151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[21:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Nú er það ekki ætlun mín að slá met á Alþingi með því að koma hlaupandi í ræðustól í annað skipti á nokkrum dögum, alls ekki. En mig langaði til að taka aðeins til máls í þessari umræðu og skýra tilgang þessarar tillögu fyrir þeim sem ekki virðast skilja hvers vegna hún er lögð fram. Hér í umræðunni hefur verið talað um að peningaupphæðir skipti ekki máli. Það kann vel að vera að svo sé en ég vil samt minna á að sá málaflokkur sem við erum að tala um núna, móttaka hælisleitenda og þeirra sem eru í leit að alþjóðlegri vernd, kostaði 6 milljarða kr. í fyrra, hækkaði verulega milli ára og þurfti jafnframt 400 millj. kr. hækkun í síðustu fjárlagaumræðu fyrir þetta ár. Hér er því um stórar peningaupphæðir að ræða. Það er samt ekki meginástæðan fyrir því að tillagan er flutt. En það er kannski ein af ástæðunum því að með stórauknum fjölda eykst kostnaðurinn verulega og af einhverjum ástæðum er fjöldi þeirra sem fá tímabundna vernd hér á Íslandi umtalsvert meiri en í nágrannalöndunum. Hann er 50% meiri en í Danmörku og ef ég man rétt er hann fjórfalt meiri en í Svíþjóð miðað við fólksfjölda.

Nú höfum við Miðflokksfólk aldrei talað öðruvísi en svo að við Íslendingar eigum að taka á móti fólki sem býr við erfiðleika og við höfum aldrei talað öðruvísi en svo að við eigum að standa við þær skuldbindingar sem við höfum skrifað undir samkvæmt alþjóðasamningum. En hin hliðin á þessum peningi er sú, sem kom einmitt mjög vel fram í ræðu hv. þm. Söru Elísu Þórðardóttur hér rétt áðan, að það er ómannúðlegt að láta fólk bíða hér á Íslandi, óvíst um framtíð sína og stöðu sína, svo mánuðum og árum skiptir. Það er ómannúðlegt. Og það er ómannúðlegt, sem hefur komið upp og verið afstýrt í nokkrum tilfellum, þegar fólk er búið að vera hér árum saman og hefur eignast hér börn sem hafa fest rætur að ætla að rífa þetta fólk upp og börnin þar með og senda til baka eitthvert annað. Það er ómannúðlegt, herra forseti.

Nýlegt dæmi segir frá fólki sem hefur búið og dvalið hér á Íslandi í sjö ár og bíður eftir úrslitum sinna mála. Hvers vegna þurfum við sjö ár til að afgreiða umsókn fólks sem sækist eftir alþjóðlegri vernd? Hvernig má það vera, herra forseti? Það virðist hafa orðið einhver bragarbót á því máli síðustu tvö til þrjú árin. Ég varð þess t.d. áskynja um daginn að nú eru sex vikur að meðaltali frá því að hingað ratar einstaklingur sem er í leit að alþjóðlegri vernd þangað til hann fær það sem er kallað fyrsta viðtal. Það eru sex vikur en áður voru þetta, ef ég man rétt, þrír mánuðir eða meira. Það er líka óskiljanlegt með öllu.

Við verðum hins vegar að spyrja okkur og reyna að leita svara við því hvort einhver sérstök skýring sé á því hvers vegna svona mikill fjöldi sækir einmitt hingað en t.d. ekki til hinna Norðurlandanna. Varla er það út af veðrinu. Þá hlýtur maður að hugsa með sér: Við Íslendingar erum væntanlega að gera eitthvað sem hinar þjóðirnar eru ekki að gera. Það vill þannig til að í hópi farandfólks í Evrópu er fólk sem virðist vita mjög vel hvert af öðru og það virðist vera mjög vel upplýst um réttindi sín í hinum ýmsu löndum. Og það vill þannig til að í einu af fyrri lífum mínum var ég starfandi á alþjóðaflugvelli á Íslandi í 11 ár. Á þeim tíma voru aðeins öðruvísi tímar en núna en þetta voru árin 1997–2008. Ég man að á þessu árabili voru u.þ.b. 2% af þeim sem hingað rötuðu sem uppfylltu þau skilyrði sem er að finna í flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég hef ekki gaumgæft hvernig þessi tala hefur þróast allra síðustu ár en mér er til efs að hún hafi hækkað verulega. Það kæmi mér alla vega mjög á óvart að hún hefði hækkað verulega. Við virðumst ekki vera treg að taka á móti fólki í þessari stöðu. Í fyrra voru held ég 620 manns sem sóttu um að vera hér annaðhvort af mannúðarástæðum eða með stöðu hælisleitanda eða beiðni um alþjóðlega vernd. Um það bil tveir þriðju fengu umyrðalaust dvalarleyfi hér á þeim viknakafla sem tekur að afgreiða slíkar umsóknir.

Segja má að mál af þessum toga sé eitt af þeim málum sem helst megi ekki ræða á Íslandi án þess að þeir sem hlusta fari að gera manni upp alls konar skoðanir. Ég og félagar mínir neitum því að vera kallaðir „asistar“, alveg sama hvort það er f eða n eða r fyrir framan. Við höfnum því algjörlega. Við erum ekkert af því, ekki neitt. En það sem við erum fyrst og fremst að hugsa er að draga úr þessum mjög hækkandi kostnaði sem hér hefur vaxið gífurlega undanfarin ár og um leið að gæta að mannúðarsjónarmiðum, að þeir sem eru í þessari erfiðu stöðu fái svör við fyrirspurnum sínum og beiðnum eins fljótt og verða má.

Ég sagði það í andsvari við ágætan hv. þingmann að ég líti þannig á að við eigum að læra af reynslu annarra, læra af því sem aðrir hafa gert vel en líka af því þegar aðrir hafa gert mistök. Nú er það svo að ég held að ef við myndum spyrja stjórnmálamann eða jafnvel bara manninn á götunni, hvort sem væri í Danmörku, Svíþjóð eða Noregi: Telur þú að hér hafi verið gerð mistök eða að hlutir hafi verið gerðir öðruvísi en þeir ættu að hafa verið gerðir undanfarin 30 ár í þessum málaflokki? Þá er ég hér um bil viss um að við myndum fá já-svar. Ég hef reyndar gaumgæft þessi mál nokkuð lengi. Ég hef átt fjölskyldu í Danmörku í 17 ár þannig að ég er búinn að fylgjast með því hvernig þróunin hefur verið í Danmörku og víðar. Ég á þar þrjú nýbúabarnabörn í skóla og fylgist þar af leiðandi vel með hvernig fræðslunni er háttað o.s.frv. Ég þekki því þokkalega til, að ég tel. Síðan gerist það að sósíaldemókratastjórnin í Danmörku og forsætisráðherra þeirra kveður upp úr með það að segja: Ég vil ekki að það sé neinn hælisleitandi í Danmörku.

Við erum ekkert endilega þar og við erum ekki að leggja það til í þessari tillögu. En þá hlýtur maður að spyrja: Hvað rekur góðan sósíaldemókrata, bara gildan hluta góða fólksins í Danmörku, hvað rekur slíka manneskju til að taka upp slíka stefnu? Skyldi það vera af því að kostnaðurinn er orðinn þjóðfélaginu ofviða? Skyldi það vera af því að önnur atriði komi þar inn? Ég held þetta sé blanda af hvoru tveggja. Þess vegna segi ég: Við eigum að læra af því sem aðrir hafa gert vel og illa. Þess vegna, bæði af fjárhagsástæðum og mannúðarástæðum, er þessi tillaga okkar lögð fram, til þess að gera hér bragarbót bæði fyrir þá sem hingað sækja og fyrir íslenska skattgreiðendur sem borga kostnaðinn af því að taka á móti öllu þessu fólki á hverju ári.