151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

almenn hegningarlög.

267. mál
[14:35]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir heildarmarkmiðið með þessu frumvarpi, þingmáli, sem er það að skýra löggjöf sem er æskileg, ég tala nú ekki um þegar kemur að hegningarlögum, þá er mjög brýnt að refsilöggjöfin og ákvæði um viðurlög og útgáfu ákæru séu afar skýr og það sé skilgreint með skýrum hætti nákvæmlega hvaða háttsemi það er sem er refsiverð en ekki látið í hendur dómstóla að túlka löggjöf. Þetta frumvarp er ágætt ágætt að því leyti að það dregur sérstaklega fram og varpar fram og setur með orðum á blað það sem löggjafinn metur að sé refsivert, sem er þessi dreifing einkum og sér í lagi, þó að frumvarpið fjalli um meira, eins og gerð er grein fyrir í greinargerð þar sem segir að mikilvægt hafi þótt að fjalla aðeins víðar um þessi mál en bara um dreifingu á ljósmyndum á internetinu, eins og var kannski tilefni þessa frumvarps.

Hins vegar hefur mér fundist bera við í umræðunni um málið, og ekki bara um þetta sérstaka þingmál heldur um þau mál sem komið hafa inn á borð þingsins á undanförnum árum og framsögumaður nefndarálits vísaði til, að uppi sé sá misskilningur, a.m.k. er málflutningurinn nokkuð villandi að mínu mati að því leyti að því hefur jafnvel verið haldið fram að verði þetta tiltekna þingmál samþykkt sem við fjöllum hér um, þá gerist það að tiltekin háttsemi verði loksins refsiverð. Mér finnst bagalegt að málum sé stillt þannig fram vegna þess að það er auðvitað ekki þannig að í dag, áður en þetta þingmál verður samþykkt, sé það refsilaust að dreifa ljósmyndum af nöktu fólki án samþykkis þess, á internetinu svo dæmi séu tekin, að ég tali nú ekki um af börnum, og önnur sú háttsemi sem þetta frumvarp fjallar um. Það hefur verið refsivert um langt skeið og hafa margir dómar fallið um slíkt. Nýlega féll einmitt dómur um dreifingu á nektarmyndum af manneskju sem ekki hafði veitt heimild sína fyrir því að slík mynd færi á flakk á internetinu, jafnvel þótt hún hefði sjálf komið henni á stafrænt form og sent áfram til tiltekins aðila. Um þetta eru margir dómar.

Í greinargerð frumvarpsins hefur mér fundist skorta aðeins frekar á umfjöllun um þetta atriði, þ.e. það réttarástand sem er í dag. Í greinargerðinni er ágæt tafla sem sýnir hvernig tiltekin brot hafa verið heimfærð, ég vænti þess að þau hafi verið heimfærð í ákæru. Ég átta mig ekki á því. Það kemur ekki fram í greinargerðinni hvort þarna er verið að ræða um heimfærslu í ákæru eða heimfærslu dómsins sjálfs. En allt að einu þá er þarna ágætistafla og þegar maður lítur yfir hana þá blasir við að í öllum þessum málum, öllum þessum aðstæðum sem þarna eru nefndar sem dæmi, hafa þeim verið heimfærð undir 209. gr. hegningarlaganna, sem er ákvæðið sem kallað hefur verið blygðunarsemisbrot. Þess vegna finnst mér skjóta skökku við að í greinargerðinni segi að dómaskoðunin sýni þá meginveikleika í lagarammanum að þeir liggi einkum í óskýrum mörkum við heimfærslu brota undir kynferðislegri áreitni og blygðunarsemi. Mér hefur fundist vanta smáumfjöllun um þetta í greinargerðinni og ég finn því ekki stað að fjallað hafi verið sérstaklega um þetta, a.m.k. í nefndarálitinu. Auðvitað kann að hafa verið fjallað eitthvað um þetta í nefndinni.

En mér finnst hins vegar mikilvægt að það komi skýrt fram, í ljósi þeirrar umfjöllunar sem verið hefur um þetta mál og önnur, að þessi brot hafa verið refsiverð, fyrir þau hefur verið veitt refsing með dómum í fjölmörgum málum. Því skyldi maður kannski spyrja sjálfan sig — það heyrir nú upp á mig, ég náði ekki að fara í andsvar við hv. framsögumann nefndarálitsins — að hvaða leyti menn hafa lagt mat á hvað muni nákvæmlega breytast við samþykkt þessa frumvarps. Þá vísa ég til þess hvort menn sjái fyrir sér fjölgun á ákærum eða fjölgun á dómum, en a.m.k. ekki harðari refsingar vegna þess að hér er gert ráð fyrir sama refsiramma, sem er þó sá kostur sem þetta frumvarp hefur umfram önnur þingmál sem ratað hafa hingað vegna þess að í þeim var einhverra hluta vegna gert ráð fyrir vægari refsingum, minni refsiramma fyrir þessi sömu brot en gert er ráð fyrir í 209. gr. almennra hegningarlaga. Það er a.m.k. ljóst að frumvarpshöfundar og nefndin hafa ekki í hyggju að breyta refsirammanum.

En svo ég nefni það nú bara, án þess að ég hafi kafað ofan í störf nefndarinnar eða nefndarálitið, þá vakti það athygli mína, af því að hv. framsögumaður nefndarálitsins fjallaði sérstaklega um það, og það var ágætt að vekja athygli á því að hér er gert sérstaklega ráð fyrir því að refsing verði ekki í tilteknum aðstæðum, eins og það er kallað, þegar háttsemin gæti verið réttlætanleg með vísan til almanna- og einkahagsmuna. Hér er vísað til þess ef fjölmiðlar ætla að fjalla um einkamálefni manna eða jafnvel dreifa því sem menn hafa hingað til talið að séu einkamálefni manna og mönnum hefur hingað til þótt, í áraraðir, kannski árhundruð, rétt að leynt fari. Ég hefði talið heppilegt ef menn hefðu komið með eitthvert dæmi um þetta í umfjöllun nefndarinnar. Úr því að ekki er sérstaklega mikil umfjöllun í greinargerðinni þá hefði það kannski verið til skýringar að fá aðeins nánari umfjöllun um það og kannski dæmi um það hvaða aðstæður það gætu verið sem gætu réttlætt tiltekna háttsemi sem menn hafa lagt áherslu á að sé refsiverð.

En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta heldur aðallega leggja áherslu á það að eins og ég sé þetta mál, nái það fram að ganga, sem ég hef fulla trú á, þá eru vangaveltur mínar hvort þetta hafi raunverulega þýðingu í réttarvörslukerfinu., þ.e. varðandi ákærur, varðandi uppkvaðningu dóma, fyrir utan auðvitað tæknileg atriði. Ég er ekki að fjalla um það tæknilega atriði sem hér er, það sem gert er núna, sem er nýmæli, að tiltekin háttsemi verði gerð að ákærumálum en ekki, eins og nú er, að einkaréttarlegum kröfum. En varðandi dreifingu án heimildar með stafrænum miðlum, eða með öðrum hætti, af fólki beru án þess samþykkis, þá finnst mér rétt að árétta að það hefur verið og er refsivert og fjölmargir dómar hafa fallið um það.