. Þetta er ekki skynsamleg nýting á peningum, ég er alveg sammála því, en það að halda því einhvern veginn fram að hér sé einhver holskefla af útlendingum að koma hingað og rústa íslensku samfélagi, af því að hér séu galopin landamæri og opinn krani, það er orðræða sem er ekki bara efnislega röng heldur hættuleg, alveg sama hvað býr í brjósti hv. þingmanna sem ég trúi að sé ekkert nema gott. Þetta eru mistök. Þetta er hættulegt og ég vil meina að þetta sé dýrt.