151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna snöfurmannlegu framtaki hæstv. menntamálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur varðandi talsetningu á erlendu efni á streymisveitum. Ég tek undir orð hæstv. ráðherra sem segir óboðlegt að stórveldi eins og Disney nýti ekki íslenskar talsetningar og þýðingar á streymisveitunni Disney+ og hvetur hún fyrirtækið til að gera bragarbót á því og ég tek undir þá hvatningu. Ég vil um leið hvetja hæstv. ráðherra til að huga að öllum. Á þessum tímum upplýsinga og tækniframfara er framboð af sjónvarpsefni enn takmarkað fyrir einstaka hópa. Mikill misbrestur er á því að íslenskt sjónvarpsefni sé textað. Allt að 16% þjóðarinnar eru heyrnarskert að einhverju leyti sem þýðir að um 54.000 manns geta illa notið þeirra mannréttinda að fylgjast með útsendu efni. Það hefur áhrif á samfélagsþátttöku þessa fólks að geta t.d. ekki fylgst með stjórnmálaumræðu og öðru sem er í gangi í þjóðfélaginu og í fjölmiðlum í beinni útsendingu.

Sjónvarpsáhorf, herra forseti, er ekki síst félagsleg athöfn. Textun á innlendu sjónvarpsefni gagnast einnig mun stærri hópi en heyrnarskertu fólki því að hún auðveldar fólki með þroskahömlun að njóta áhorfs, styður við læsi barna og gagnast jafnframt eldra fólki og fólki með annað móðurmál við að læra íslenskt mál.

Við viljum öll efla íslenska tungu. Ég vil því skora á hæstv. menntamálaráðherra að gera bragarbót á þessu, að stjórnvöld veiti fjölmiðlum sem sjónvarpa íslensku efni, hvort sem um er að ræða fréttaefni eða annað efni, stuðning þannig að hægt sé að nota róbóta, eins og er annars staðar um heiminn, til að texta á rauntíma það efni sem sjónvarpað er. Þannig tryggjum við mannréttindi allra, líka þeirra sem búa við skerta heyrn.