151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

almenn hegningarlög.

267. mál
[14:51]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var svo sem ekki neinni spurningu beint til mín í þessu en ég þakka fyrir svarið. Í framhaldi af ummælum hv. framsögumanns vil ég nefna að 209. gr. hefur verið notuð, eins og fram kemur í greinargerðinni, bæði í heimfærslu ákæru og í dómum. En í þessum málum eins og öðrum refsimálum er oft mörgum ákvæðum hegningarlaga beitt til fyllingar öðrum og það þótt mál hafi síðan ekki verið dæmd á grundvelli þeirra allra, enda er það kannski ekki endilega vaninn. Það er eitt ákvæði sem tæmir sök í þessu, eins og það heitir. Hv. framsögumaður nefndi að það væri eitthvað óljóst þegar aðilar væru í tengslum, eins og kallað er, í nánum tengslum, en ég hef ekki fundið því stað í dómaframkvæmd að það hafi valdið vafa í þessum málum heldur hafi þá mögulega 209. gr. tæmt algerlega sök en önnur komið til fyllingar og til refsiþyngingar sé staðan sú að aðilar séu í nánum samskiptum, að ekki sé talað um börn en þá eiga önnur sjónarmið við sem mögulega tæma sök frekar en 209. gr. Ég vildi bara árétta það með innkomu minni í þessa umræðu. Það velkist enginn í vafa um að dreifing í heimildarleysi af myndum af nöktu fólki, í nánu sambandi eða ekki, hefur verið refsiverð á Íslandi um áratugaskeið.