151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þetta endaði í þó nokkru skjalli undir lokin. Eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan bauð hún flokkunum upp á að leggja fram bókun sem birtist í greinargerð. Samfylkingin nýtti það tækifæri ásamt Pírötum til að koma á framfæri almennum athugasemdum. Minna er þar um efnislega umfjöllun um einstakar greinar. Það munum við auðvitað gera, ég hér á eftir og síðar í ræðum, nefndarvinnu, nefndarálitum og loks í atkvæðagreiðslum, ef málið kemst svo langt.

Í upphafi þessarar umræðu er þess vegna nauðsynlegt að fara aðeins yfir bókunina. Stjórnarskrá Íslands er samfélagssáttmáli, æðstu lög landsins og grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar. Í henni eru mannréttindi varin og skilgreindar skyldur jafnt ríkisvalds sem borgara. Því er mjög mikilvægt að stjórnarskráin tilheyri landsmönnum öllum, endurspegli sameiginleg gildi þeirra og njóti almenns trausts. Staðið hefur til frá lýðveldisstofnun að Íslendingar settu sér sína eigin stjórnarskrá í stað þeirrar núgildandi sem átti að vera til bráðabirgða og okkur var færð. Fjölmargar nefndir þingmanna og formanna stjórnmálaflokka hafa fjallað um endurskoðun einstakra kafla. Sumt hefur tekist, en heildarendurskoðun hefur ekki farið fram. Ég held að fullyrða megi að langlengst höfum við komist með vinnu stjórnlagaráðs 2011–2012. Ráðið skilaði Alþingi heildstæðu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vann tillöguna áfram og lagði fram fullbúið nefndarfrumvarp vorið 2013. Þrátt fyrir að tveir þriðju kjósenda vildu í þjóðaratkvæðagreiðslu leggja það frumvarp til grundvallar nýrri stjórnarskrá tókst ekki að afgreiða málið frá Alþingi.

Samkvæmt upphaflegu frumvarpi um stjórnlagaþing, sem síðar varð stjórnlagaráð, átti þingið að starfa í þremur atrennum með hléum á milli. Við áframhaldandi vinnu við stjórnarskrána hefði farið best á því að halda þeirri meginhugmynd til haga og að málið héldi áfram í öðrum áfanga, í áframhaldandi vinnu stjórnlagaráðs og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, m.a. að teknu tilliti til álits Feneyjanefndarinnar, innlendra sérfræðinga, eftir atvikum, og almennings. Slík framhaldsvinna hefði getað átt sér stað á vettvangi nýkjörins stjórnlagaþings með borgarafundum, slembivöldum ráðum, rökræðukönnununum, hjálp internetsins, sjálfstæðu sérfræðingaráði eða með öðrum opnum, nútímalegum, lýðræðislegum aðferðum sem við höfum mögulega núna.

Ný stjórnarskrá, sem er unnin með þeim aðferðum sem beitt hefur verið á þessu kjörtímabili, er verri að tvennu leyti. Fyrri leiðin er ferðalag þar sem markmiðið er að hluta til það sem skiptir máli, stjórnarskrá sem verður til með opnum og lýðræðislegum hætti sem er minnst háður hefðbundnum flokkastjórnmálum og valdahagsmunum og í raun stjórnarskrá landsmanna sjálfra með möguleikum þeirra á beinni þátttöku. Það myndi vafalaust auka miklu meira traust og virðingu og verða raunverulegur samfélagssáttmáli, miklu frekar en sú leið sem við höfum farið á ágætisfundum, en þó lokuðum, þar sem formenn stjórnmálaflokka hafa hist, embættismenn ráðuneyta hafa verið með okkur og sérfræðingar verið kallaðir inn. Það er líka merkilegt að þessi tilraun til almenningssamráðs, rökræðukönnunin, sem ég studdi heils hugar, skilaði sér þó ekki með sýnilegri hætti en raun ber vitni í frumvarpi forsætisráðherra og hefur forvígismaður könnunarinnar vakið athygli á því. Reyndar kom fram fín breyting á síðustu metrunum en annað ekki.

Í öðru lagi er slík stjórnarskrá fólksins miklu líklegri en ella til að vera heildstæð og leidd af tilteknum grunngildum sem móta og samræma heildarmyndina. Svo dæmi sé tekið voru leiðarstef stjórnlagaráðs valddreifing, gegnsæi og ábyrgð. Þessi stef höfðu áhrif á alla kafla frumvarpsins, allt frá 1. gr., um stjórnskipan lýðveldisins, til ákvæða um völd forseta, þjóðarfrumkvæði o.s.frv. Stjórnarskrá sem er í grunninn byggð á dönsku konungsveldi, að uppistöðu frá seinni hluta 19. aldarinnar og síðan margbætt, verður sennilega seint heildstæð og samrýmd og nútímaleg. Það er því eindregin skoðun þeirra flokka sem lögðu fram þessa bókun að leiða ætti stjórnarskrármálið til lykta með öðrum og lýðræðislegum áfanga í framhaldi af þeim fyrri sem hafinn var með skipun stjórnlagaráðs. Þar eiga almenningur og sérfræðingar kost á að taka þátt, fullmóta og fullbúa nýja og heildstæða stjórnarskrá fyrir Ísland á þeim grunni sem liggur nú þegar fyrir. Sumt af því hefur auðvitað ratað hingað inn og ég geri ekki lítið úr því.

En það verður heldur ekki hjá því komist við upphaf þessa þinglega ferils að fjalla aðeins um þá vinnu sem átt hefur sér stað á fundum formanna síðustu þrjú ár. Hún var að undirlagi hæstv. forsætisráðherra sem lagði okkur línurnar með minnisblaði frá því í janúar 2018. Þar kom m.a. fram að um væri að ræða heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á þessu kjörtímabili og því næsta. Litið yrði til þeirrar vinnu sem lögð hefði verið í endurskoðun á undanförnum árum. Sérstaklega var nefndur þjóðfundur, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð auk stjórnarskrárnefndanna 2005–2007 og 2013–2016. Þá yrði líka horft til þeirrar umræðu sem ætti sér stað samhliða þessu á meðan formannavinna væri í gangi og auðvitað mögulegar umræður í stjórnmálunum á Alþingi á sama tíma. Þá hefur væntanlega líka verið litið til þeirra 43 þúsunda einstaklinga sem síðasta haust skrifuðu undir stuðning við nýju stjórnarskrána.

Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan að þetta væri ekki hennar óskaplagg og ég trúi því ágætlega að hún hafi horft til samtala og annarrar vinnu. En hún leggur það ein fram og það er val hennar hvaðan hún tekur hlutinn og hvaðan ekki. Það er býsna ólíkt hvað kemur t.d. fram í auðlindaákvæði stjórnlagaráðs eða í frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, hv. þingmanns og hæstv. ráðherra. Þau ákvæði sem við ætluðum að klára á þessu kjörtímabili voru um náttúruauðlindir, umhverfi, náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur, framsal valdheimilda forseta lýðveldisins, meðferð framkvæmdarvalds og loks ákvæði um hvernig stjórnarskránni yrði breytt. Aðspurð hvort formenn hefðu neitunarvald í þessari vinnu sagði hæstv. forsætisráðherra að hún áskildi sér rétt til að halda vinnunni áfram, jafnvel þó að einn eða fleiri flokkar segðu sig frá henni, og útilokaði ekki framlagningu frumvarps enda væri breiður stuðningur og samhljómur í nefndinni fyrir slíku. Þetta skiptir talsverðu máli þegar við stöndum hér og fjöllum um frumvarp sem lagt var fram af einum hv. þingmanni þó að hún sé hæstv. forsætisráðherra.

Þó að við í Samfylkingunni hefðum efasemdir um þessa aðferðafræði töldum við auðvitað að við yrðum, vegna þessara þátta, að halda áfram, taka þátt í vinnunni og leggja okkar af mörkum til að ná árangri. En við héldum því líka á lofti alveg frá upphafi að við teldum að fyrst og fremst ætti að leggja tillögur stjórnlagaráðs frá 2012 til grundvallar eins og mikill meiri hluti þjóðarinnar hafði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég get ekki sagt núna, þegar ég sé þetta, þó að margt sé hér ágætt, að þær hafi verið rauði þráðurinn í vinnu við öll þau ákvæði sem við fjöllum um hér. Í dag, u.þ.b. þremur árum og 25 formannafundum síðar, hefjum við því yfirferð á þessu frumvarpi hæstv. forsætisráðherra. Það inniheldur fjögur ákvæði; um auðlindir, um umhverfi, um forseta, eins og gert var ráð fyrir í minnisblaði, auk ákvæðis um íslenska tungu, sem ekki var gert ráð fyrir þar. En ég held að nokkuð breiður stuðningur hljóti að vera um það. Það má svo koma í ljós á næstu vikum hvort hin ákvæðin njóti þess breiða stuðnings sem forsætisráðherra taldi, a.m.k. í upphafi, vera forsenduna fyrir því að þetta yrði lagt fram.

Það er líka ljóst að helmingur þeirra ákvæða sem við ætluðum að koma áfram á þessu kjörtímabili verða ekki kláruð. Þau rötuðu ekki inn í frumvarp hæstv. forsætisráðherra en þau eru hins vegar gríðarlega mikilvæg. Ég ætla að eyða örfáum orðum í þau. Á fyrstu fundunum lögðu a.m.k. formenn bæði Samfylkingar og Pírata mikla áherslu á að breytingarákvæði yrði klárað áður en lengra yrði haldið þannig að þjóðin fengi a.m.k. beinni og augljósari aðkomu og auðveldara væri að breyta stjórnarskrá án þess að rjúfa þing ef ekki tækist að gera annað. Þessu var ekki endilega vel tekið af meiri hluta nefndarinnar þannig að satt að segja var ekkert mikið fjallað um þetta ákvæði á næstu þremur árum.

Eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra rataði ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu heldur ekki í frumvarpið. Hún hefur gefið þá skýringu að ábendingar Feneyjanefndarinnar við drög frá formannahópnum hafi verið dálítið í aðra átt en þær hugmyndir sem virtust njóta mests hljómgrunns í rökræðukönnuninni. Ég skil auðvitað að vandinn er töluverður. En þetta kveikir býsna áhugaverðar spurningar og komin er upp skrýtin staða. Ég held að við þurfum að ræða hvernig samspil vinnu sérfræðinga og almennings þarf að vera og þá hvernig og hvenær í ferlinu heppilegast sé að ráðast í rökræðukönnun eða annað almannasamráð. Það er eitthvað sem ég held að við þurfum öll að vera opin fyrir að ræða. Þá finnst mér mjög slæmt að ekki sé víðtækari vilji hér í þinginu til að móta gott, opið framsalsákvæði. Það eru greinilega mjög skiptar skoðanir á því hversu langt á að ganga þar eða hvort yfir höfuð sé þörf á því. Sífelld kvaðning stjórnskipunarfræðinga á nefndafundi í tengslum við ýmiss konar innleiðingar vegna fjölþjóðlegra skuldbindinga okkar ættu reyndar að taka af allan vafa um að það væri heppilegt.

Þar fyrir utan erum við auðvitað að glíma við alls konar áskoranir frá degi til dags sem ættu að gera okkur öllum ljóst að við munum ekki ná farsælli niðurstöðu um áframhaldandi líf í mannheimum nema við eigum í miklu víðtækara fjölþjóða- og alþjóðastarfi. Við þurfum að vera reiðubúin til að taka þátt í því með öðrum. Við getum nefnt eilífðarmál eins og ófrið og ójöfnuð, en ekkert síður hamfarahlýnun, hvað þá nýja tækni, sem er af allt öðrum toga en við höfum þekkt áður, sem virðir engin landamæri og gerir það að verkum að á næstunni munu hugmyndir og umræður manna um landamæri og jafnvel þjóðríki vafalaust þurfa að vera með allt öðrum hætti en hefur verið. Þessi hugtök eru ekki fasti, þau eru í stöðugri þróun enda kannski ekki sérlega gömul, rúmlega einkabíllinn. Loks hefur kórónuveirufaraldurinn kennt okkur að kostir samvinnu eru nauðsynlegir og ótvíræðir þegar við stöndum frammi fyrir óvæntum hlutum af þeim toga. Þessir hlutir munu gjósa upp, kannski í einhverri allt annarri mynd en við áttum okkur á núna og kannski illviðráðanlegri. Ég held því að hafið sé yfir vafa að við þurfum að hafa ákvæði sem gerir okkur kleift að skuldbinda okkur til víðtækara fjölþjóðasamstarfs. Mér finnst a.m.k. að það ætti að vera lágmark að þjóðin geti sjálf kallað eftir slíkum heimildum ef hún vill það og að henni sé ekki bannað það.

Aðeins að frumvarpinu. Auðvitað verður ekki litið fram hjá því að það er að líða að lokum kjörtímabilsins. Þá, og bara þá, gefst okkur færi á að koma að aðkallandi breytingum í núverandi stjórnarskrá, a.m.k. samkvæmt núverandi breytingarákvæðum þar. Þrjú ákvæði af þeim sem stefnt var að að yrðu kláruð á yfirstandandi kjörtímabili rata í frumvarpið; ákvæði um forseta og framkvæmdarvald, umhverfi og loks auðlindir. Í vinnu formannahópsins komu fram tillögur að nokkrum tæknilegum endurbótum á núverandi stjórnarskrá sem eru þrátt fyrir allt betri en engar. Þær er sumar að finna í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra. Samfylkingin útilokar því ekki að í meðförum nefndar verði unnt að sættast á þær breytingar sem þykja nauðsynlegastar og augljósastar og eru ekki ósamrýmanlegar tillögum stjórnlagaráðs.

Þá ber fyrst að nefna í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra tillögu að grein um náttúru og umhverfi sem tekið hefur mjög jákvæðum breytingum á vettvangi formannanefndarinnar og er orðin mjög efnislega áþekk tillögu stjórnlagaráðs. Hún felur í sér skírskotun til sjálfbærrar þróunar, ákvæði um rétt almennings til upplýsinga um umhverfið og áhrif framkvæmda á það og aðrar mikilvægar endurbætur sem aðstandendur bókunarinnar leggja áherslu á að þoli kannski ekki frekari bið á tímum loftslagsvárinnar. Við í Samfylkingunni erum því reiðubúin til að vinna jákvætt að grein í þessum anda um náttúru og umhverfi þannig að hægt sé að samþykkja hana.

Í öðru lagi eru í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra gerðar breytingar er lúta að forseta og framkvæmdarvaldi. Eins og kom fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra áðan er augljóslega verið að smíða skýrari ramma um hvernig embættið hefur verið rækt, með öðrum orðum um ríkjandi venju. Í tillögunni er ýmislegt til bóta en sumt er þó óljósara. Sem dæmi um það góða eru t.d. tæknileg atriði eins og auknar kröfur um fjölda meðmælenda og tímamörk á setu forseta í embætti, þó að maður geti líka spurt sig hvort það sé nauðsynlegt í embætti sem er ekki svo valdamikið, en síðast en ekki síst svokölluð forgangskosning sem myndi tryggja að forseti hefði ávallt meirihlutastuðning þjóðarinnar. Það finnst mér jákvætt. Það er t.d. í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Síðast en ekki síst er talað um að kjörtímabilið verði lengt úr fjórum árum í sex. Ég leggst ekki gegn því. En frekari vinna við þetta ákvæði mun svo á endanum leiða í ljós hvort Samfylkingin er fylgjandi því eða ekki.

Í þriðja lagi er í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra einnig tillaga um auðlindir í náttúru Íslands. Án efa verður langmest tekist á um þann hluta frumvarpsins. Það er óhemju mikilvægt að í stjórnarskrá sé ákvæði sem tryggir eignarhald og utanumhald þjóðarinnar um allar auðlindir sínar, þekktar og óþekktar, með skýrum hætti. Hins vegar skiptir miklu máli hvernig slíkt frumvarp er, ekki síst í ljósi þess að hugsanlega munu áratugir líða þangað til við gerum aðrar breytingar á þeim ákvæðum sem við ræðum hér. Þessi grein var rædd mjög mikið og oft á fundum formanna, auk þess sem fjölmargir hæfir sérfræðingar voru kallaðir til. Loks var tillaga send inn í samráðsgátt sem einstakir flokkar voru reyndar ekki bundnir af. Á þeim tímapunkti var hins vegar fyrirséð að mikið bæri í milli einstakra stjórnmálaflokka enda fór svo að ekki náðist breið sátt um málið. Mér fannst þó undarlegt við alla þessa vinnu, og það kom mjög skýrt fram við meðferð greinarinnar, að svolítið erfitt var að glöggva sig á þeim breytingum sem urðu á frumvarpsdrögum milli funda. Það var mjög torvelt að sjá með hvaða hætti unnið var með ábendingar sem bárust t.d. í samráðsgátt stjórnvalda. Tillagan kom t.d. breytt inn á borð formanna eftir að hafa legið í samráðsgátt án þess að breytingarnar endurspegluðu á skiljanlegan hátt fyrirferðarmestu sjónarmiðin sem þar komu þó fram og liggja fyrir á netinu. Við kölluðum eftir minnisblaði úr ráðuneytinu sem skýra átti aðferðafræðina, en það færði okkur sáralítið nær svarinu.

Forsætisráðherra hefur verið tíðrætt um nauðsyn almannasamráðs. Ég er sammála henni um það og ég trúi henni þegar hún segir það. En við þurfum þó að muna að ekki er nóg að bjóða upp á samráð og kalla eftir samráði og röddum almennings, það verður að sýna með hvaða hætti orðið er við því. Einn af aðstandendum rökræðukönnunarinnar, Jón Ólafsson, gagnrýndi það m.a. í harðorðri umsögn hversu tilviljanakennt hefði verið tekið úr rökræðukönnuninni þar sem tæplega 300 borgarar hefðu eytt dýrmætum tíma sínum í að bæta hlutinn.

Að ákvæðinu sjálfu, herra forseti. Tillaga hæstv. forsætisráðherra um auðlindir gengur að mati Samfylkingarinnar allt of skammt og myndi í rauninni festa í sessi og helga í stjórnarskrá óásættanlega úthlutun nýtingarheimilda. Tillagan er gjörólík auðlindaákvæðinu í frumvarpi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna frá 2013 sem byggði á tillögum stjórnlagaráðs. Sú tillaga var afgerandi, í samræmi við meiri hluta þjóðarinnar og hefði tryggt bæði skilyrðislausa tímabindingu heimilda og eðlilega gjaldtöku. Hér hefur hæstv. forsætisráðherra því heldur betur breytt um kúrs frá því að hún tók þátt í að leggja það frumvarp fram, eða a.m.k. flokkurinn. Þetta frumvarp tryggir ekki að eigandi auðlindarinnar, landsmenn allir, njóti eðlilegs arðs af eign sinni með réttlátri gjaldtöku. Slíka grein munum við einfaldlega ekki samþykkja.

Ýmsum hefur þótt umræðan um auðlindaákvæði hafa snúist of mikið um fiskveiðiauðlindina. Það hefur bæði komið fram hér í umræðunni og eins á formannafundunum. Vissulega eru auðlindir þjóðarinnar af ýmsum toga og nýtingarkostum fer og mun fara fjölgandi vegna ýmissa þátta. Það geta verið veðurfarsbreytingar en ekkert síður með aukinni þekkingu og hugkvæmni mannsins. Hins vegar er ekkert undarlegt við það þó að umræðan hverfist svolítið um fiskveiðistjórnarkerfið. Sú grein hefur verið hryggjarstykkið í atvinnulífi Íslendinga í áratugi, skilað þjóðarbúinu miklum verðmætum, mjög mörgum atvinnu en fáum gríðarlegum auði. Harðar deilur hafa verið um fyrirkomulag nýtingarinnar í áratugi og út af fyrir sig er það heldur ekki góð staða, hvorki fyrir eigendur auðlindarinnar né þá sem nýta hana. Við getum eflaust flest hér inni verið sammála um að innleiðing kvótakerfisins 1983 hafi verið farsælt skref sem lagði grunninn að umhverfislegri sjálfbærni greinarinnar og síðar hafa aðrar breytingar tryggt rekstrarhæfið. En grunnhugmyndafræði úthlutunarinnar hefur lítið breyst á nær 40 árum. Enn er þriðja stoð sjálfbærninnar, umhverfisþátturinn, hin samfélagslega stoð, allt of veik. Bæði er erfitt að horfa upp á einstök byggðarlög og jafnvel heilu landsvæðin — og oft er líka karpað um hvort nægilegur arður af auðlindinni skili sér til eigenda hennar, fólksins í landinu. Fyrirkomulag úthlutunarinnar hefur jafnvel skapað ágreining um hver réttmætur eigandi fisksins í sjónum sé, því að þrátt fyrir 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna hafa ýmsir haldið því fram í gegnum tíðina að þessar ótímabundnu og sífellt framlengdu heimildir í nokkra áratugi hafi skapað ríkan hefðarrétt. Einhverjir halda því fram að á endanum myndi það eignarrétt. Þó að ég sé ekki sammála því tæki tímabinding allrar auðlindanýtingar af allan vafa þar um. Hér er meira að segja hægt að slá margar flugur í einu höggi.

Það liggur þá ljóst fyrir, eftir að búið er að gera allar nýtingarheimildir í öllum auðlindum tímabundnar, hversu langur sá tími er í einstökum tilfellum. Það skapar væntanlega ákveðinn fyrirsjáanleika fyrir þá sem nýta auðlindirnar og það er nauðsynlegt, bæði fyrir samfélagið en auðvitað líka fyrir fyrirtækin. Allir hafa hag af því að atvinnulífið gangi vel. Þá opnast líka möguleikar á annars konar fyrirsjáanleika sem er nýliðun. Hún er öllum atvinnugreinum lífsnauðsynleg, auk þess sem hún snýst einfaldlega um atvinnufrelsi sem eru grunnréttindi. Mér er reyndar til efs að við værum yfir höfuð að velta fyrir okkur að kveða ekki á um skilyrðislausa tímabindingu ef við værum einungis að ræða nýtingu nýrra auðlinda. Ég vona a.m.k. ekki. Þess vegna mótmæli ég því að áhersla okkar á þetta, eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra, snúist um að við séum bara með augað á fiskveiðiauðlindinni. Ástæðan fyrir því að við erum ekki að leggja til skilyrðislausa tímabindingu heimilda er einmitt að það er einhvern veginn verið að forðast að taka á þessu vandamáli. Hræðslan snýst um að þurfa að aðlaga núverandi kerfi, sem hefur þó margoft verið gert frá 1983 og bara með ágætisárangri. Ég hef engar áhyggjur af því að ekki finnist flötur á lengd tímabindingar í mismunandi auðlindum og mismunandi greinum sem tryggir eðlilegt meðalhóf og stefnir ekki afkomu einstakra auðlindagreina í voða.

Töluvert af tíma nefndarinnar fór í að ræða hvernig orða ætti það sem lýtur að gjaldtöku. Sjónarmið Samfylkingarinnar er einfaldlega að eigandinn, þjóðin sjálf, fái sem hæst verð í hvert sinn án þess að það gangi of mikið á rekstrarhæfi greinarinnar og eigendur fyrirtækja njóti í leiðinni sanngjarns arðs af. Oft er það fólk sem rekið hefur fyrirtæki sín af eljusemi, útsjónarsemi og frumkvöðlakrafti. Enginn ætlar að taka það af þeim. Samfylkingin hefur bent á að augljósasta leiðin til að fá rétt verð væri með einhvers konar útboðum. Þau yrðu útfærð í takti við ýmsa hagsmuni eigandans, þjóðarinnar. Það geta verið byggðasjónarmið, leyfileg stærð fyrirtækja o.s.frv. Þannig myndu fyrirtækin sjálf finna út hvað þau gætu borgað án þess að það gengi of nálægt rekstrarhæfi þeirra. Þetta tíðkast auðvitað almennt í atvinnurekstri þar sem fyrirtæki á markaði bítast um aðgang að takmarkaðri auðlind og mikilvægt er að muna að þetta er takmörkuð auðlind. Dæmi um slíkt eru t.d. útboðsverk í mannvirkjagerð sem eru ekkert frábrugðin þessu í sjálfu sér. Raunar má alveg segja að þetta tíðkist líka í sjávarútvegi. Það heita að vísu viðskipti milli fyrirtækja, milliviðskipti, þar sem eitt fyrirtæki borgar hinu eitthvað sem er þá nálægt markaðsgjaldi og er a.m.k. miklu hærra en það sem íslenska ríkið fær. Ef einhver hefur betri lausn sem skilar þjóðinni sem mestum arði um leið og það tryggir rekstrarhæfi fyrirtækjanna er ég opinn fyrir henni, en hún þarf svo sannarlega að vera meira sannfærandi en að Alþingi hvers tíma telji sig þess umkomið að þykjast geta svarað því hvað sé hæfilegt verð á hvaða tíma og hvað ekki.

Að lokum, af því að ég er nú að verða búinn með tímann, finnst mér líka áhugavert að í lokin hafi dúkkað upp ný útgáfa af ákvæðinu sem hæstv. forsætisráðherra gerði aðeins að umtalsefni. Þar er hnykkt á því hvenær taka skuli gjald af auðlindum, þ.e. þegar það er í ábataskyni. Þá getum við gleymt öllum vangaveltum sem verið hafa í nefndinni um hitaveitur eða samfélagsleg verkefni. Þá er það tekið út fyrir sviga. En þegar það er orðið ljóst er líka mjög rík ástæða til að ætlast til þess af eigandanum að hann fái hæsta mögulega verð sem hægt er að fá á hverjum tíma án þess að ganga af þeim dauðum sem kaupir heimildirnar.

Í þessu máli er þjóðarviljinn afgerandi og hann er sýnilegur. Ég á örugglega eftir að koma í fleiri ræður, en við í Samfylkingunni viljum ítreka að við viljum vinna málefnalega að þessum frumvörpum. Við munum halda sjónarmiðum okkar skýrt á lofti en við leggjum samt til að málinu verði fundinn annar og lýðræðislegri farvegur sem er meira í takt við það sem hafist var handa við árið 2010.