151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vildi nota þetta tækifæri til að vekja athygli hv. þingmanna á því að málefni sem varða Sundabraut eru að komast aftur á dagskrá með ýmsum hætti. Í þessum töluðu orðum er hæstv. samgönguráðherra, Sigurður Ingi Jóhannesson, með blaðamannafund þar sem verið er að kynna niðurstöður starfshóps sem unnið hefur að úttekt á staðsetningu vegtengingar yfir sundin. Án þess að ég hafi átt þess kost að sjá niðurstöður úr þessu vil ég segja að ég vona að niðurstaða þessa starfshóps, sem skipaður er fulltrúum frá stjórnvöldum, Vegagerðinni og sveitarfélögum hér á höfuðborgarsvæðinu, verði til þess að hnútur sem verið hefur í sambandi við staðarval að þessu leyti leysist. Ég vona það innilega vegna þess að hér er um að ræða gríðarlega mikilvæga samgöngubót, ekki bara fyrir okkur sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu heldur líka fyrir stóran hluta landsmanna, alla þá sem búa á vesturhluta landsins og langt inn á Norðurland, held ég að mér sé óhætt að segja.

Sundabraut hefur dúkkað upp í umræðunni með reglulegu millibili í áratugi. Ég minnist þess að hafa setið í umhverfismálaráði Reykjavíkurborgar fyrir sennilega 30 árum og verið að skoða teikningar af staðsetningu Sundabrautar þannig að þetta hefur dúkkað upp með ýmsum hætti. Ég er að vona að skref sem hafa verið stigin í samgöngumálum á þessu kjörtímabili geri það að verkum að við getum farið að hrinda í framkvæmd áformum að þessu leyti. Ég minni á að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingmál sem gerir ráð fyrir einkaframkvæmd á þessu sviði. Ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða með að ráðast í verkin, hætta áætlanagerð og umræðum um leiðir og láta verkin tala í þessum efnum.