151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

almenn hegningarlög.

267. mál
[14:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta mál sé komið á þann stað sem það er komið. Eins og farið var yfir í framsöguræðu með nefndaráliti lagði ég á sínum tíma fram frumvarp með sama markmiði. Ástæðan fyrir því að ég lagði það fram var tvíþætt, annars vegar sú að ég trúi því að til þess að tryggja frelsi þurfi að banna kúgun. Umrætt vandamál sem hefur að miklu leyti komið til með upplýsingatæknibyltingunni, að nota nektarmyndir eða kynferðislegt efni til kúgunar eða brota gagnvart einkalífi annarra, hefur vaxið gríðarlega mikið. Það hefur svo sem alltaf verið til, alla vega jafn lengi og myndavélar hafa verið til, í einhverju magni en þessi brot hafa orðið svo ofboðslega auðveld og ofboðslega algeng og ofboðslega meiðandi að bregðast þarf sérstaklega við. Seinni ástæðan fyrir því að ég vildi leggja frumvarp fram er sú að ég tel mjög mikla hættu á því að við lagasetningu séu gerð mistök.

Undirliggjandi tækni er þannig, hið alþjóðlega eðli internetsins og tölvutækninnar, að það er vandasamt að ætla að banna hegðun sem er háð því að við höfum stjórn á upplýsingum sem við viljum ekki hafa og eftirliti sem við viljum ekki lifa við. Togstreitan þarna birtist mjög gjarnan í vandamálum sem eru afleiðing upplýsingatækninnar. Þetta er engin undantekning á því. Þá þarf oft að dansa línudans til að reyna að ná fram tilteknum markmiðum.

Eitt varðar sérstaklega það athæfi að afla sér þessara mynda eða þessa kynferðislega efnis. Ég hef átt í smávandræðum með það í gegnum tíðina vegna þess að það er mjög auðvelt að fremja það brot óvart. Á Google, vinsælustu leitarvél heimsins, er myndaleit og þar er hægt að leita að myndum af berbrjósta konum eða nöktu fólki, það er hægt að leita að nekt og þá kemur heill hellingur af myndum af nöktu fólki og ýmsu öðru talsvert svæsnara með. Það er engin leið fyrir venjulegan notanda að ætla að nota slíka leitarvél til fullkomlega saklausra verka án þess að sjá myndir af fólki sem teknar voru í leyfisleysi. Það þarf ekki einu sinni að vera beinlínis að leita að einhverju klámfengnu, kynferðislegu eða nekt til að rekast mögulega á slíkar myndir. Það er ekki hægt að gera notendur ábyrga fyrir þessu. Það er ekki hægt að hafa eftirlitsheimildir hjá lögreglu sem fela í sér að hún geti rannsakað alla sem hugsanlega gera þessi mistök. Í þessu liggur vandinn við annars vegar það að gera það refsivert að afla sér, eins og það er orðað, og hins vegar það að búa til rannsóknarheimildir sem gera ráð fyrir því að þær séu auknar umfram það sem tíðkast við brotum sem varða svo lága fangelsisrefsingu sem eitt eða tvö ár. Það varðar sömuleiðis spurningar um gáleysi vegna þess að það er líka tvíþætt. Gáleysið sem ég var að lýsa er eitthvað sem ég hugsa að hver einasti blaðamaður hafi margsinnis sýnt í sínu starfi og fólk sem notar myndaleit almennt í lífinu, margoft gert það án þess að átta sig einu sinni á því. Það er til þannig gáleysi. Við viljum ekki að það sé refsivert, alla vega ekki þannig að lögreglan hafi opið veiðileyfi á alla sem nota netið með þeim hætti. Þá erum við búin að draga svo mikið úr réttindum borgaranna til einkalífs, til að nota netið í fyrsta lagi og í öðru lagi að gera fólk sekt um eitthvert brot sem það var ekki að fremja.

Það er hins vegar eðlisólíkt því að einhver taki nektarmynd eða kynferðislegt efni, jafnvel með samþykki, af einhverjum einstaklingi, deili því síðan vitandi að það er óheimilt til annars eða þriðja aðila sem síðan deilir því til fjórða aðila án þess að „vita“ hvort það hafi verið heimilt eða ekki. Þarna er ekki endilega svo auðvelt að finna skýra línu. Þess vegna hef ég pínulitlar áhyggjur af því að við gerum mistök í þessari lagasetningu.

Ég verð þó að segja: Ég lagði mig mjög mikið fram við að reyna að finna einhverja skynsamlega lendingu í mínu frumvarpi á sínum tíma. Ég þakka fyrir samráðið við gerð þess en ég hef spjallað við eitthvað af því fólki sem kom að gerð þess. Ég verð að segja að mér þykir afraksturinn mjög góður og hef engar tillögur að því hvernig gera megi þetta betur, enn sem komið er alla vega. Mér þykir þetta mjög snyrtileg lending eða a.m.k. jafn snyrtileg og ég gæti sjálfur lagt fram. Það eru alveg möguleikar á því að í framkvæmd og sér í lagi þegar komin er dómaframkvæmd komi upp einhver tilfelli þar sem við erum að gera saklaust fólk sekt um eitthvað sem við viljum ekki að það sé sekt um og sömuleiðis er mögulegt að það hafi einhver áhrif á rannsóknarheimildir lögreglunnar sem við kærum okkur ekki um. Með tilliti til lögskýringargagna, bæði nefndarálitsins, greinargerðar frumvarpsins og síðan ræðunnar sem við hlýddum á áðan, hef ég þó litlar áhyggjur af þessu hvað varðar frumvarpið. Ég tel tiltölulega vel komið í veg fyrir að þau vandamál verði að raunveruleika og fyrir það ber að þakka og því ber að fagna.

Þetta er mikilvægt mál vegna þess að við viljum, vona ég, búa í frjálsu samfélagi. Það þýðir að við getum hagað okkur samkvæmt því frelsi í okkar einkalífi án ótta við að verða fyrir hræðilegum afleiðingum af hendi annarra aðila. Internetið gefur og internetið tekur og það eru mörg tvíeggjuð sverð í allri þeirri þróun. Þá er mikilvægt að við áttum okkur á því hvaða frelsi það er sem við viljum búa við. Við viljum ekki búa við það frelsi að hægt sé að brjóta á einkalífi okkar með því að smella á nokkra takka. Við viljum ekki að kynhegðun okkar í einkalífinu geri okkur að skotspæni fyrir almenning eða okkar nánustu. Í þeim aðstæðum felst kúgunaraðstaða sem okkur ber skylda til að berjast gegn og afmá, og eins og ég sagði snemma í ræðu minni: Til þess að tryggja frelsi þarf að banna kúgun. Til þess að tryggja frelsi þarf að banna þrælkun. Ég tel að hér séum við að banna kúgun og kúgunarefni, og ég tel vel að verki staðið. En þetta er afskaplega viðkvæmur og erfiður línudans. Ég hlakka til að sjá frumvarpið verða að lögum von bráðar sem ég býst fastlega við að verði.