151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[21:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hér mun, verði það samþykkt, gagnast langflestum. Það mun gagnast íslensku samfélagi og það mun ekki síður gagnast flóttamönnum. Þeir einu sem myndu hugsanlega ekki hafa hag af þessu máli eru þeir sem gætu hugsað sér að misnota kerfið. Þegar menn gera það þá bitnar það fyrst og fremst á þeim sem þurfa mest á hjálp að halda. Þessar breytingar eru því nauðsynlegar af ýmsum ástæðum en ekki hvað síst til þess að Ísland geti betur beitt sér við að aðstoða það fólk sem þarf mest á hjálp að halda.

Kostnaður hefur verið nefndur töluvert í þessu samhengi og það er ekki óeðlilegt. Ef kostnaður við að fást við umsóknir sem uppfylla ekki skilyrði, aukinn fjölda slíkra umsókna, stóreykst áfram, eins og hefur verið að gerast, höfum við úr minna að spila þar sem kæmi að mestu gagni og til að hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálp að halda. Það hefur verið vísað í þróunina annars staðar á Norðurlöndum, ekki hvað síst í Noregi og Danmörku. Þar hafa menn áratugareynslu af því að fást við þessi mál í miklu meira mæli en hér á Íslandi þar til fyrir skemmstu og afraksturinn má sjá í algjörri stefnubreytingu í þeim löndum, stefnubreytingu sem byggist á reynslunni og því að stjórnvöld hafa viðurkennt, þau gera það óhikað, að þær aðferðir sem beitt hafi verið fram að því hefðu mistekist hrapallega á ýmsan hátt.

Hér á Íslandi, enn sem komið er, hafa menn hins vegar haldið áfram og ætla jafnvel að auka við það sem hefur reynst illa á Norðurlöndum. Þessi tillaga er fyrsta skrefið en það mun auðvitað þurfa að taka á ýmsu til viðbótar. Þetta er hóflega framsett tillaga, enda er markmiðið með henni að fá stjórnvöld til að bregðast við í tæka tíð og a.m.k. hefja þessa vinnu. Við leggjum þess vegna mikla áherslu á að þetta mál fái hraðan framgang hér því að því fyrr sem brugðist er við, og því fyrr sem við lærum af reynslu annarra, þeim mun jákvæðari verða áhrifin, ekki hvað síst fyrir þá sem við ættum að einbeita okkur að því að hjálpa.

Rökstuðningur með þessari þingsályktunartillögu er engu að síður mjög ítarlegur eins og hv. þm. Ólafur Ísleifsson, framsögumaður málsins, fór yfir í yfirgripsmikilli ræðu sinni við upphaf umræðunnar. Ég hef orðið var við það, í umræðunni í framhaldinu, að það skortir mjög á þekkingu eða skilning einhverra þingmanna á því hvað felist í þeim breytingum sem hafa orðið á Norðurlöndum, af hverju þær stafi og hvaða áhrif það hefði í för með sér ef við lærum ekki af reynslu þessara landa. Ég ætla þess vegna aðeins að fara aftur í tímann, ein þrjú ár aftur í tímann. Þá fjallaði ég töluvert um þær breytingar sem voru að verða í dönskum stjórnmálum og ekki hvað síst í flokki sósíaldemókrata eða danskra jafnaðarmanna. Ég skrifaði um það greinar. Það gerðu fleiri en ég og hægt var að styðjast við skrif þar í landi. Ég vitnaði t.d. í þekktan danskan stjórnmálafræðiprófessor við Kaupmannahafnarháskóla að nafni Peter Nedergaard, sem ég held að mér skjátlist ekki að sé sósíaldemókrati sjálfur eins og líklega margir prófessorar þar í landi og kannski víðar. Hann benti á fyrir einum þremur árum eða meira að sú breyting sem orðið hefði í Danmörku byggðist á grundvallargildum jafnaðarmanna sem hefðu villst af leið en hefðu loksins viðurkennt það, hafandi séð áhrifin af því að villast af leið í þessum málum. Hann benti einmitt á þversögnina sem fælist í opnum landamærum eða opinni innflytjendastefnu og svo rekstri velferðarstefnu, en jafnaðarmenn í Danmörku hafa talið sig hönnuði og helstu varðmenn velferðarkerfisins og áttuðu sig á því að þetta tvennt færi ekki saman. Hann benti líka á að þá þegar væri öll forysta jafnaðarmanna í Danmörku orðin þessarar skoðunar. Það byggðist á hugsjónum þeirra og ekki síður á reynslunni af því að hafa farið út af sporinu og fetað þá braut sem menn virðast sumir hverjir vilja feta áfram hér á Íslandi.

Matthias Tesfaye — ég bið forseta að afsaka framburðinn ef hann er ekki réttur — er einn af forystumönnum jafnaðarmanna í Danmörku. Hann skrifaði bók um þessi mál sem vakti talsverða athygli. Tesfaye er af eþíópískum ættum og var múrari áður en hann varð þingmaður og komst í forystu jafnaðarmanna. Hann benti á að frjálslynd eða opin stefna í innflytjendamálum færi ekki saman við rekstur velferðarkerfis að því marki að þetta væri eins og eldur og vatn. Niðurstaða bókarinnar var sú að viðsnúningurinn hjá jafnaðarmönnum væri algjör vegna þess að menn hlytu að hafa lært af 30 ára reynslu og mistökum í 30 ár. Það þýðir ekki að Danir vilji ekki aðstoða flóttamenn. Þeir gerðu sér einfaldlega grein fyrir því að þær aðferðir sem höfðu verið notaðar til þessa, aðferðir sem enn eru notaðar á Íslandi, hefðu ekki aðeins mistekist heldur valdið skaða á fjölbreytilegan hátt.

Það er því ekki úr vegi, herra forseti, og ástæðulaust að taka því illa, að við nýtum okkur þessa áratugareynslu Dana og það sem þeir hafa lært af þeirri reynslu og þá alveg sérstaklega sá flokkur sem fer fyrir ríkisstjórn, danskir jafnaðarmenn. En til þess að læra af reynslunni þurftu þau í Danmörku og við líka að líta til staðreynda mála fremur en, eins og allt of títt er með þennan málaflokk, að ræða fyrst og fremst út frá frösum og jafnvel að leitast við að snúa út úr rökum þeirra sem vilja komast að kjarna málsins. Ein þeirra staðreynda sem líta þarf til er að mjög stór hluti, og reyndar talsverður meiri hluti að mati Evrópusambandsins, þeirra sem hafa sótt um hæli á undanförnum árum eru ekki eiginlegir flóttamenn heldur förufólk, fólk í leit að betri kjörum. Ef við ætlum okkur að opna á slíka fólksflutninga hefur það mjög verulegar afleiðingar í för með sér, ekki hvað síst þær afleiðingar að setja þúsundir, jafnvel hundruð þúsunda og með tímanum milljónir manna, í verulega hættu, enda þarf þá að setja þetta í samhengi við aðra staðreynd þessa málaflokks sem er sú að mikið af þessum fólksflutningum fer fram undir handleiðslu alræmdra glæpamanna sem selja slíkar ferðir, til Evrópu ekki hvað síst, og veigra sér ekki við að taka jafnvel aleiguna af fólki fyrir það að selja því óraunhæfar væntingar og setja það í hættuför. Það er mikilvægt að við, eins og Danir leggja áherslu á núna, sendum frá okkur þau skilaboð að fólk eigi ekki að nýta Ísland til þess að reyna að selja fólki slíkar óraunhæfar væntingar og að við munum sjálf hafa stjórn á því á móti hverjum við tökum, hverjum við bjóðum inn í landið, og meta það á þeim forsendum að með því sé hægt að hjálpa fólki sem best. Og að sjálfsögðu, herra forseti, má ekki gleyma, eins og allt of oft fylgir þeirri nálgun sem hér er rekin, að aðstoða fólkið í flóttamannabúðunum sem er hvað næst heimalöndum sínum.