151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Forseti. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn. Við störfum hér á Alþingi samkvæmt þeim leikreglum sem þjóðin setur okkur. Þetta er mjög mikilvægt að við höfum í huga þegar við tökumst á við umræðu dagsins.