151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

almenn hegningarlög.

267. mál
[14:03]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum er varðar kynferðislega friðhelgi einstaklinga. Hér er um stórt skref í átt til kvenfrelsis að ræða og því ber að fagna að við skulum vera komin á þennan stað. Kynferðisleg friðhelgi hefur verið í umræðunni, sérstaklega í tengslum við það sem stundum hefur verið kallað hefndarklám. Núna er það oftar kallað stafrænt kynferðisofbeldi, þ.e. sú mikla ógn sem steðjar að kynferðislegri friðhelgi einstaklinga, sérstaklega kvenna, að nektarmyndir eða annað efni sem notað er til að vega að kynferðislegri friðhelgi einstaklinga sé notað til að niðurlægja, lítillækka, kúga eða að öðru leyti smætta konur, til að hafa tökin á þeim, til að setja þær á sinn stað.

Staðan eins og hún er núna í almennum hegningarlögum er sú að þær greinar sem ná utan um þessa hegðun eru óskýrar. Þeim hefur verið beitt misjafnlega eftir dómstólum. Þær hafa ekki alltaf dugað til að ná utan um háttsemi sem við erum sannarlega sammála um að ætti að teljast refsiverð. Ekki hefur verið samræmi í dómaframkvæmd vegna þess að verið er að nota ákvæði sem fjalla í raun ekki nákvæmlega um þann verknað sem um ræðir. Þarna hefur verið talað um blygðunarsemisbrot eða ýmislegt því um líkt, sem hefur bara ekki dugað til að ná utan um þennan sérstaka brotaflokk á öld margmiðlunar. Í leiðinni tökum við nokkur skref til að uppfæra friðhelgiskafla almennu hegningarlaganna þannig að þau stigi inn í 21. öldina og viðurkenni tölvutæknina, taki það sérstaklega fram og hafi það sem hluta af andlagi sínu. Þetta er einnig gert vegna þess að örlað hefur á því að dómstólum ber ekki saman um hvað telst að vera í nánu sambandi. Þannig hafa sumir dómar álitið það nóg að viðkomandi einstaklingar hafi búið saman í eitt ár til þess að um náið samband sé að ræða, svo það falli undir hegningarlögin, en aðrir dómstólar ekki. Þetta hefur auðvitað valdið misræmi í dómaframkvæmd, ósamræmi og óréttlæti gagnvart brotaþolum þessara brota.

En aðeins um sögu þessa ákvæðis. Kynferðisleg friðhelgi er kannski ekki nýtt hugtak en það er hugtak sem er tiltölulega nýtilkomið í þessari umræðu sem segja mætti að hafi mögulega hafist með hreyfingunni #frelsumgeirvörtuna eða #freethenipple. Hana má rekja aftur til 2012 en birtingarmyndir hennar hér á Íslandi mætti kannski rekja aftur til 2015. Hreyfingin #freethenipple er alþjóðleg hreyfing sem rakin er til bandarískrar heimildarmyndar frá árinu 2012 þar sem fylgst var með konum hlaupa berbrjósta um götur New York-borgar. Markmið myndarinnar var að varpa ljósi á það hvernig líkaminn hefur verið kyngerður. Brjóst kvenna eru talin kynferðisleg en ekki brjóst karla þrátt fyrir að vera oft miklu stærri. Konur eru víða handteknar fyrir að ganga um berbrjósta, jafnvel án þess að slíkar handtökur eigi sér lagastoð, en karlar geta berað barminn án þess að það fari fyrir brjóstið á neinum. Að sama skapi hefur brjóstum kvenna verði beitt gegn þeim. Hrottar telja myndir af berbrjósta konum gott kúgunartól. Geri þær ekki það sem kúgarinn vill eiga þær á hættu að myndirnar fari í dreifingu, eitthvað sem fáir léttklæddir karlmenn þurfa nokkurn tíma að upplifa eða óttast, enda einungis kvenmannsbrjóst sem talin eru ósiðleg. Öllu þessu óréttlæti sögðu ungar íslenskar konur stríð á hendur í lok mars 2015. Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir, nemi í Verslunarskólanum, reið á vaðið og birti mynd af brjóstunum á sér á Twitter sem hún taldi að myndi vekja harðari viðbrögð en ef strákur myndi gera slíkt hið sama. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, hundruð íslenskra kvenna birtu sambærilegar myndir af sér á netinu en rákust víða á veggi við birtinguna. Brjóst þeirra voru talin kynferðisleg af efnissíum samfélagsmiðlanna sem aðeins undirstrikaði misréttið sem baráttukonurnar vildu benda á. Samfélagsmiðlarnir voru jú uppfullir af berbrjósta körlum. #freethenipple var þá ekki síst barátta gegn fyrrnefndri kúgun, að konur þurfi að búa við það ok að þeirra eigin líkama sé beitt gegn þeim. Með því að taka völdin í eigin hendur, normalísera líkama sinn og brjóta niður skaðleg viðhorf til kvenna, tóku þær um leið vopnin úr höndum kúgara sinna eða, eins og meðlimur í Femínistafélagi Verslunarskólans komst að orði í fjölmiðlum í lok mars 2015, með leyfi forseta: „Þetta er eitthvað sem þú ættir ekki að sjá eftir. Ég póstaði svona mynd og hugsaði bara: Djöfullinn, á ég eftir að sjá eftir þessu einhvern tímann? En svo hugsaði ég að það skipti ekki máli. Við erum að gengisfella hefndarklám og þetta er að gera miklu meira en við höldum að þetta sé að gera.“

Virðulegi forseti. Þetta var árið 2015 og það hefur vissulega tekið löggjafann drjúgan tíma að bregðast við ákalli þessara kvenna um aukið réttlæti og aukna vernd fyrir kynferðislega friðhelgi sína. Nú er komið árið 2021 og við erum loks í þann mund að samþykkja að kynferðisleg friðhelgi skuli njóta verndar almennra hegningarlaga. Því ber að fagna og því ætla ég að snúa mér að sögu þess frumvarps sem liggur hér fyrir og innihaldi þess.

Fyrstur til að leggja til breytingu á almennum hegningarlögum til þess að vernda kynferðislega friðhelgi, á þeim tíma var það kallað bann við hefndarklámi, var þingflokkur Bjartrar framtíðar. Síðar meir tók hv. þm. Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, sig til og lagði fram frumvarp um bann við stafrænu kynferðisofbeldi. Hann gerði það í tvígang og í síðara skiptið sem þeirri meðferð lauk, sem var árið 2019, var málið unnið töluvert mikið í nefnd. Margar umsagnir bárust og mikil vinna fór fram af hálfu þingsins sem var svo tekin inn í undirbúningsvinnuna við gerð þessa frumvarps. Frumvarpið er unnið eftir mikla undirbúningsvinnu, sérstaklega Maríu Bjarnadóttur lögfræðings og doktorsnema og kunnum henni við góða þakkir. Hún gerði skýrslu um þetta málefni og önnur, og í kjölfarið kom þetta frumvarp, sem lagt var fram fyrir áramót af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra.

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað umtalsvert um þetta mál og fengið til sín marga góða gesti sem taldir eru upp í nefndarálitinu og óþarfi er að árétta hér.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot og XXV. kafla laganna um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Þá er kveðið á um breytingu á lögum um meðferð sakamála til að tryggja virkni þeirra breytinga sem lagðar eru til á hegningarlögunum. Efni þessa frumvarps, eins og ég hef komið inn á, miðar að því að styrkja réttarvernd einstaklinga með hliðsjón af þeim samfélagslegu breytingum sem hafa orðið með aukinni tæknivæðingu og viðhorfsbreytingu gagnvart kynferðisbrotum á Íslandi.

Ég vil koma aðeins inn á nokkra þætti. Í fyrsta lagi er andlag málsins það að leggja bann við að dreifa efni án samþykkis. Fyrsta efnisgrein frumvarpsins, með breytingu nefndarinnar, hljómar svo:

„Hver sem útbýr, aflar sér eða öðrum, dreifir eða birtir myndefni, texta eða sambærilegt efni, þar með talið falsað efni, af nekt eða kynferðislegri háttsemi annars manns án hans samþykkis skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.“

Þetta er meginverknaðarlýsingin sem við leggjum til að verði gerð refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum. Við leggjum einnig til að sömu refsingu skuli sá sæta sem hótar því sem greinir í 1. mgr. enda sé hótunin til þess fallin að vekja hræðslu eða kvíða hjá þeim sem hún beinist að. Sé brotið framið af gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að einu ári. Við erum einnig að uppfæra þennan friðhelgiskafla, eins og ég kom inn á, virðulegur forseti, í almennum hegningarlögum þannig að hann nái utan um tölvutæknina á fullnægjandi hátt og viðurkenni að hún sé til, stafræna miðla svona almennt, og við setjum inn sérstakt undanþáguákvæði þegar kemur að friðhelgisbrotunum, þessum almennu, sem snýr að því að sú háttsemi teljist ekki refsiverð ef hún er framin með almannahagsmuni eða einkahagsmuni í huga. Ástæðan fyrir því að við gerum þetta er sú að taka fyrir að hægt sé að beita þessari löggjöf gegn t.d. blaðamönnum eða einstaklingum í leit að uppruna sínum, eða einstaklingum að tala um brot gegn sinni friðhelgi opinberlega, hvort sem einhverjir gerendur eigi þátt í því sem annars gætu notfært sér þetta ákvæði til þess að þagga niður í þolendum. Það viljum við auðvitað ekki, virðulegi forseti.

Nokkur álitamál komu upp við meðferð frumvarpsins. Í fyrsta lagi var bent á að mögulega gæti verið rétt að tilgreina sérstaklega að það myndi virka til refsiþyngingar ef brot sem þetta beinist gegn barni undir 18 ára aldri eða gegn einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu eins og t.d. fötluðum. Flestum sérfræðingum sem komu fyrir nefndina bar saman um að þetta væri ekki nauðsynlegt vegna þess að þegar kæmi að brotum gegn börnum myndu önnur ákvæði almennra hegningarlaga duga og væri hægt að bæta við verknaðarlýsingar á þessu broti til að ná utan um það til refsiþyngingar. Varast bæri að taka fatlaða einstaklinga sérstaklega fram í þessu tilfelli til að forðast möguleikana á því að farið yrði af stað í einhvers konar gagnályktanir. Fyrst minnst er á fatlað fólk í þessu andlagi en ekki öðru getur ekki verið að það eigi við þar o.s.frv. Það er eitthvað sem þarfnast heildstæðari skoðunar sem ég tel að við ættum að fara í.

Síðan voru nokkur atriði sem tjáningarfrelsisbaráttukonan í mér og okkur Pírötum rak augun í, það var t.d. orðalagið „að afla sér eða öðrum“. Eins og fram kemur í nefndaráliti var mikið rætt um hvað þetta gæti falið í sér, hvað teldist til slíkrar háttsemi, t.d. hvort það myndi teljast uppfylla þessa verknaðarlýsingu að leita að einhvers konar myndum á leitarvél. Á móti var bent á að verknaðarliðirnir sem taldir eru upp í 1. mgr., þ.e. að afla sér eða öðrum, eru í samræmi við upptalningu á svipuðum brotum, þar á meðal 210. gr. a almennra hegningarlaga. Þá hefur hugtakið öflun fengið nokkra umfjöllun í dómaframkvæmd, að sú framkvæmd gefi vísbendingar um inntak hugtaksins. Nefndin telur vissulega mikilvægt að samræmi sé á milli þessara ákvæða og vísar í þeim efnum til umfjöllunar um breytingartillögu nefndarinnar. Þar er svolítið fjallað um þetta, að það þurfi a.m.k. að vista og hlaða niður myndum til að þessi verknaðarlýsing sé uppfyllt. Sömuleiðis þurfi alltaf að liggja fyrir rökstuddur grunur um brot. Það sem ég óttaðist helst var að þetta gæti verið notað sem einhvers konar opin heimild til að fylgjast með netumferð og annað slíkt. En það ætti ekki að vera vegna þess að alltaf þarf að sækjast sjálfstætt eftir þessari heimild, liggja þarf fyrir rökstuddur grunur um ákveðið brot en ekki almennur grunur um að almennir netverjar þessa lands séu mikið í því að hlaða niður ólöglegu efni, og að þetta sé í samræmi við 210. gr. a sem snýr að barnaklámi, hvernig það er skilgreint. Það er komin dómaframkvæmd í kringum þetta og það sló a.m.k. svolítið á áhyggjur mínar.

Í frumvarpinu er líka lagt til að gáleysisbrot af þessu tagi verði gerð refsiverð. Samkvæmt almennum hegningarlögum er meginreglan sú að brot eru ásetningsbrot, þ.e. að brotamaðurinn þarf að hafa ásetning til að fremja verknaðinn eins og hann liggur fyrir. En við setjum ákveðna gáleysisheimild sem grundvöll refsiábyrgðar. Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um hvort efni stæðu til að takmarka refsiábyrgð, svo sem við stórfellt gáleysi. Og munurinn þarna á milli, fyrir þá sem ekki eru alltaf að velta þessu fyrir sér, er að stórfellt gáleysi þýðir að viðkomandi einstaklingur geri sér grein fyrir því að verknaðarlýsingin gæti verið uppfyllt, geri sér grein fyrir því að sá skaði sem verið er að koma í veg fyrir, verið er að banna fólki að valda, gæti vel orðið af hegðun viðkomandi en lætur sér það í léttu rúmi liggja, er í raun sama um afleiðingar gerða sinna. Hvað varðar venjulegt gáleysi er miklu minni sönnunarbyrði á hvað liggur að baki; viðkomandi þarf ekki endilega að hafa gert sér grein fyrir því að afleiðingarnar yrðu eins og þær urðu. Þetta er lægra stig ábyrgðar hvað varðar hinn huglæga hluta þess sem metið er þegar kemur að því hvort verknaðarlýsingar brota séu uppfylltar.

Nefndin tekur hins vegar fram að hún telur ekki þörf á stigskiptum refsiramma varðandi ásetningsbrot en telur aftur á móti ástæðu til að lækka refsirammann fyrir gáleysisbrot. Það er einfaldlega til þess að meiri munur sé á milli þessara brota, annars vegar gáleysis- og hins vegar ásetningsbrota. Það er í samræmi við það hvernig þetta er í almennum hegningarlögum almennt og yfirleitt, þ.e. að oft er töluverður munur á milli refsirammans gagnvart gáleysisbrotum og gagnvart ásetningsbrotunum sjálfum, meginbrotunum. Því töldum við rétt að leggja til að refsiramminn, sem var áætlaður tvö ár samkvæmt upprunalegu frumvarpi, verði lækkaður niður í eitt ár. En í stað þess að setja markið hærra upp í stórfellt gáleysi höldum við okkur við gáleysisbrot þar til að halda þessum fælingarmætti, til að fæla fólk frá því að taka þátt í þessu refsiverða athæfi, að fólk þurfi að fara svolítið varlega í það hvernig það fer með kynferðislega friðhelgi annarra.

Við leggjum einnig til breytingar á 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga. Komið hafa fram sjónarmið um að þessi ákvæði þarfnist frekari skoðunar, að þau séu ekki endilega tilbúin, að ekki sé endilega tilefni til þess að breyta þeim alveg strax og það beri að bíða með það þangað til þingið er búið að ákveða hvað það ætlar að gera við ærumeiðingarkafla almennra hegningarlaga. Nefndin tekur fram að frumvarp til laga um bætur vegna ærumeiðinga hefur ekki verið lagt fram að nýju á þessu þingi. Það er okkar mat að þetta frumvarp feli einungis í sér lágmarksbreytingar þar sem leitast er við að tryggja einstaklingum, sem ekki eru nákomnir gerendum sínum, fullnægjandi réttarvernd friðhelgi sinnar. Hér erum við einnig sérstaklega að huga að stöðu fólks í viðkvæmri stöðu eins og fatlaðs fólks, mikilvægi þess að réttarvernd þeirra verði sérstaklega tryggð eins og þegar um er að ræða birtingu myndefnis í heimildarleysi. Það kom fram á fundum nefndarinnar að það er nokkuð algengt að fatlað fólk lendi í því af myndum af þeim í viðkvæmri stöðu sé deilt í heimildarleysi. Var tekið dæmi um það að myndir af fólki í mjög varnarlausri stöðu, jafnvel nöktu á einhverri heilbrigðisstofnun eða eitthvað slíkt, séu notaðar á ráðstefnum, sé dreift án þeirra samþykkis. Að mörgu leyti gæti það skýrst af því að fatlað fólk sé ekki álitið kynverur, að ekki sé hægt að særa kynferðislega friðhelgi þeirra þar sem ekki sé litið á þau sem kynferðislegar manneskjur. Okkur fannst því mjög mikilvægt að halda 228. gr. inni vegna þess að hún tekur fyrir myndbirtingar af fötluðu fólki í viðkvæmri stöðu, það er mjög skýrt að það er hluti af þessu andlagi og þar með er orðið mjög skýrt að ekki má dreifa myndum af neinum og heldur ekki fötluðu fólki í viðkvæmri stöðu, burt séð frá fordómum.

Síðan komu fram ýmsar ábendingar um að gott væri að gera hitt eða þetta í leiðinni, að það væri gott að hækka refsirammann fyrir kynferðislega áreitni til að það væri í samræmi við þetta brot; að það þyrfti að þyngja refsingu við dreifingu og vörslu á barnaklámi. Þetta eru allt þarfar og réttar og góðar ábendingar en ég tel hins vegar að alltaf sé vandmeðfarið að breyta almennum hegningarlögum. Það þarf alltaf að liggja fyrir alveg frá upphafi hvað stendur til í þeim efnum til að allir geti tekið samtalið, til þess að umsagnir geti snúist um nákvæmlega hvað það er sem verið er að breyta í almennum hegningarlögum og til þess að fagleg umfjöllun nefndarinnar fjalli um nákvæmlega hvað á að gerast varðandi almenn hegningarlög. Við erum þarna að tala um refsiábyrgð og refsiheimildir gagnvart borgurunum og það þarf að vera mjög skýrt hvað verið er að gera hverju sinni. Því fannst mér ekki rétt að fara í einhverjar hækkanir á refsiramma í öðrum brotum í leiðinni, en ég bendi á að vinna er í gangi í dómsmálaráðuneytinu þegar kemur að barnaníði og barnaklámi. Sömuleiðis fyndist mér tilefni til þess, annaðhvort fyrir ráðuneytið eða fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd, að skoða það að leggja fram frumvarp af hálfu nefndarinnar um að hækka refsirammann hvað varðar kynferðislega áreitni upp í fjögur ár, rétt eins og þetta brot felur í sér, bara til samræmis og vegna þess að það geta oft verið alveg jafn alvarleg brot, ef ekki alvarlegri en það, sem rata nú loksins inn í almenn hegningarlög.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur fagna því að þetta mál sé komið á þennan stað. Það er afrakstur samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég vil leyfa mér að velta því aðeins fyrir mér í lokin hvort við hefðum kannski verið komin á þennan stað aðeins fyrr ef samstarfsviljinn hefði verið jafn mikill á báða bóga. En það þýðir svo sem lítið að þrasa um það á þessu stigi máls. Hingað erum við komin. Það er vegna framlags frá mörgum flokkum, Bjartri framtíð, Pírötum og nú hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins, og auðvitað öllum þeim góðu þingmönnum sem sitja í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og hafa unnið þetta mál með þeirri sem hér stendur.

Ég vil því ljúka máli mínu með því að telja upp þá hv. þingmenn sem standa að þessu nefndaráliti. Það eru, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Páll Magnússon, formaður nefndarinnar, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, með fyrirvara, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson. Ég þakka þeim fyrir gott samstarf í nefndinni og hvet hv. þingheim til að samþykkja þetta mál með hraði svo við getum loksins stigið þetta mikilvæga skref í átt að vernd kynferðislegrar friðhelgi á Íslandi.