151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér mun sennilega ekki endast ræðutíminn til að segja allt sem mig langar til að segja í kjölfar þessarar ræðu en hv. þingmaður nefndi mig sérstaklega á nafn snemma í ræðu sinni og mig langaði þess vegna að koma hér að ákveðnum punkti. Hv. þingmaður sagðist ekki alveg skilja þennan punkt um að það kostaði ekki neitt að hleypa fólki inn í landið og nefndi síðan að hælisleitendur fari yfirleitt ekki beint að vinna og það fylgi því kostnaður. Virðulegi forseti, þetta er nákvæmlega punkturinn. Hvað ef ég myndi stinga upp á því að ekki þyrfti sérstakt leyfi til þess að vinna sem hælisleitandi, fyrir utan það að erfitt er að fá þessi leyfi, þeim er meinað að vinna?

Svo komum við hingað í pontu og segjum að þetta fólk noti velferðarkerfið okkar, þegar við erum að banna því að vinna. Það er alveg ótrúleg kaldhæðni fólgin í þessu kerfi. Fólk sem er í svokölluðum Dyflinnar- eða „status“-málum fær ekki þessi leyfi, getur ekki einu sinni sótt um þau. Það er kostnaður í því. Það er nákvæmlega punkturinn, virðulegur forseti. Það er enginn uppihaldskostnaður fyrir Útlendingastofnun að hleypa fólki inn í landið vegna þess að þá má fólk bara koma hingað inn og taka þátt í samfélaginu. Það felur það í sér að vinna, að borga skatta og að auka eftirspurn. Sá angi gleymist oft í umræðunni. Hælisleitendur og flóttamenn eru eins og aðrar manneskjur að því leyti að þeir þurfa að borða, þurfa þak yfir höfuðið, afþreyingu, menntun og vini. Þeir þurfa að nota samgöngur, úr, síma, tölvur og alls konar græjur og hluti sem manneskjur þurfa að njóta. Það leiðir til aukinnar eftirspurnar, það stækkar hagkerfin. Þessi þáttur gleymist alltaf. Það er bara kerfið okkar, sem ég hef ekki enn heyrt Miðflokksmenn mótmæla, sem meinar þessu fólki að taka þátt í samfélaginu frekar en að efla það í því. Þar held ég að miklu meiri samhugur ætti að vera milli allra þingmanna. En ég vona að þetta útskýri fyrir hv. þingmanni hvað ég er að tala um þegar ég segi að það kosti ekkert að hleypa fólki inn þó að þessar hindranir kosti, það er bara nákvæmlega punktur hv. þingmanns.