151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að ræða aðeins um sögu þessa máls þó að ég ætli að verja bróðurhluta ræðu minnar í að fara yfir efnisákvæði frumvarpsins sem hér liggur fyrir. Ég vil hefja mál mitt á að segja að forsætisráðherra stóð frammi fyrir mjög krefjandi verkefni, að leiða þessa vinnu, og valdi til þess þá leið að hafa alla flokka með í ráðum og sitt sýndist hverjum. En ég held að forsætisráðherra hafi gert eins vel og aðstæður buðu upp á og hafi haft forystu um mikilvægt mál sem mikill tími hefur farið í á þinginu á undanförnum árum til þess að láta á það reyna hvort einhver lágmarkssamstaða gæti verið um tilteknar breytingar á stjórnarskránni.

Ég vil láta það koma fram strax í upphafi að ég lýsti því snemma í þessu ferli að ég væri þeirrar skoðunar að ekki væri þörf á grundvallarbreytingum á stjórnarskránni. Ég hef sömuleiðis lýst því áður að ég telji það rangtúlkun að þingið sé með einhverjum hætti bundið af þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem átti sér stað á sínum tíma og það sé alrangt að þar hafi verið kosið um sjálft frumvarpið sem samið var á sínum tíma, það sé einfaldlega ekki rétt. Vísast þar til orðalagsins sem var lagt til grundvallar í þjóðaratkvæðagreiðslunni sjálfri og nærtækt er að vísa til bæklings sem var dreift í hvert hús í aðdraganda kosningarinnar um hvaða þýðingu kosningin hefði um það. Ég ætla ekki að eyða frekari tíma í þetta. Aðalatriðið er að við, Sjálfstæðisflokkurinn á Alþingi, greiddum atkvæði gegn þessari aðferðafræði.

Þá kem ég að ákveðnum kjarnapunkti sem ég vil byrja á, sem er þessi: Það eru ekki mistök að hafa það ákvæði í stjórnarskránni sem svo oft er rætt um í tengslum við þessa umræðu og er geymt í 79. gr. hennar eins og það er. Það eru ekki mistök að hafa þetta ákvæði þannig að það sé torvelt að breyta stjórnarskránni. Það er beinlínis af ástæðu sem ákvæðið er smíðað eins og það er smíðað og Alþingi á ekki að gera sér far um að fara í kringum sjálft stjórnarskrárákvæðið um það hvernig eigi að breyta stjórnarskránni. Það er þvert á stjórnlögin sjálf. Það fer gegn vilja þeirra sem sömdu stjórnarskrána í upphafi. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þeir sáu það einmitt fyrir að erfitt yrði að breyta stjórnarskránni í frumvarpi og til þess var greinin smíðuð eins og hún er. Þetta er alveg gríðarlega mikilvægt grundvallaratriði. Víða um lönd eru stjórnlög og stjórnskipan með þeim hætti að ekki er hlaupið að því að breyta lögum og reglum. Í Bandaríkjunum þarf t.d. að komast í gegnum tvær deildir. Við höfum séð það á undanförnum árum að það hefur reynst erfitt. Sumir spyrja sig hvort það sé ekki galli á stjórnfyrirkomulaginu þar í landi en það er einmitt öfugt. Þannig vildu menn hafa þetta, að það yrði að leita málamiðlana, að enginn einn gæti ráðið yfir minni hlutanum eins og hann er á hverjum tíma og breytt grundvallarlögum eða öðrum mikilvægum réttarreglum í viðkomandi landi, ef ég nefni Bandaríkin sem dæmi. Víða í Evrópu er að finna ýmist í lögum eða stjórnarskrám reglur sem ætlað er að tempra vald.

Í okkar eigin stjórnarskrá er grundvallarreglan sem smíðuð er í þessum tilgangi sú að þrískipta ríkisvaldinu í dómsvald og framkvæmdarvald og löggjafarvaldið. Ég held að segja megi sem svo að hér hvíli þungamiðjan í þrískiptingunni. En þó er það þannig að oft er rætt um það á þingi, og ég ætla að koma aðeins inn á það á eftir, að mörgum þykir sem framkvæmdarvaldið ráði fullmiklu í þessu valdatogi ólíkra arma ríkisvaldsins. Það eru þessi kjarnaákvæði um skiptingu valdsins í landinu og jafnvægi á milli þessara ólíku arma sem eru kjarninn í stjórnarskrá. Þar tökum við í raun og veru afstöðu til þess hvernig samfélagi við viljum búa í, hvernig við ætlum að haga lýðræðisskipulagi okkar. Hversu frjáls við erum gagnvart valdhöfunum ræðst að verulegu leyti af því að við höfum t.d. sjálfstæða dómstóla. Í stjórnarskrá okkar er nú um mundir að finna ákvæði um það hvernig við högum kjördæmaskipaninni, þó að það kallist síðan á við kosningalögin. Ég nefni þetta í upphafi ekki bara til að vekja athygli á því að 79. gr. er eins og hún er og okkur ber að virða hana, heldur líka til þess að minna aðeins á að margt af því sem við ræðum hér snertir mjög lítið við þessum grundvallarþáttum í stjórnskipun okkar. Þótt margir láti svo í þessari umræðu eins og við séum að tala um algjör grundvallaratriði í stjórnarskrármálum þá erum við ekki að gera það. Við erum ekki að gera það. Við erum að stórum hluta til að tala um dægurmál stjórnmálanna sem er verið að þvæla hér inn í stjórnarskrárumræðu, stundum með að því er mér finnst allt of miklum látum.

Þetta skiptir máli vegna þess að við hefjum hér umræðu um frumvarp sem er, þrátt fyrir alla vinnuna, eingöngu flutt af forsætisráðherra en ekki formönnunum sem sátu saman við að greiða úr málum og láta reyna á sameiginlegan vilja til tiltekinna breytinga. Ég styð forsætisráðherrann í því. Ég tel að hún sé að gera rétt í því og ég ætla bara að segja: Ég dáist dálítið að forsætisráðherra fyrir hennar einbeitta vilja til þess að láta þingið standa frammi fyrir þessum álitamálum en hafa þau ekki lokuð inni í fundarherbergi út allt kjörtímabilið. Það skiptir máli. Ég styð það mjög eindregið þess vegna að við séum að taka þessa umræðu. Það er á sama tíma dálítið sorglegt að þurfa að vera að ræða um formsatriði þegar umræðan á auðvitað að snúa að stóru efnisatriðunum.

Það er freistandi, en ég hef kannski ekki nógu mikinn tíma til þess í hálftímaræðu, að fjalla um eitt og annað í stjórnarskránni okkar sem ég tel að mætti alveg velta upp og hefði betur verið stærri hluti umræðu um stjórnarskrána á undanförnum árum. Án þess að fara út í nein smáatriði ætla ég að leyfa mér að nefna t.d. valdskiptinguna á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, valdajafnvægið þar á milli. Það er grundvallaratriði og það er spennandi að ræða það mál. Ef eitthvað er þá held ég að ég geti sagt sem þingmaður til allnokkurra ára, bæði verið hér í stjórnarmeirihluta og í stjórnarandstöðu og átt sæti í ríkisstjórn, að það sé nokkuð óumdeilanlegt að framkvæmdarvaldið fer með töluvert mikið vald á Íslandi. Sumt af því sem lagt er til hér myndi ég telja að auki vald framkvæmdarvaldsins, t.d. það ef við opnum á þann möguleika að þingmál lifi, ekki bara innan kjörtímabils heldur jafnvel milli kjörtímabila og skoðum þá tillögu í ljósi þess að það er hjá framkvæmdarvaldinu þar sem frumvörpin eru smíðuð að uppistöðu til. Þá held ég að megi segja að það væri til þess að styrkja framkvæmdarvaldið enn frekar gagnvart þinginu. En það er margt fleira sem hefur þar að sjálfsögðu áhrif. Við höfum verið að gera breytingar á jafnvægi milli meiri hluta og minni hluta á þinginu án þess að það hafi endanlega verið klappað í stein þannig að það standi til langrar framtíðar. Við höfum verið, ég ætla að leyfa mér að segja, að prófa eitt og annað í þeim efnum. Ég nefni þetta sem eitt.

Annað sem ég gæti nefnt, sem við erum ekki að ræða í þessu frumvarpi, er kjördæmaskipanin. Það er atriði sem ég finn fyrir að kjósendur koma oft að máli við mann um og mér finnst orðið tímabært að velta því fyrir sér hvort kjördæmaskipanin sem við komum á með breytingunni síðast hafi reynst vel. Hvernig dugar hún til þess að ná þeim markmiðum sem við stefnum að, að halda sambandi við kjósendur? Hvernig líkar fólki í landsbyggðarkjördæmunum að búa í þetta stórum kjördæmum? Ég myndi segja að það mætti skera þau í tvennt, hvert fyrir sig, til að ná betri tengingu. Hvaða vit er í því að hafa Reykjavík norður og Reykjavík suður? Ég segi: Mest lítið vit í því. Mætti mín vegna vera eitt kjördæmi og ef maður les stjórnarskrána um þetta atriði þá er þetta eiginlega praktísk lausn, við skerum bara kjördæmið í tvennt til að uppfylla aðrar kröfur eða önnur markmið sem við erum að vinna að. Svona gæti ég áfram haldið um atriði sem við fjöllum um í stjórnarskrá og varða raunverulegt lýðræði og framkvæmd þess í landinu, en við erum ekki að ræða það hér.

Við erum hins vegar að ræða margt mjög mikilvægt. Ég ætla að leyfa mér að segja aftur um 79. gr. að nú erum við í þessari stöðu, við erum með þetta frumvarp, margar tillögur, ekki mikill samhljómur heyri ég, hér í 1. umr. Hæstv. forsætisráðherra segir: Þetta er ekki mitt draumafrumvarp, þetta er ekki það sem ég hefði lagt til ef ég hefði setið ein við lyklaborðið. Ég get sagt alveg það sama. Ég gæti engu að síður séð fyrir mér að styðja einstök ákvæði eða vinna með þau a.m.k. í þinginu. Ég hef engan heyrt segja sem hefur tekið hér til máls: Þetta er mitt draumafrumvarp.

Þetta er staðan sem við erum í. Við erum á sama tíma í þeirri stöðu að jafnvel þótt hér myndist meiri hluti fyrir breytingunni þá vitum við á sama tíma á grundvelli reglunnar í 79. gr. að það dugar ekki til. Ef maður ætlar að berjast fyrir því og taka mikinn tíma og leggja sig allan fram á þinginu þarf maður innst inni að hafa einhverja sannfæringu fyrir því að það muni duga til þess að á næsta þingi verði það aftur klárað til að stjórnarskrárbreytingin eigi sér stað. Hvað er líklegast til að stuðla að því? Jú, það er að vinna málin eins og hæstv. forsætisráðherra hefur reynt að gera allt þetta kjörtímabil, að eiga þetta samtal. En það reynist okkur gríðarlega erfitt. Ég segi að það sé aðallega vegna þess að menn vilja einfaldlega ekki virða þessa grein stjórnarskrárinnar og hafa leitað leiða og leitað langt til að fara í kringum þá grein. Stjórnlagaráð og allt það bix sem menn hafa búið til í kringum ákvæðið, henda síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu og segja: Þetta bindur okkur, þegar allir vita að það er ekki bindandi. Þetta er allt of langt gengið. Það er kominn tími til að þingið horfist í augu við verkefnið og taki það af alvöru til sín. Ræði það af einhverri alvöru, reyni ekki að vísa þessu stanslaust frá sér og virði það sem samþykkt var af miklum meiri hluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, að hafa þetta nákvæmlega svona á sínum tíma. Það þarf að virða það. Það væri góð byrjun, myndi ég segja.

Ég ætla að fara aðeins yfir nokkur ákvæði frumvarpsins sem eru innbyrðis auðvitað mjög ólík, en mig langar að gera tilraun til að koma við þau sem flest. Ég ætla að byrja á 2. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um kosningar til forseta Íslands. Ég ætla aðeins að nefna að þegar lögð er til forgangsröðunaraðferð við að kjósa forseta Íslands þá er í sjálfu sér ekki vísað í annað en að rökræðukönnun hafi kallað fram áhuga á forgangsröðunaraðferð. Gott og vel. Ég held að það sé ekki gríðarlegt ákall um þetta. Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á því að í greinargerð með frumvarpinu segir, og vísað þar í fyrri umræðu, að þjóðinni hafi þrátt fyrir þá galla sem megi finna á núverandi fyrirkomulagi ávallt tekist að „fylkja sér þannig um forsetaefni að atkvæði dreifist eigi úr hófi fram“, eins og segir orðrétt og þar er vísað í niðurstöður nefndar um þetta. Ég held að þetta sé dálítið kjarni málsins um þetta atriði. Þetta er tillaga. Hún er áhugaverð. Mér finnst þess virði að ræða hana hér en við erum ekki að leysa einhvern aðkallandi vanda sem hefur birst okkur í framkvæmd sem einhvers konar galli á stjórnskipaninni. Það er mitt innlegg um þetta atriði á þessum tímapunkti.

Ég held sömuleiðis að við séum komin út í töluverð smáatriði í 2. mgr. 2. gr. þegar við erum farin að velta fyrir okkur að það megi ákveða lágmarksfjölda í hverju kjördæmi o.s.frv. Það bindur okkur dálítið ef við förum síðan í framtíðinni að gera breytingar á kjördæmaskipaninni. Þá þurfum við að fara aftur að breyta þessu ákvæði og ég veit ekki alveg hvað er unnið með því. Ég held það væri nær að halda sig bara við tiltekinn fjölda meðmælenda sem grunnregluna og vera ekkert að skrifa það meira út. Af þessum toga eru margar að mínum athugasemdum við frumvarpið, þ.e. verið er að teygja sig töluvert langt til að bregðast við einstaka málum sem hafa komið upp og varða kannski ekki mjög stór atriði en þarf aðeins að hugsa.

Sex ára kjörtímabil hugnast mér alveg ágætlega og er í sjálfu sér engin grundvallarbreyting. En eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á kallast valdatíminn og takmörkun á honum almennt dálítið á við völd embættisins. Þegar við erum með tiltölulega valdalítið embætti eru rökin fyrir því að tempra valdið með því að setja hámarksvaldatíma auðvitað veigaminni. Maður hefði haldið að það ætti við hér þar sem forsetinn er ekki mjög áberandi stór persóna með mikið framkvæmdarvald þótt hann sé sá sem er kosinn með beinum hætti. Það eru þá lýðræðisrökin sem ættu kannski aðeins að vega á móti. Þetta ætla ég að nefna bara til að koma inn á þennan þátt. Ég hef ekki mjög heitar tilfinningar gagnvart því hvort við förum út í að setja þak á þetta en ég minni á að þjóðin hefur dálítið kosið með hinni aðferðinni, þ.e. kosið sér ítrekað forseta til lengri tíma en þarna á við. Spurningin er: Hvað segir sagan okkur um þetta? Ég veit ekki hvort við erum að leysa raunhæft vandamál en mér finnst fínt að fá þetta fram og held að ekkert myndi fara úr skorðum á Íslandi ef við tækjum þessa reglu upp en hún snertir ekki þau kjarnaatriði sem ég var að nefna í upphafi. Mér finnst það ekki.

Ég ætla aðeins að minnast á það að forseti Íslands hefur dálítið kallað eftir því að valdmörk hans yrðu betur skýrð. Þetta hefur komið fram í máli hans, að ég hygg oftar en einu sinni, án þess að farið hafi verið mjög djúpt ofan í það. Ég hef ávallt skilið það þannig að fyrir forsetaembættið sé mikilvægt að það sé skýrt á milli hans og þeirra sem veita honum umboð, þeirra sem kjósa hann beint, hvar hans valdmörk liggja, til hvers hann skrifar undir og hvaða ábyrgð fylgir því. Hér segir í stjórnarskrárfrumvarpinu, eins og gildir í stjórnarskránni, að hann sé ábyrgðarlaus. Ég tel að það sé góð hugsun á bak við þann þátt málsins sem skýri þetta betur og marki við embættisfærslur. Ég veit ekki hvort það sé alveg skýrt samkvæmt frumvarpinu að gagnálykta megi frá þessu á þann veg að önnur regla gildi í dag, en það er fínt að skýra þetta nákvæmlega og að því leytinu til finnst mér greinin ágæt. En ég vek athygli á því að við erum ekki að breyta miklu sem snertir valdmörk forsetans, sem forsetinn hefur stundum minnst á þegar hann talar um samband sitt og kjósenda. Það er ágætt að vera bara með það uppi á borðum að við erum ekkert að hreyfa við því.

Ég ætla næst að staldra aðeins við 7. gr. Þar er fjallað um að ríkissaksóknari geti ákært ráðherra fyrir embættisrekstur og síðan verði fjallað í lögum um ráðherraábyrgð svo og rannsókn og dómsmeðferð mála vegna ætlaðra embættisbrota ráðherra. Það vekur athygli að í rökræðukönnun sem vísað er til í greinargerð, þar er kynning á málinu, lýsa 70–79% þátttakenda áhyggjum af því að ákæruvaldi gagnvart ráðherrum verði hugsanlega misbeitt, 70–79% telja það. Það er auðvitað rosaleg staðreynd. Það er mikil sending til þingsins að þetta sé niðurstaðan. Menn trúa því raunverulega að það séu yfirgnæfandi líkur á því samkvæmt þessu að ákæruvaldi gagnvart ráðherrum verði ekki bara beitt, nei, heldur misbeitt. Það er svakaleg niðurstaða og kemur kannski ekki á óvart að öllu leyti. En ég fagna því að þetta sé á dagskrá. Það sem kannski vantar hérna er að botna vísuna. Það verður kannski ekki gert í stjórnarskrárákvæðinu sjálfu en allt það sem á eftir að ákveða í lögum með því að taka afstöðu til þess hvort landsdómur lifi, með hvaða hætti verði staðið að rannsókn kæru, hvort ríkissaksóknari geti tekið mál upp að eigin frumkvæði eða eingöngu eftir kæru frá Alþingi — öll þessi litlu atriði er erfitt að skilja út undan ef maður ætlar að stíga þetta skref til breytinga eitt og sér. Það er mjög erfitt að segja bara: Við tökum ákæruvaldið af Alþingi, en svara ekki öllum spurningum um hvernig farið verður að ef Alþingi telur ráðherra hafa brotið af sér. Þar byrjum við á því að spyrja spurningarinnar: Kemur það Alþingi við? Er það hugmyndin, að taka það alfarið frá Alþingi? Eða hefur Alþingi einhverju hlutverki að gegna? Um það hvort t.d. landsdómur eigi að lifa segir í greinargerðinni að Alþingi þurfi að ákveða það. Það er eðlilegt og ég hefði eiginlega talið að við þyrftum að hafa það frumvarp í hægri hendinni meðan við erum með stjórnarskrárbreytinguna í vinstri. Þetta vildi ég segja um það. Í rökræðukönnuninni kemur fram að fyrir umræðu hafi 60% þátttakenda verið á móti því að leggja niður landsdóm en eftir að hafa kynnt sér málið einungis 32% á móti því að leggja niður landsdóm. Þetta er greinilega mál sem fólk tengir við í dag.

Ekki er tími til að fara ofan í alla þætti. Ég hefði viljað hafa lengri tíma til að ræða t.d. 14. gr., að skrifa það út varðandi þingrofsréttinn eins og gert er þar. Það er stórmál. Ég fór í gegnum lagadeildina og las það í stjórnskipunarrétti að forsætisráðherra færi með þingrofsréttinn. Svo lærðum við það hérna í framkvæmd fyrir nokkrum árum að það er kannski ekki alveg þannig. Þá fáum við tilefni til þess mögulega að skrifa það inn í stjórnarskrána en hvort þarf að skrifa það inn með þessum hætti og taka það fram berum orðum að þetta sé það sem forseti þurfi að gera áður en hann fellst á þetta — ég veit það ekki. Mér finnst menn vera komnir út í töluvert mikil smáatriði í framkvæmdinni.

Eins er með 16. gr. Ég ætla að leyfa mér að segja að fjölmiðlafrumvarpið er greinilega fólki ofarlega í huga. Fjölmiðlafrumvarpið er samþykkt á Alþingi. Forseti synjar. Alþingi kemur saman og fellir lögin úr gildi. Þá klóra menn sér í hausnum og segja: Er þetta eðlilegt? Er komin einhver niðurstaða um að þingið hafi bara fimm daga? Ég held að þessi regla sé í raun og veru óframkvæmanleg vegna þess að í pólitískum átökum eins og þeim sem þá áttu við er alveg ljóst hvað hefði gerst ef þing hefði verið kallað saman og menn ætlað að klára frumvarp á fimm dögum. Það frumvarp hefði aldrei verið klárað á fimm dögum. Það er bara þannig. Ég veit ekki alveg með þetta. En þetta er ekki spurning um framkvæmd lýðræðis og mannréttinda í landinu eða neitt slíkt. Og talandi um mannréttindi, það eru nú stjórnarskrárnar sem hafa þykkustu og lengstu greinarnar um mannréttindi sem oft verja ríkisborgara sína minnst vegna þess að þar vanta alla viðleitni til að dreifa valdinu eins og ég hef verið að koma inn á, sem er kjarnaatriðið í okkar stjórnarskrá.

Þá er það 21. gr. Ég var aðeins búinn að minnast á það að mál falli niður í lok kjörtímabils. Ég þekki þetta svo vel. Ég hef svo oft setið hér við þinglokasamninga og það er grátlegt að sjá sama málið samið út af borðinu aftur og aftur. Það er auðvelt að vera pirraður á þessu sem ráðherra eða sá sem á mál sem eru strikuð út, en maður verður að horfa á þetta í valdajafnvægissamhengi. Þarna erum við að tala um hversu langt við eigum að ganga í því að gera framkvæmdarvaldinu kleift að ná vilja sínum fram í krafti meiri hluta og hversu miklu varðar okkur að verja minni hlutann.

Ég hef ekki tíma til að fara yfir öll atriði. Ég ætla að snúa mér beint að einu stóru máli sem eru síðustu ákvæðin og fara í auðlindaákvæðið sem á sér, eins og forsætisráðherra kom að, langa, langa sögu. Ég ætla að byrja á því að lýsa þeirri skoðun minni að mér persónulega finnst að hérna gæti einhvers misskilnings um greinina. Þá er ég sérstaklega að vísa til þess þegar fólk kallar eftir því, og ég hef heyrt fleiri en einn frummælanda kalla eftir því, að greinin þurfi og hún verði að kveða á um tímabundna úthlutun heimilda. Það verði bara að gerast ella stöndum við frammi fyrir hættunni á því, ef ég skil þetta rétt, að heimildirnar verði með einhverjum hætti varanlegar. En við erum með úrlausnir dómstóla um þetta atriði. Við erum með dóm í svokölluðu Vatneyrarmáli þar sem Hæstiréttur hefur fjallað um þetta atriði sérstaklega. Og hvað segir Hæstiréttur? Með leyfi forseta, ætla ég að grípa niður í rökstuðning Hæstaréttar. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það allt saman en þetta er meiri hluti Hæstaréttar. Þar segir:

„Aflaheimildir eru þannig aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verða hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum. Í skjóli valdheimilda sinna getur Alþingi því kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum, eða innheimt fyrir hann frekara fégjald en nú er gert vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.“

Sem sagt: Hæstiréttur tekur þetta álitamál til umfjöllunar og kemst að niðurstöðu og segir: Það er alveg skýrt að jafnvel þótt lög um stjórn fiskveiða kveði á um ótímabundna úthlutun þá getur löggjafinn að sjálfsögðu alltaf gripið inn í. Þessa túlkun, þessa niðurstöðu erum við að styrkja með frumvarpinu með ákvæðinu sem hæstv. forsætisráðherra leggur fram. Í mínum huga höfum við fyrir framan okkur ágætisákvæði um auðlindir sem breytir því ekki að þingið verður að taka ákvörðun um það hvert fyrirkomulagið er hverju sinni. Eina athugasemdin sem ég verð að gera er sú risastóra málamiðlun sem felst í raun og veru í því að taka það til greina að styðja svona ákvæði er að hugtakið þjóðareign, sem er þá nýtt í stjórnarskrá, þarf að skilgreina upp á nýtt. Feneyjanefndin hefur brugðist við og sagt: Hvert eruð þið að fara með þessu nýja hugtaki? Hvað stendur til með því að búa til eitthvert nýtt eignarréttarlegt fyrirbæri — sem hvað? Hver er tilgangurinn? Í sögulegu samhengi hafa þær stjórnarskrár þar sem lýst er þjóðareign eða eignir eru lýstar eign þjóðarinnar, almennt verið t.d. í Sovétríkjunum og öðrum slíkum ríkjum sem hafa á endanum molnað niður og slík ákvæði hafa nákvæmlega enga þýðingu haft. Þetta er að þessu leytinu til töluvert sósíalísk hugmyndafræði með einhverju nýju íslensku afbrigði í greinargerð. Í greinargerðinni er eiginlega sagt að þetta hafi ekki aðra þýðingu en bara sem almenn stefnuyfirlýsing og undirstriki heimildir löggjafans til þess að fara með fullt forræði yfir nýtingunni. Ég verð einfaldlega að láta þetta fljóta með sem almenna athugasemd um þetta. Að öðru leyti finnst mér krafan um að skilyrðislaust verði að byggja á tímabundnum heimildum ekki hafa verið rökstudd nægilega vel, sérstaklega í ljósi þess dóms sem ég vísaði til. Hæstiréttur hefur tekið þetta áður til umfjöllunar.

Virðulegi forseti. Hér er sjálf stjórnarskráin undir og þegar maður tekur til máls finnst manni tíminn fljótur að líða. Ég ætla að ítreka það sem ég tók fram í upphafi máls míns að forsætisráðherra hefur gert vel í því að láta þingið standa frammi fyrir þessum stóru álitamálum og ég tel að við eigum að reyna að rísa undir því með því að taka þessa vinnu alvarlega og láta reyna á það hvað við getum sammælst um þannig að einhverjar líkur séu á því að eftir kosningar fáist endurstaðfesting. Annars er þetta unnið til lítils.