151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

almenn hegningarlög.

267. mál
[14:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég er hér undir því loforði að klára fyrir klukkan þrjú, ég vil slá á þær áhyggjur. Mig langar að spóla aðeins til baka til 18. desember 2013. Þá kom allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna saman og samþykkti ályktun um rétt til einkalífs og friðhelgi í stafrænum heimi. Það var ákall til þjóða um að virða og vernda réttinn til friðhelgi einkalífs, einnig í samhengi stafrænna samskipta. Þetta kemur í kjölfar þeirra aðstæðna sem þá voru uppi, það voru mjög stórar spurningar um hvort í raun ætti að njósna um almenna borgara til að koma í veg fyrir t.d. ólöglegt niðurhal. Það mál sem við ræðum hér er nákvæmlega það sama í stærra samhengi. Sú ályktun snerist í einfaldri mynd sinni um að bregðast við brotum með öllum tiltækum ráðum, að endurskoða alla ferla og lög sem málið varðar, þ.e. friðhelgi einkalífs í stafrænum heimi, og það er það sem þetta frumvarp snýst um, og svo að tryggja gagnsæi og ábyrgð í eftirliti ríkisins, þ.e. að það sé tryggt að þar sem ríkið kemur að málum, fylgist með ýmiss konar samskiptum og svoleiðis, fylgi því gagnsæi og ábyrgð að safna slíkum gögnum saman. Í stærra samhengi erum við að glíma við nákvæmlega þetta vandamál núna rúmum tveimur áratugum of seint, en sem betur fer erum við komin á þennan stað og erum að klára þetta skref. Það eru þó nokkur skref eftir sem varða það samhengi sem við búum í núna, hvernig það hefur þróast á undanförnum áratug eða svo, sem er kannski mun erfiðara að glíma við. En þetta er rosalega góður grunnur að byggja á og ég er mjög ánægður með að þetta mál sé komið á þann stað sem það er loksins komið.