151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:13]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Lífið er lotterí, sungu Papar. Lífið er lotterí en það er ekki svo að það sé réttlætanlegt að líf og heilsa fólks sé undir í lotterí annarra og hvað þá ríkisins óbeint. Svokallaðir söfnunarkassar hafa verið leyfðir á Íslandi síðan árið 1994. Tækni þessara véla hefur hins vegar umbylst gríðarlega á þessum 26 árum og þróast í áttina að því að um er að ræða úthugsaða spilatækni, sérstaklega þróaða til að vera gríðarlega ávanabindandi. Nútímaspilakassar eru svo ávanabindandi að oft er talað um þá sem rafrænt heróín. Um er að ræða starfsemi sem fór úr því að vera nokkuð sakleysisleg yfir í að vera eftirlitslaust áhættuspil. Það er ólíklegt, virðulegi forseti, að vilji löggjafans við setningu laganna hafi staðið til að leyfa starfsemi spilakassa í þeirri mynd sem þeir eru í dag og undir því yfirskini að verið sé að draga úr útgjöldum hins opinbera. Við vitum að rannsóknir sýna að yfirgnæfandi hluti þeirra sem spila eru haldnir alvarlegri spilafíkn. Þetta á ekkert skylt við frjáls framlög. Þetta er ekki fólk sem er aflögufært. Veruleikinn er sá að um er að ræða örfáa sárlasna einstaklinga sem fórna öllu með háum fjárhæðum og spila lífið frá sér. Það er ekki lengur um að ræða fólk sem hendir smámynt í spilakassann um leið og það fær sér pylsu út í sjoppu eins og áður var. Þegar samkomubann var sett á vegna Covid-19 í mars var spilakössum lokað. Svo voru þeir opnaðir aftur en standa nú lokaðir til 17. febrúar að öllum líkindum. Þá gætu þeir opnað aftur: Viðhorfskannanir sýna að þorri fólks er neikvætt gagnvart því að starfsemi í almannaþágu sé fjármögnuð með spilakössum.

Forseti. Það eru fá meðferðarúrræði í boði og sjálfsvíg eru algeng meðal spilafíkla. Það eru engar rannsóknir sem sýna fram á það að þeir sem glíma við spilafíkn myndu frekar snúa sér að fjárhættuspili á netinu í staðinn. Engar. Þvert á móti kom það fram í samtölum mínum við Ölmu Hafsteinsdóttur, formann Samtaka áhugafólks um spilafíkn, að þetta fólk fer heim, fer aftur heim til sín og fer að fúnkera í miklu meira mæli. Er ekki kominn tími (Forseti hringir.) til að stjórnvöld taki upp hanskann fyrir þá sem þjást af spilafíkn og fjölskyldur þeirra? Forsendur núgildandi laga eru brostnar og stjórnvöld þurfa að bregðast við strax.