151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

birting upplýsinga um opinbera styrki og aðrar greiðslur í landbúnaði.

228. mál
[22:28]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu sem flutt er af þingflokki Viðreisnar. Tillögugreinin sjálf hljómar svo, með leyfi herra forseta:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að birta opinberlega upplýsingar um styrki og aðrar greiðslur sem veittar eru á grundvelli búvörusamninga. Upplýsingarnar skulu birtar rafrænt og vera aðgengilegar öllum til uppflettingar án endurgjalds. Birtar skulu upplýsingar fyrir hvert ár um fjárhæð styrkja, grundvöll þeirra og nafn og búsetu styrkþega. Ráðherra geri tillögu að útfærslu og kynni fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþingi 2021.“ — Þ.e. í haust á þessu ári.

Þessi tillaga er flutt í annað sinn, hún var lögð fram á síðasta þingi en náði ekki svo langt að komast hér til umræðu í þingsal. En málið á sér nokkurn aðdraganda og ég held að rétt sé að fara aðeins yfir hann og líka yfir það af hverju þetta er mikilvægt mál. Aðgengi að upplýsingum er forsenda góðra ákvarðana, trausts og aðhalds. Aðgengi að upplýsingum er forsenda réttrar meðferðar opinbers fjár og ætti að tryggja jafnrétti við úthlutun takmarkaðra gæða, hverjir njóta þeirra og á hvaða forsendum. Þannig eru hagsmunirnir leiddir í dagsljósið. Almennt má segja að margt hafi áunnist á þessu sviði, en margt er enn óunnið og margt er hulið í þoku tregðunnar til að hafa upplýsingar aðgengilegar. Ríkið veitir stuðning af ýmsu tagi til margvíslegrar starfsemi; til einstaklinga og fyrirtækja. Þar á meðal eru beinir styrkir í ýmsu formi. Má sem dæmi nefna listamannalaun, styrki til nýsköpunar, til vísinda og þróunarstarfs, styrki til bókaútgáfu, svo eitthvað sé nefnt. Allir þessir styrkir eru opinberir og eru birtar um þá upplýsingar um hver fær hvað og til hvers. Rétt er að minnast á að ríkið hefur nú á Covid-tímum gengið vasklega til verks og veitt ýmsum aðilum styrki til að koma til móts við þann vanda sem margir eiga við að etja. Allt er það háð þeim skilyrðum að upp sé gefið hverjir fá styrki og til hvers og á hvaða forsendum. Er það vel.

Til viðbótar þessu má nefna að ríkið hefur gengið á undan með góðu fordæmi á sumum sviðum og birtir t.d. opinberlega á vefnum Opnir reikningar ríkisins upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins. Gegnsæi og aðgengi að upplýsingum um hver nýtur styrks til atvinnustarfsemi er sjálfsögð og eðlileg krafa þegar ráðstöfun almannafjár er annars vegar. Þessi tillaga gengur sérstaklega út á það að upplýsingar um styrki og greiðslur í landbúnaði verði gerðar opinberar og aðgengilegar. Það er ekki að ástæðulausu. Landbúnaðurinn nýtur mjög verulegrar fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera. Gerðir eru sérstakir samningar við bændur um framlög úr ríkissjóði til tiltekinna verkefna. Skiptir verðmæti þessara samninga mörgum milljörðum, ég hugsa að beinir styrkir með þessu sniði séu einhvers staðar á bilinu 12–15 milljarðar, þannig að þetta eru verulegar upphæðir sem segja má að hvert mannsbarn á Íslandi greiði í stuðning við þessa atvinnugrein. Ég er viss um að það er til bóta fyrir almenning. Það er til bóta fyrir stjórnvöld. Það er til bóta fyrir almenna og upplýsta umræðu, t.d. á vettvangi fjölmiðla um málefni landbúnaðarins og fyrir fræðimenn sem hafa áhuga á því að kynna sér hvernig farið er með þetta fé. Það er mjög mikilvægt að þessar upplýsingar séu aðgengilegar og síðast en ekki síst held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir bændur og bændastéttina sjálfa að þessar upplýsingar séu aðgengilegar þannig að öll umræða byggist á staðreyndum. Það er líka fróðlegt, örugglega fyrir bændur sjálfa, að sjá heildarmyndina, hvernig þessum styrkjum er varið.

Ég gat þess að þetta væri í annað sinn sem tillagan væri lögð fram. Málið á sér þann aðdraganda að í lok ársins 2019 lagði ég fram fyrirspurn til skriflegs svars sem varðaði upplýsingar um stuðning í landbúnaði, einkum til sauðfjárbænda. Fyrirspurninni var svarað í lok janúar á síðasta ári en þá brá svo við að ráðherra treysti sér ekki til að svara með þeim hætti sem farið var fram á, þ.e. að sundurliða styrkina eftir því hverjir nákvæmlega fengju styrkina og á hvaða forsendum, og vísað til þess að um væri að ræða málefni sem ætti að fara leynt. Beiðni um það svar var hafnað og vísað til ákvæða í þingskapalögum, nánar tiltekið 50. og 90. gr. sem kveða á um að ekki megi birta viðkvæmar upplýsingar eða upplýsingar sem ekki teljast nauðsynlegar í svörum frá ráðuneytum til þingmanna. En auðvitað blasir það við að hér er um að ræða ráðstöfun á opinberu fé sem almenningur á og á rétt á að vera upplýstur um og varðar almannahagsmuni. Síðan er það alþekkt að í löndunum í kringum okkur liggja slíkar upplýsingar á lausu. Þá er sama hvort við lítum til Norðurlandanna eða Evrópusambandslandanna; hægt er að fletta upp öllum svona styrkjum niður á hvert einasta bú og hver rekur búið og hvers konar styrki um er að ræða.

Beiðninni var synjað en ég átti síðan orðastað við hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um málið í kjölfarið og lýsti vonbrigðum mínum með málalok. Hann tók fyrirspurninni vel og kvaðst vilja skoða hvort bæta mætti úr. Síðan gerist það næst í þessu að einstaklingur sem hafði verið að leita eftir þessum upplýsingum en fengið synjanir hafði skotið málinu til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Úrskurðarnefndin kveður upp sinn úrskurð þann 26. febrúar og segir þar að viðkomandi eigi rétt á þeim upplýsingum sem hann fór fram á, sem voru í mjög svipuðum dúr og fyrirspurn þess sem hér stendur gekk út á. Þegar þetta lá fyrir endurnýjaði ég fyrirspurnina og víkkaði hana svolítið út og spurði að nýju. Niðurstaðan varð sú að svar kom frá hæstv. ráðherra þar sem allar þessar upplýsingar birtust. Í skjölum þingsins frá þessum tíma, í þessu svari, er sem sagt hægt að komast að því hvernig þessum styrkjum var nákvæmlega úthlutað.

Þingsályktunartillagan sem hér er til umræðu gerir sem sagt ráð fyrir því að það verði fastur liður, eða að tekinn verði upp sá háttur, að á hverju einasta ári þegar fyrir liggur hvaða styrkjum hefur verið úthlutað verði það birt opinberlega og hægt verði að fletta upp í þeirri skrá og sjá hvernig styrkjum er úthlutað. Það þarf sem sagt ekki að leggja fram fyrirspurnir eða kalla eftir því sérstaklega að fá þessar upplýsingar, þetta verður eðlilegur og sjálfsagður þáttur í upplýsingagjöf ríkisins til borgaranna um það hvernig þessu fé er varið. Það held ég að sé skynsamlegt, eins og ég hef reynt að rökstyðja hér. Ég tel að þetta muni bæta umræðuna að mörgu leyti og sé eðlileg upplýsingagjöf af hálfu stjórnvalda. Stjórnvöld hafa haft þá tilhneigingu að vera mjög treg til að veita upplýsingar af þessu tagi og hefur oft og tíðum þurft að toga þær með töngum út úr kerfinu, eins og dæmið sýnir sem ég rakti hér.

En ég vil vera sanngjarn og ég tel að talsverð viðhorfsbreyting sé að verða í þessum efnum. Sérstaklega held ég að það hafi komið í ljós núna, þegar við höfum verið að samþykkja reglur um úthlutun á almannafé í tengslum við kórónuveirufaraldurinn, að alger samhljómur hefur verið um það hér í þinginu að allt eigi að vera uppi á borðum í kringum þá styrkveitingu. Þess vegna trúi ég því að það verði auðsótt mál og þingheimur samþykki þessa þingsályktunartillögu og að hún verði þá til þess að slíkar upplýsingar verði framvegis gerðar opinberar án frekari eftirgangsmuna. Eins og ég sagði áðan trúi ég því einlæglega að bændur sjálfir hafi engan sérstakan áhuga á því að eitthvað sé verið að pukrast með þessa styrki. Þeir eru veittir á grundvelli samninga sem ríkið hefur gert við bændur og það er ekkert fyrir bændur að skammast sín fyrir að taka við styrkjum á grundvelli slíkra samninga og hefur ekkert að gera með það hvaða skoðanir menn kunna svo að hafa á því hvers eðlis styrkir af þessu tagi eigi að vera og fyrir hvað. Þetta er byggt á því kerfi sem við erum með og það er rétt að menn séu upplýstir um það og er í takt við þá opnu stjórnsýslu sem við eigum að hafa. Við í Viðreisn viljum gjarnan að þessi mál séu uppi á borðum eins og öll önnur þegar að því kemur að upplýsa um hvernig farið er með almannafé.