151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

afnám vasapeningafyrirkomulags.

236. mál
[22:43]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um afnám vasapeningafyrirkomulags fyrir hönd þingflokks Flokks fólksins. Hún hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að leggja fram lagafrumvarp til breytinga á lögum um málefni aldraðra sem tryggi afnám svokallaðs vasapeningafyrirkomulags og að lífeyrisþegi sem flytur á dvalar- eða hjúkrunarheimili haldi óskertum lífeyris- og bótagreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Markmið frumvarpsins verði að aldraðir fái notið lögbundins fjárræðis og sjálfræðis.

Þingsályktunartillagan var lögð fram á 149. og 150. löggjafarþingi, 76. mál, og er nú lögð fram að nýju óbreytt. Þetta er í þriðja skipti sem ég kem hér fram, stíg í æðsta ræðustól landsins, og þann áhrifamesta, og mæli fyrir þessu sanngirnis- og réttlætismáli sem hefur í rauninni verið í umræðunni í áratugi án þess að nokkuð sé að gert.

Landssamband eldri borgara hefur í mörg ár beitt sér fyrir því að breytingar verði gerðar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, þannig að eldri borgarar haldi sjálfræði sínu og fjárhagslegu sjálfstæði óháð heimilisfesti. Í V. kafla laganna er fjallað um kostnað við öldrunarþjónustu. Þar er einnig fjallað um þátttöku heimilismanna dvalarheimila í greiðslu þess kostnaðar. Þegar einstaklingur flytur inn á dvalar- eða hjúkrunarheimili fellur réttur viðkomandi til ellilífeyris niður. — Hugsið ykkur. Það er engu líkara en hann hætti bara að vera til, að þetta sé búið spil. — Viðkomandi getur átt rétt á ráðstöfunarfé, eða vasapeningum, sem á árinu 2020 voru að hámarki 77.084 kr. á mánuði.

Hugsið ykkur. Við vorum að tala um það þegar við vorum krakkar og unglingar hvort maður fengi 1.000 kr. á viku í vasapeninga. Það var við lýði þá að við fengjum vasapeninga þegar við vorum krakkar og bjuggum heima hjá pabba og mömmu þegar við vorum ósjálfráða. Þetta gerum við líka gagnvart öldruðum þegar þeir geta ekki lengur, einhverra hluta vegna, búið á eigin vegum í eigin húsnæði eða í sjálfstæðri búsetu og flytja inn á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Einhvers staðar stendur „tvisvar verður gamall maður barn“ en það er skömm að því að keyra gjörsamlega í gegn á hinu háa Alþingi lögþvingun, þannig að fólk sem er orðið þetta fullorðið sitji uppi með magnleysi, svipt sjálfstæði sínu og peningalegu sjálfræði. Það er með hreinum ólíkindum að ég skuli standa hér þriðja árið í röð að mæla fyrir þessu sanngirnismáli. Hvernig er hægt að taka þennan þjóðfélagshóp, aldraða, svona gjörsamlega út fyrir sviga? Mér er það algjörlega hulin ráðgáta.

Með tillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að leggja fram lagafrumvarp sem tryggi sjálfræði og fjárræði aldraðra einstaklinga þegar þeir fara inn á hjúkrunarheimili og að greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum verði breytt þannig að íbúar haldi lífeyrisgreiðslum sínum og greiði milliliðalaust fyrir húsaleigu, mat og annan kostnað sem fylgir heimilishaldi. Með öðrum orðum: Það er einfaldlega verið að biðja um að einstaklingur, þó að hann verði aldraður, fái að halda reisn á meðan hann getur, fái bara að borga sína leigu og uppihald. Auðvitað eru aldraðir misfjáðir, það segir sig sjálft, en þetta fyrirkomulag er okkur til minnkunar og ævarandi skammar og mér er algerlega hulin ráðgáta — ég hef nú ekki alveg kafað svo djúpt niður — hverjum í ósköpunum hafi dottið þetta í hug. Maður ætti kannski að kafa í það hvernig nokkrum manni hefur dottið í hug að koma svona fram við aldrað fólk. Það er algjörlega óskiljanlegt og enn þá óskiljanlegra að þetta skuli ekki hafa verið leiðrétt í áratugi og alveg sama hversu hátt er kallað eftir því. Almennar reglur um þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á heimilunum verði þó óbreyttar. Gert verði ráð fyrir að íbúar geti átt rétt á húsnæðisbótum og kostnaðarþátttaka einstaklinga á dvalar- eða hjúkrunarheimilum verði tekjutengd og falli niður hjá þeim sem hafi lágar tekjur, eðli málsins samkvæmt.

Hér hef ég staðið í ófáar klukkustundir, tugi klukkustunda, frá því að ég var kosin til að standa í æðsta ræðupúlti landsins og vera málsvari fyrir fátækt fólk, og reynt að berjast með kjafti og klóm fyrir réttindum til handa fátæku fólki. Ég segi bara: Þau eru heppin þó, að hafa þennan málsvara, því að eitt er alveg víst að áður en Flokkur fólksins kom og fór að hrópa hér þá var fátt um málsvara fyrir fátækt fólk.

Nú langar mig að segja ykkur svolítið. Árið 1989 fékk Halldór Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Dalbæjar á Dalvík, leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til að breyta hluta Dalbæjar, heimilis aldraðra á Dalvík, í verndaðar þjónustuíbúðir. Halldór skrifaði skýrslu til heilbrigðisráðuneytisins og stjórnar Dalbæjar í október 1990, nokkrum mánuðum eftir að tilraunaverkefninu lauk. Tilrauninni var ætlað að gefa öldruðum kost á að halda fjárhagslegu sjálfstæði. Fjórir karlar og fjórar konur tóku þátt í tilrauninni og niðurstöðurnar voru að þátttakendur í tilrauninni sýndu aukna virkni, félagslífið jókst og ferðir út í bæ urðu fleiri. Tilraunin leiðir líkur að því að hið hefðbundna dvalarheimilisform sé neikvætt og við vitum það bara sjálf, það þarf engan sérfræðing að sjá það þegar búið er að kippa undan manni fótunum þannig að maður lítur bara á sig eins og maður sé nánast ósjálfbjarga ungbarn, krakki heima hjá pabba og mömmu sem þakkar fyrir að fá vasapening. Hugsa sér. Ég bjóst aldrei við að þurfa að tala um þetta í þriðja skipti. Ég hélt að það væri nóg að koma hingað upp og minna á þetta fyrir tveimur árum og þá yrði því tekið fagnandi að maður skyldi draga þetta fram í dagsljósið og það yrði samþykkt einn, tveir og þrír. Nei, öldin er önnur. Það er víst ábyggilegt. Þessi tilraun leiðir líkur að því að hið hefðbundna dvalarheimilisform sé neikvætt og hafi alið af sér ótímabæra hrörnun einstaklinganna sem þar búa.

Starfshópur um afnám vasapeningafyrirkomulagsins var skipaður í maí 2016 — enn einn starfshópurinn, hvað skyldi nú hafa legið eftir hann? — af þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur. Vitið þið hvað? Alveg stórmerkilegt, undur og stórmerki, það liggur ekkert eftir hann. Hann hefur ekki enn skilað niðurstöðum sínum. Í svari félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2018 um afrakstur starfshópsins kom fram að vinna hópsins væri enn á undirbúningsstigi. Hópurinn var sem sagt enn þá, tveimur árum seinna, að undirbúa það að byrja að skoða málin. Hvað sýnir þetta, virðulegi forseti? Hvers lags vanvirðingu er verið að sýna þessum þjóðfélagshópi sýknt og heilagt, sí og æ og alla tíð? Það er ekki oft sem maður verður algjörlega orðlaus en það er alveg sama hvernig er barist með kjafti og klóm, það virðist engu þokað í áttina að réttlæti hérna.

Afnám vasapeningafyrirkomulagsins hefur verið á döfinni í mörg ár, áratugi eins og ég hef nefnt áður, og án þess að þær hugmyndir hafi skilað sér í neinu handföstu. Árið 1990 var sambærilegu fyrirkomulagi í Danmörku breytt. Lífeyris- og bótaþegar sem bjuggu á stofnunum héldu tekjum sínum en borguðu fyrir sig sjálfir eins og þeir höfðu gert fram að því frá því að þeir urðu sjálfstæðir frá foreldrum sínum. Við þykjumst vera hér í lýðræðislegu, frjálsu samfélagi. Það er bara ekki alveg fínna en svo að ef einstaklingur getur ekki búið lengur á sínu heimili vegna heilsufars og þarf að fara á dvalar- eða hjúkrunarheimili, jafnvel þótt hann sé algerlega andlega eldhress, þá er hann tættur svona niður. Sjálfsvirðing hans er gjörsamlega sett ofan í niðurfallið og skolað vel niður á eftir. Þetta er sárara en tárum taki og það hafði ekki endilega í för með sér í Danmörku að þeir hefðu meira fé á milli handanna. Það snýst ekki allt um það. Í þessu tilviki snýst það líka um sjálfsvirðingu, um reisnina sem við erum að tala um.

Með þessari þingsályktunartillögu er því beint til félags- og barnamálaráðherra að endurskoða strax vasapeningafyrirkomulagið þannig að aldraðir haldi sjálfræði inni á stofnunum í eins ríkum mæli og kostur er svo að sem minnstar breytingar verði á högum fólks og háttum þegar það þarf á breyttu búsetuúrræði að halda.

Þetta er sem sagt búið að vera að rúlla um frá árinu 2016. Þá var það sett í starfshóp sem var enn að undirbúa það að byrja að skoða hlutina tveimur árum seinna. Nú er árið 2021.

Í haust eru kosningar, virðulegi forseti. Það er möguleiki, ef við getum haft nógu hátt og talað nógu mikið um það, að þessu verði breytt, af því að því verður ekki breytt nema þeir sem sitja hér við stjórnvölinn breyti því. Það er alveg sama hversu mikill vilji lítils þingflokks í stjórnarandstöðu er til að breyta hlutunum og draga fram réttlætið og útrýma fátækt og að enginn fái minna skatta- og skerðingarlaust en 350.000 kr. Það er sama hversu hátt ég syng, þótt ég hafi ágætissöngrödd. Það verður ekki neitt úr neinu nema þessi ágæta ríkisstjórn stígi fram og láti verkin tala fyrir alla, ekki bara suma. Fátækt fólk getur ekki lengur beðið eftir réttlætinu, það er nokkuð ljóst, og eldri borgararnir okkar, aldraðir, eiga ekki að vera sviptir fjárræði sínu þó að þeir lendi í þeirri stöðu að eyða efstu æviárunum inni á hjúkrunar- eða dvalarheimili. Það er lágmarksvirðing við þá sem eru búnir, í sveita síns andlitis, að vinna baki brotnu til að koma undir okkur því landi og því formi sem við lifum í í dag að við leyfum þeim að halda þeirri reisn sem mögulegt er þar til þeir flytja sig yfir á annað svið.