151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:52]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Peningarnir verða ekki tíndir af trjánum og ef rökin hjá hv. þingmanni eru þau að það kosti ekki neitt ef við bara látum viðkomandi hafa vinnu, en þá verður að vera til einhver vinna, hv. þingmaður. Þetta er ekki svona einfalt, það er bara kjánaskapur að segja þetta svona. Það eru leiðir til fyrir fólk sem kemur hingað til að vinna, eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar, það fer eftir sérstökum leiðum. Svo eru leiðir fyrir kvótaflóttamenn. Þetta er ekki leiðin til að koma hingað til landsins til að vinna per se. Ég held að það sé ekki mikill hluti fólks sem kemur þá leið sem fer beint í vinnu og meðan svo er ekki þá kostar það. Það kostar mat, húsnæði og allt sem því fylgir. Og að telja upp einhver svona tæki og tól sem fylgja neyslusamfélaginu, það er að sjálfsögðu alveg rétt að eftirspurn eftir því eykst, en þá þarf fólk að geta unnið fyrir tækjunum og tólunum. Ég hef aldrei áttað mig á því að hægt sé að tína peninga af trjánum. Vinnan verður að vera til til að það kosti ekki neitt að hleypa fólki inn í landið. Það kostar, hv. þingmaður, að hleypa fólki inn í landið sem er ekki komið á vinnumarkaðinn. Það er alveg á hreinu.