151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:59]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta vera að bregðast við seinna andsvari hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar vegna þess ég sé að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur látið bæta sér aftur á mælendaskrá þannig að ég læt honum í té að útskýra muninn á opnum krana og opnum krana.

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytingu á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð. Það kann að koma á óvart en ég styð þessa tillögu því að fátt veldur jafn miklum óþörfum kostnaði í íslensku hæliskerfi og Dyflinnar-reglugerðin og meðferð umsókna samkvæmt henni. Í stað þess að umsókn fólks um vernd sé einfaldlega skoðuð og því veitt vernd hér á landi eða vísað aftur til heimaríkis, sé það öruggt þar, er fólk látið bíða hér svo mánuðum, jafnvel árum, skiptir, starandi á hvíta veggi í iðnaðarhúsnæði á vegum ríkisins þar sem það fær ekki einu sinni heimild til að vinna fyrir sjálfu sér á meðan beðið er. Það er auðvitað óverjandi fyrirkomulag fyrir alla og ekkert vit í öðru en að leggja það af.

Með þeirri breytingu sem lögð er til í þingsályktunartillögu þessari mætti því spara ríkissjóði stórfé við húsnæði og uppihald umsækjenda, launakostnað við vinnslu mála, svo að ekki sé talinn tilfinningalegi kostnaðurinn af því að láta fólk bíða svo mánuðum skiptir eftir svari við þeirri einföldu spurningu hvort umsókn þess verði yfir höfuð skoðuð hér á landi. Vegna málsmeðferðarreglna í Dyflinnar-reglugerðinni sjálfri væri ekki með nokkru móti unnt að taka ákvörðun um að vísa einstaklingi úr landi með vísan til hennar á innan við tveimur sólarhringum, ekki möguleiki, virðulegi forseti. Raunar er erfitt að taka slíka ákvörðun á innan við þremur mánuðum þar sem hið ábyrga ríki, samkvæmt reglugerðinni, hefur þrjá mánuði til að svara beiðni íslenskra stjórnvalda um endurviðtöku en samþykki á slíkri beiðni er forsenda þess að senda megi umsækjanda til baka á grundvelli reglugerðarinnar. Eina leiðin til að ná þessu takmarki væri því að ákveða einfaldlega strax að taka umsóknir allra til efnismeðferðar hér á landi. Þótt ýmislegt megi segja um greinargerðina sem fylgir tillögunni er ekki annað hægt en að styðja hana af þessum sökum.

Varðandi sex mánaða frestinn til efnislegrar afgreiðslu mála vænti ég þess að átt sé við bæði stjórnsýslustig, þ.e. afgreiðslu málsins hjá Útlendingastofnun og svo á kærustigi ef til þess kemur. Þar myndi ég vilja ganga enn lengra, stytta frestinn jafnvel í þrjá mánuði og að þeim fresti liðnum ætti fólk rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, væri vinnslu málsins ekki lokið hjá stjórnvöldum. Það fólk gæti þá gerst gildandi þjóðfélagsþegnar, jafnvel farið út á vinnumarkaðinn og haldið áfram að byggja upp líf sitt. Á því myndu allir græða og svo sannarlega íslenskt samfélag.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, samflokksmaður minn, hefur minnst á strámenn á borð við opinn krana, og ýmsan misskilning sem virðist fara fyrir í þessari umræðu, mýtur og aðra hluti sem endurtaka sig í umræðunni þegar þessi mál eru á borði. En það sem við höfum ekki efni á í þessu samfélagi er ómannúðlegt bákn sem veldur vansæld fólks sem þráir ekkert annað en að lifa lífi sínu með mannlegri reisn og einhvers konar von um gæfulega framtíð. Það er eini glæpur þessa fólks; að vilja búa í friðsemd á Íslandi eins og við forréttindafólkið hér gerum.