151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Fréttir bárust af því í gær hvað varðar framvindu bóluefnakaupa að íslenska ríkið hafi skrifað undir nýjan samning við enn einn bóluefnaframleiðandann, CureVac. Það sem mér fannst sérstaklega ánægjulegt í þeirri frétt var að samið var um kaup á bóluefni fyrir 90.000 manns. Hví er það sem ég nefni þessa tölu, sem mér finnst vera svolítil lykiltala í öllum þessum málum? Ég kom inn á það í umræðu hér við hæstv. heilbrigðisráðherra síðast í desember — eða hvort það var núna í janúar — þegar ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra af hverju ekki hefði verið samið við alla bóluefnaframleiðendur um nákvæmlega að kaupa a.m.k. skammta fyrir 90.000 manns, vegna þess að það er sá fjöldi manna hér á Íslandi sem mér sýnist af lista og flokkun heilbrigðisráðuneytisins og heilbrigðisyfirvalda vera sá fjöldi landsmanna sem við myndum telja að væri brýnt að fengi bóluefni. Ríður mikið á að að tryggja bóluefni fyrir þennan flokk svo hægt verði að koma hér öllu aftur í gang, efnahagslífi og eðlilegu lífi.

Þess vegna fannst mér ánægjulegt að sjá að nú væri farið fram og samið strax um skammta fyrir 90.000 manns, en það hafði ekki áður verið gert nema gagnvart einum bóluefnaframleiðanda, AstraZeneca, í október, en síðan við Pfizer í nokkrum skrefum seint í desember. Þannig að það var ánægjulegt. Í þessu sambandi vil ég líka nefna, af því að ég heyri að sú umræða er að koma upp hvort það geti verið siðferðilega réttlætanlegt að land eins og Ísland klári sínar bólusetningar á undan öðrum, eða Evrópulöndin eða hin vestrænu ríki, að ég vara við þeirri umræðu vegna þess að það ríður mjög á, einkum og sér í lagi fyrir þróunarríkin, að Vesturlönd klári bólusetningar og komi efnahagslífinu á fullt skrið, vegna þess að afleiðingar þessara lokana á Vesturlöndum eru orðnar geigvænlegar einmitt í þróunarlöndunum.