151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:57]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja það, eins og kom fram í fyrri andsvörum, að ég á svolítið erfitt með að eiga orðastað við hv. þingmann. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn talar um að það sé bölvuð þvæla að tala um að hér sé opinn krani í innflytjendamálum. Svo segir hv. þingmaður að flytja megi inn þetta margar milljónir manna í kvöld innan þriggja klukkutíma — (Gripið fram í.) já, er það þá ekki opinn krani? Hvers lags krani er það? Ég átta mig bara ekki á þessum málflutningi. Og svo er reynt að rugla mann í ríminu með því að nota eitthvert málskrúð sem hv. þingmanni er mjög tamt og ég hef reynt að æsa mig ekki mikið yfir, það er ekki mitt vandamál. En þegar við erum að tala um atvinnumál og fólk sem kemur hingað til að vinna þá var ég búinn að nefna, og ég ætla að nefna það í þriðja sinn, að það er sérstök leið sem farin er hingað inn til þess. Leið hælisleitenda er ekki leið sem er sérstaklega hönnuð fyrir þá sem eru í atvinnuleit. En ég get alveg séð fyrir mér að fjalla um það, og tek alveg undir það með þingmanninum, að hagkerfið byggist á fólki, það er engin spurning. En það skeður ekki á þremur klukkutímum eins og þingmaðurinn minntist á áðan, ef öll Evrópa myndi flytja til landsins á þremur klukkutímum. Það er alveg á hreinu. Ég er bara ekki í nógu stórum stígvélum til að botna þessa mýri, hæstv. forseti.