151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:40]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sem stjórnarflokkarnir láta stundum eins og sé ófrávíkjanlegur sáttmáli, eins og t.d. þegar hæstv. ráðherra vill selja banka, segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar …“

Svo segir að ríkisstjórnin leggi áherslu á að samstaða náist um feril vinnunnar.

Mig langar af þessu tilefni að vísa í bókun hæstv. fjármálaráðherra frá því í október 2018 eða þegar vinna við þetta frumvarp var nýhafin. Þar segir hæstv. ráðherra að hann telji ekki þörf á heildarendurskoðun. Þó að hann beri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum formanna um efnið telji hann hópinn vera kominn í kaf í umræðu um efni sem standi fyrir utan það sem hann telji þörf á að ræða. Í minnisblaði forsætisráðherra í upphafi er nefnd heildarendurskoðun á stjórnarskránni og þess vegna langar mig aðeins að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi verið í þessari vinnu formanna af heilum hug, hvort hann hafi kannski aldrei ætlað sér (Forseti hringir.) að lenda þessu verki.