151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:08]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Í dag langar mig að ræða um málefni öryrkja, sem eru sannarlega ekki forgangshópur í augum stjórnvalda. Hagsmunir þeirra eru oft ræddir hér á hinu háa Alþingi, en aldrei að frumkvæði þeirra sem ráða. Kolbeinn Stefánsson, doktor í félagsfræði, vann nýlega skýrslu um málefni öryrkja fyrir Öryrkjabandalagið og hún er fróðleg. Mig langar að tæpa á örfáum atriðum og hvet hv. þingmenn og aðra áhugasama til að kynna sér efnið nánar, sérstaklega þó fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Gjarnan er klifað á því í umræðunni að örorkulífeyrisþegum fjölgi hratt með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið og samfélagið allt, vaxandi kostnaður kalli svo á viðbrögð í formi róttækra breytinga á almannatryggingum og endurhæfingu. Það rétta er, segir í skýrslunni, að örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað umtalsvert frá aldamótum, en breytingin yfir svo langt tímabil kann að gefa villandi mynd af þróuninni. Raunar hægði á fjölguninni eftir 2005 og segir skýrsluhöfundur að nýjustu gögn bendi einnig til að enn frekar hafi hægt á henni frá 2017. Því hefur verið haldið fram að fjölgun örorkulífeyrisþega megi að mestu rekja til ungra karla. Það hlutfall hefur vissulega hækkað á síðastliðnum áratugum, en stærsti hluti fjölgunar örorkulífeyrisþega er rakinn til kvenna 50 ára og eldri, eða rúm 42%. Það er sérstakt og alvarlegt rannsóknarefni.

Herra forseti. Fjallað er um títtnefnt starfsgetumat í niðurlagi skýrslu Kolbeins og segir hann að miklu meiri áherslu eigi að leggja á almenna samfélagsþátttöku öryrkja sem nái betur til þeirra sem eru algjörlega ófærir um að taka þátt á vinnumarkaði, ekki bara að einblína á atvinnuþátttöku. Þótt atvinnuþátttaka sé ákjósanleg leið til virkni í samfélaginu sé hún síður en svo eina leiðin. Það sé afar mikilvægt að samfélagsþátttaka fólks sé tryggð óháð starfsgetu, og undir það tökum við jafnaðarmenn í Samfylkingunni kröftuglega.