151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[20:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Í sjálfu sér gæti ég haldið stutta ræðu og lýst því yfir að mér lítist nokkuð vel á þær tillögur sem hér liggja fyrir en ég ætla að fara yfir í nokkru máli af hverju svo er. Það segir sig auðvitað sjálft að hluti af þessum tillögum, þ.e. ný grein er varðar náttúruverndina, sem er 22. gr. verður ný 71. gr., um að ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvíli sameiginlega á öllum, er nokkuð keimlík grein í því frumvarpi sem ég lagði fram sem forsætisráðherra árið 2016. Auðlindaákvæðið, sem er líka nýtt og ég tel mjög mikilvægt að komi hérna inn, er ekki heldur mjög frábrugðið því frumvarpi. Hins vegar vil ég lýsa því yfir að eftir þá vinnu sem við höfum farið í gegnum á þessu kjörtímabili er það orðið miklu skýrara. Textinn er orðinn miklu betri og stjórnarskrárlíkari. Menn verða hér í umræðunni að gera greinarmun á því að verið sé að ræða hefðbundin lagafrumvörp eða stjórnarskrá og þann texta sem þar liggur að baki. Ég verð líka að segja að almennt er bara bannað að umgangast stjórnarskrána af einhverri léttúð. Að umgangast breytingar á stjórnarskrá af léttúð er líka eitthvað sem ég kann ekki við og ég mun koma aðeins inn á að fleiri eru sammála mér um það.

Þennan hluta frumvarpsins lagði ég líka fram á sínum tíma þegar ég sem forsætisráðherra lagði fram breytingar á stjórnarskrá. Vegna umræðunnar sem hér hefur átt sér stað, ekki kannski mikið í dag en í kringum þetta, bæði í fjölmiðlum og hjá einstökum þingmönnum, var tilgangur minn með því að leggja frumvarpið fram eftir mikla vinnu auðvitað sá að vonast til að þingið gæti tekist á við það verkefni og klárað þær breytingar. Að sjálfsögðu gildir nákvæmlega það sama um frumvarp hæstv. forsætisráðherra, þetta þingmannafrumvarp sem hún leggur fram. Auðvitað er hæstv. ráðherra ekki að leggja það fram bara til að sýna vinnuna. Tilgangurinn er sá að rjúfa þá kyrrstöðu sem verið hefur um breytingar á stjórnarskrá. Ég hef í mjög langan tíma verið talsmaður þess að gera það með þessum hætti, að fara yfir tiltekna kafla, gefa okkur tíma í það og klára það. Ég hef m.a. horft til fyrirmyndar frá Noregi þar sem menn tóku, að ég held, þrjú kjörtímabil í að fara skipulega í gegnum stjórnarskrána og breyta og laga, eða breyta ekki, og tóku til þess nægilegan tíma og unnu það saman. Ég hef verið talsmaður slíkra breytinga.

Ég er á móti byltingum. Það kemur ekki á óvart, ég er formaður Framsóknarflokksins. Við viljum hægfara breytingar. Stundum þurfa þær að vera róttækar til að ná umbótunum fram en við erum á móti byltingum. Við erum á móti tilraunastarfsemi þegar kemur að stjórnarskrá. Þess vegna var svo margt í upphaflegum tillögum stjórnlagaráðs á sínum tíma sem mér féll illa. Á einum stað sagði að fyrirmyndin að því fullkomna stjórnkerfi sem við vildum hafa væri Norðurlöndin. Svo ætluðu menn að smíða bara eitthvað allt annað, eitthvert séríslenskt fyrirbrigði sem mönnum datt í hug, gera tilraun til þess. Ég var á móti því. Sem betur fer var ýmislegt af því lagfært í gegnum vinnu þingsins á sínum tíma en það var byggt á grunni tilraunastarfsemi sem hafði ekki neitt sem ég held að sé nauðsynlegt varðandi stjórnarskrána. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að verklagið sem hæstv. forsætisráðherra hefur viðhaft á þessu kjörtímabili, að skilgreina ákveðna hluti sem við ætlum að fara í gegnum, jafnvel þó að við höfum ekki náð því öllu — í mínum huga gerir ekkert til þótt það náist ekki á tveimur kjörtímabilum. Það má alveg taka þrjú kjörtímabil, bara ef við náum að axla þá ábyrgð að fjalla um það málefnalega hér í þingsal. Ég vil halda því fram að umræðan sé að stóru leyti málefnaleg miðað við það sem ég hef heyrt í dag, þegar niðurstaðan er komin og koma málinu síðan til nefnda þingsins með það markmið að við ljúkum þessu, með það markmið að við göngum til kosninga og tökum síðan þær tillögur sem þingið samþykkir að lokum og gerum að breytingum á stjórnarskrá. Ég held að það sé ákall úti í samfélaginu um að við gerum það og sú vegferð sem við erum á er eitthvað sem ég felli mig bara ágætlega við, eftir 25 fundi sem ég held að ég hafi setið allflesta þar sem við höfum einfaldlega farið nokkuð vel yfir þetta með aðstoð sérfræðinga sem komu úr forsætisráðuneytinu og sérfræðinga á þessu sviði úr háskólasamfélaginu. Þeir hafa sannarlega hjálpað okkur að fá betri innsýn í ákveðna hluti, lagt til breytingar, farið yfir heilu kaflana og við höfum tekið ítarlegar umræður um þetta. Ég verð að segja alveg eins og er að ég felli mig mjög vel við þá leið sem við fórum í þessu.

Mér líst vel á að við séum komin á þann stað sem við erum komin á. Ég gæti í sjálfu sér sagt að ég geti algjörlega sætt mig við að breytingar á 22 greinum verði niðurstaðan, eins og breytingar á II. kafla stjórnarskrárinnar um forseta og framkvæmdarvald. Við höfum fengið sérfræðinga á því sviði til að skoða hann sérstaklega og leggja til ákveðnar breytingar, fengið aðra til þess að yfirlesa það, tekið umræðuna sjálf í okkar hópi og síðan verið sannfærð um að það sem við séum að reyna að ná geri ekki stórkostlegar breytingar heldur fyrst og fremst að nútímavæða hlutina. Til að mynda kom einn sérfræðingur, fyrrum forseti, á fund okkar og varaði við því, sem mér fannst áhugavert, að jafnvel þótt við breyttum litlu, jafnvel einstaka orðum, gætum við breytt gangvirki stjórnarskrárinnar. Ég held að við höfum svolítið verið að passa okkur að gera það ekki. Við höfum reynt eins og mögulegt er að vanda okkur við það verk. Og mér finnst þetta vera bara ágætt.

Ég hef nefnt umhverfisverndarákvæðið. Það er mjög líkt því ákvæði sem ég lagði fram sem forsætisráðherra haustið 2016. Þó svo að ég gæti vissulega fjallað um hvort það sé algerlega nauðsynlegt eða hvort ég myndi vilja orða það nákvæmlega svona ef ég réði einn, þá get ég algerlega fellt mig við það sem hluta af stærri heild, sérstaklega þar sem það rímar að mínu viti ágætlega við nýtt auðlindaákvæði sem ég legg alveg gríðarlega áherslu á að við náum saman um að klára. Það er ákaflega mikilvægt. Ég hef heyrt umræðuna um það hér í dag, annars vegar af hálfu formanns Samfylkingarinnar og hins vegar formanns Viðreisnar, þar sem fjallað er um markaðsgjald og uppboðsleiðir, sem eru reyndar þær leiðir sem þessir flokkar hafa lagt til, þau eru alltaf að tala um sjávarútvegsauðlindina eina þegar þar að kemur. Ég verð að segja að nokkur önnur lönd hafa farið þessa leið og það eru gjarnan mestu hægri ríki heims, hrein kapítalistaríki, sem hafa prófað þessa leið eða kommúnísk lönd sem aðhyllast slíka starfsemi. Hvað er sammerkt með þessum tveimur þáttum? Jú, það er ójöfnuður. Og annað er sammerkt með þeim leiðum sem þessi lönd hafa farið: Þau hafa öll hætt við hana. Hún hefur nefnilega endað illa. Hún hefur endað þannig að þeir stærstu urðu mjög stórir og einráðir á markaðnum. Það er staðreyndin. Svo geta menn sagt: Ja, það er hægt að finna aðrar leiðir til þess. Jú, það er örugglega hægt. En þetta er reynslan og þetta eru fyrirmyndirnar sem menn eru að tala upp. Þetta er jafnaðarmennskan. Ég er ekki sammála því.

Ég er hins vegar sammála því að Framsóknarleiðin, frumvarp sem ég vann að sem sjávarútvegsráðherra á sínum tíma, gæti svarað mjög mörgum þeirra spurninga og álitaefna sem hér hafa verið uppi. Og ég ætla að fullyrða það hér, hv. þingmaður og formaður Viðreisnar sem ég horfi á í salnum, að það ákvæði sem hér er myndi styrkja slíka lagagerð miðað við að í dag er ekkert ákvæði. Ég ætla að fullyrða það, alveg þvert á umræðu hv. þingmanns og formanns Viðreisnar um sýndarmennsku. Ég verð að segja eins og er að mér leið eins og ég væri staddur í einhverju leikriti og verið væri að setja á svið einhverja hluti. Af því að mér finnst það ekki. Það er í raun, þegar ég les íslensku, kristalklárt í mínum huga hvað stendur í þessu nýja ákvæði. Og það er betra en ákvæðið sem ég lagði fram sem forsætisráðherra haustið 2016. Það er betra. Það myndi klárlega undirbyggja þá vegferð sem ég var á og við Framsóknarmenn höfum talað um í sjávarútvegsstefnu okkar. Engin spurning.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þriðju nýju breytinguna, þ.e. um íslenska tungu. Mér finnst einhvern veginn svo sjálfgefið og eðlilegt að ákvæði um tungumál sem er talað af svo fáum, sem á svo mikið undir högg að sækja, standi í stjórnarskrá. Ég held að ég þurfi ekki að rökstyðja það. Ég styð það ákvæði að sjálfsögðu.

Mig langar á eftir að hafa nokkur orð um forsetakaflann og kannski aðeins meira um auðlindaákvæðið. En mig langar að segja að mér fannst það áhugaverð tilraun til almenningssamráðs að fara í þessa rökræðukönnun. Mér fannst sérstaklega áhugavert að sjá niðurstöður fundarins. Þarna voru 233 mættir, en það voru held ég 300 boðaðir, sem er býsna gott. Vissulega var valið handahófskennt en passað var upp á að dreifingin væri jöfn yfir allt Ísland, jöfn eftir kynjum, jöfn eftir aldri og slíkum þáttum. Það sem gerðist var að þarna kom saman hópur sem hafði ákveðnar skoðanir og var örugglega með mismikla þekkingu á málefnunum. Gerð var könnun á afstöðu þeirra, síðan fengu þau sérfræðinga til fundarins, málin voru rædd og aftur var gerð könnun. Mér fannst heildarniðurstaðan í þessu verkefni vera sú að sá hluti þjóðarinnar sem var valinn, með til þess að gera góðum hætti, var varfærnari heldur en við og sérstaklega varfærnari en þeir sem vilja fara í mjög brattar breytingar á stjórnarskrá. Þessi hópur vildi fara varlegar í breytingar en við sem vorum að vinna að breytingum. Þau gengu jafnvel svo langt að vera í einhverjum tilvikum íhaldssöm að okkar mati.

Mér fannst þetta áhugavert vegna þess að á okkur dynur látlaust áróður um að ef við tökum ekki upp nýja stjórnarskrá sem ákveðinn tiltekinn hópur samdi séum við að svíkja þjóðina. Þarna kom annar hópur, milli 200 og 300 manns, sem sagði skoðun sína umbúðalaust og hún var önnur. Hún var í þá átt að styðja það sem ég hef staðið fyrir, að við eigum að fara varlega, að við eigum að umgangast breytingar á stjórnarskránni af varúð, ekki af léttúð, af varúð. Mér finnst við vera að gera það í þessu tilliti en engu að síður að vera að taka mjög umtalsverð mikilvæg stór skref.

Ég ætla að nefna dæmi úr fyrrnefndri rökræðukönnun. Á bls. 8 í greinargerð með frumvarpinu er sagt að í könnuninni sé sú skoðun áberandi að orðalag stjórnarskrárinnar þurfi að einfalda og skýra. Það var það sem við vorum að reyna. Hv. þingmaður og formaður Flokks fólksins sagði að hún skildi bara alls ekki hvað stæði í þessari grein, hægt væri að skilja hana alla vega, sérstaklega varðandi það hvað forsetinn ætti að gera. Ég held að við getum verið svolítið sammála því. Við vorum að reyna að gera breytingar án þess að breyta gangverkinu í stjórnarskránni og ég held að það skipti líka máli. Í könnuninni var áberandi sú skoðun að einfalda þyrfti og skýra, ekki síst hvað varðar raunverulegar heimildir forsetans. Hins vegar var afdráttarlaus sú skoðun að forseti ætti að vera fulltrúi allrar þjóðarinnar og hafinn yfir hefðbundin stjórnmál og að hlutverk forseta yrði óbreytt frá því sem nú er. Það var það sem þessi hópur sagði. Það er talsvert ólíkt þeim hugmyndum sem komu fram í stjórnlagaráði sem vildi leggja þetta embætti niður.

Ég held að við höfum svolítið hitt á þetta. Ég ætla þó að nefna að lagt er til að kjörtímabil forseta verði lengt úr fjórum árum í sex og að forseti geti setið í tvö kjörtímabil eða 12 ár samfleytt. Ég er ekkert viss um að það sé nákvæmlega rétt. Ég er samt heldur á því að skynsamlegt sé að hafa einhverja tímabindingu. En ætti það frekar að vera þrisvar sinnum fjögur ár eða, eins og ég nefndi, kannski af því að ég er Framsóknarmaður, fimm ár og væri þá þrisvar sinnum fimm ár eða 15 ár? Það kæmi til móts við þá sem voru að velta fyrir sér hvort þetta ætti að vera þrisvar sinnum sex ár eða eitthvað slíkt. Þetta eru hlutir sem við verðum að ræða. Rökin fyrir því að tímabinda eru kannski fyrst og fremst þau að ekki sé æskilegt að menn sitji óendanlega lengi. Hins vegar viðurkenna allir að forsetaembættið okkar er meira virðingarstaða en valdastaða og þar af leiðandi er kannski minni þörf á að tímabinda. Þetta er líka málefnaumræða sem ég held að sé eðlilegt að taka hér í salnum. Mér finnst áhugaverð sú breyting að forgangsraða þannig að tryggt sé að forseti hafi meiri hluta á bak við sig við kjör. Ég hef verið í vafa um hvort það sé nákvæmlega rétt. Það byggir maður auðvitað á reynslu af kosningum fyrri tíma. Maður sér að ekki er endilega víst að sumir hefðu orðið forsetar ef slíkt ákvæði hefði verið uppi á þeim tíma. Þá veltir maður fyrir sér: Er það gott inn í framtíðina? Við þurfum að ræða þetta málefnalega til að finna nákvæmlega réttu leiðina.

Heildarsvipurinn á þessu starfi okkar finnst mér vera sá að við höfum náð býsna vel utan um það sem var hin almenna niðurstaða almenningssamráðsins. Ég er þar af leiðandi ósammála þeim sem segja að við höfum ekki hlustað neitt á það. Ég fullyrði að við höfum svolítið tekið það inn í beinin að sá hópur væri að biðja okkur um að breyta hægar og minna.

En það eru byltingar. Það eru þrjú ný ákvæði og reyndar er talsvert langt síðan komið hafa upp hugmyndir um að setja inn í stjórnarskrá ákvæði um náttúru, umhverfi og auðlindir. Það hefur verið unnið við slíkar breytingar öðru hvoru á síðustu árum. Ég ætla hér undir lokin að hafa nokkur orð um auðlindaákvæðið sem ég tel vera gríðarlega mikilvægt. Bara fyrir þá sem hafa hlustað hingað í kvöld ætla ég að leyfa mér að lesa það vegna þess að ég er ekki viss um að nokkur hafi heyrt það. Tillagan er svona, með leyfi forseta:

„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni.“ — Er það ekki skýrt? — „Þær skal nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta landsmönnum öllum.“ — Er það ekki skýrt? (Gripið fram í: Nei.) „Ríkið hefur eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna.“ — Er það ekki líka skýrt? „Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign.“ — Ég kem aðeins inn á það vegna þess að þarna erum við farin að fjalla um hugtök sem ég er ekki viss um að allir séu með á takteinum. En þetta er nokkuð skýrt. „Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota.“ — Mjög skýrt. „Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði yfir þeim í umboði þjóðarinnar.“ — Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Hvað þýðir það? Mér finnst það skýrt. Það þýðir að enginn getur eignast þetta um aldur og ævi. Með öðrum orðum: Það er tímabundið. Þarf að vera með tvær setningar um sama hlutinn? Mér finnst útúrsnúningur og sýndarmennska að gera ágreining um þetta. Það er mitt mat. „Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis.“ — Er það ekki það sem við erum að reyna að gera í þessum sal alla daga? Og ef okkur mistekst er hægt að kjósa okkur burt á fjögurra ára fresti, í síðasta lagi, stundum fyrr. „Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“ — Hér hefur aðeins verið umræða um það. Er heimurinn svartur eða hvítur? Nei, hann er það ekki, hann er meira og minna grár. Eru auðlindir og nýting þeirra svart/hvít? Nei, það er ekki svo, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Það er ekki svart eða hvítt, það er meira og minna grátt. Þess vegna finnst mér þetta ákvæði skýrt. Það tekur á öllum þeim þáttum sem við höfum fjallað um.

Ég verð að segja alveg eins og er að aftur er niðurstaða mín sú að þó svo að við séum ekki nákvæmlega sammála hefur okkur í þessari vinnu auðnast að koma saman með tillögur sem eru vel ásættanlegar, eru fínar sem stjórnarskrárákvæði, hafa gæði í texta og útskýringum, m.a. í greinargerð, sem gerir það að verkum að mér finnst þau ríma vel við stjórnarskrána að öðru leyti.

Á bls. 30 er fjallað um séreinkenni þjóðareignarréttarins. Þetta er sérkenni. Tekið er fram að enginn geti fengið þau gæði sem teljast til þjóðareignar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Þar með er, með leyfi forseta, „girt fyrir að aðrir aðilar gætu eignast beinan eignarrétt að þeim, t.d. fyrir hefð. Af þessu leiðir að óheimilt er að selja auðlindirnar eða landsréttindin og af sömu ástæðu verða þessi gæði ekki veðsett. Jafnframt þurfa nýtingarheimildir að vera tímabundnar eða uppsegjanlegar. Nánar er fjallað um þessi atriði síðar í greinargerðinni.“

Og nú spyr ég þá sem hlusta, líka fyrir utan þennan sal: Skiljið þið þetta ekki þannig að þetta séu tímabundin réttindi? Það er bannað að veðsetja þau og það getur enginn eignast þau og þetta er þjóðareign. Er það ekki þannig? Ég skil þetta þannig.(ÞKG: Nei. Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði …) Ég skil þetta þannig.

Neðst á bls. 30 og 31 eru síðan taldar upp örfáar auðlindir. Þær eru miklu fleiri af því að auðlindir eru ekki svartar eða hvítar og nýting á þeim er ekki svört eða hvít. Þetta er allt meira og minna grátt. Hér eru þjóðlendur nefndar sem fyrsta mál. Af því að við höfum líka rætt talsvert um miðhálendisþjóðgarð og mikilvægi þess að þjóðin upplifi að hún eigi þjóðlendurnar og ekki virðist vera nóg að þær séu í ríkiseigu, eins og þær eru, ætla ég bara að segja að með þessu nýja auðlindaákvæði værum við að styrkja þá stoð að þjóðlendurnar á Íslandi séu þjóðareign. Kannski væri nóg fyrir suma að upplifa það þannig og þá þurfi ekki að ganga lengra í þeim efnum. Kannski, ég velti því bara upp. Alla vega er þetta nýja auðlindaákvæði það mikilvægasta sem við erum að gera hér. Það er mikilvægast að koma því fyrir í nýrri stjórnarskrá, eða sem breytingu og nýju ákvæði í stjórnarskránni, vegna þess að það skiptir máli. Það mun styrkja það sem margir vilja gera en það kollvarpar ekki samfélaginu. Það er rétt hjá hv. þingmanni, formanni Viðreisnar. En ég gat ekki betur heyrt en að viðkomandi væri reyndar ekki á því að æskilegt væri að kollvarpa einu eða neinu, jafnvel með nýju stjórnarskrárákvæði.

Rétt áður en ég lýk máli mínu ætla ég að segja eitt um þjóðaratkvæðagreiðslu og rökræðukönnunina. Ég sem forsætisráðherra 2016 lagði fram frumvarp, alveg á sama hátt og núverandi forsætisráðherra leggur fram þessi ákvæði og þjóðaratkvæðagreiðslan er ekki inni. Það var vegna þess að í okkar hópi, og reyndar ætla ég ekki að setja mig í þann hóp, vildu sumir hafa þröskuldana miklu lægri og að það þyrftu miklu færri að taka þátt og færri að samþykkja. Rökræðukönnunin varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu var algjörlega á hinn veginn, algerlega. Þátttakendur vildu hafa mjög háa þröskulda og kröfðust þess að það væri meiri hluti, ef ég man rétt, ég er nú ekki með þetta fyrir framan mig. Með öðrum orðum er það kannski ástæðan. Svo kom Feneyjanefndin og sagði að það væri ómögulegt ef við færum þá leið. Þá var það sett til hliðar. Er það eitthvað hræðilegt? Nei, það er ekki hræðilegt. Við getum bara tekið það upp næst ef við erum sammála um að skynsamlegt sé að breyta stjórnarskránni í svona takti, að gefa okkur tíma og vanda okkur eins og mér finnst að hæstv. forsætisráðherra hafi gert í sinni vinnu og við formenn flokkanna höfum lagt okkur fram við að vinna þannig.