151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis.

469. mál
[22:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að tala skýrt og vera opinská: Mér finnst þetta léleg hugmynd. Það er ekki vegna þess að ég aðhyllist leyndarhyggju eða vilji ekki að öll meðferð mála sé mjög gegnsæ. Ég aðhyllist gegnsæi, gegnsæja stjórnsýslu og gegnsæi í störfum þingsins. Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á hér áðan þá eru störf þingsins ansi gegnsæ. Við erum í beinni útsendingu á hverjum einasta degi þegar hér er þingfundur. Fundargerðir nefndarfunda og dagskrá liggur alltaf fyrir. Málin eru skýr sem við erum að fjalla um og umsagnir. Þetta liggur allt á netinu. Við erum líka með möguleika á opnum nefndarfundum og vel kann að vera að ástæða sé til að halda oftar slíka fundi. En þeir eru engu að síður öðruvísi en aðrir nefndarfundir.

Auðvitað er full ástæða til þess að kjósendur átti sig á eðli þingstarfa og eðli þess starfs sem á sér stað hér í þinginu og það fer auðvitað mikið til fram í nefndunum. En á fund okkar koma jú gestir sem eru að fylgja eftir sínum umsögnum. Þeir tala samt oft með öðrum hætti, jafnvel á aðeins opinskárri hátt, á fundi með þingmönnum en í því sem þeir láta frá sér í skriflegum umsögnum. Það verður oft mjög gagnleg umræða við gesti og milli nefndarmanna úr ýmsum flokkum og þarna gefst tækifæri til að spyrja spurninga og fá svör, og spyrja jafnvel vitlausu spurninganna sem fólk þorir ekki alltaf að spyrja á opnum fundum.

Ég óttast að ef allir fundir yrðu opnir þá værum við svolítið komin í sama leikrit og á sér stað hér í þingsal þar sem fólki finnst mjög gaman að hlusta á sjálft sig tala en minna gaman að hlusta á aðra tala, eins og frægt er orðið. Það er þetta leikrit þar sem fólk setur sig í ákveðnar stellingar í því að vera með skýra afstöðu. Sem stjórnmálamaður ertu líka að bjóða fram þína afstöðu, þá afstöðu sem þú hefur til málanna, en ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn geti komið að málum svolítið kaldir, þ.e. ekki með mótaða afstöðu, og notað tækifærið í störfum nefndanna til að móta sér afstöðu í málunum. Ég óttast að það ferli myndi að einhverju leyti glatast ef við hefðum alla nefndarfundi opna og í raun að það myndi kalla á fundinn fyrir fundinn eða fundinn eftir fundinn, sem ég held að sé mjög oft raunin. Þegar allt fer fram fyrir opnum tjöldum er svolítið búið að afgreiða mál sem mega ekki alveg eiga heima fyrir opnum tjöldum; þegar fólk er að ræða sig saman að einhverri niðurstöðu er haldinn fundur fyrir eða eftir fundinn og það er líka stundum þannig að ekki hafa allir aðgang að þeim fundum.

Virðulegur forseti. Þó að ég aðhyllist gagnsæi og telji fulla ástæðu til að auka sýnileikann í störfum svo að fólk átti sig betur á því í hverju starf þingmannsins felst þá held ég að lausnin sé ekki sú að allir nefndarfundir eigi að vera opnir. Sumir eiga vissulega að vera opnir og kannski megum við hafa fleiri opna nefndarfundi. En ég er ekki sammála því að ástæða sé til að hafa það sem einhvers konar meginreglu.