151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[21:13]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi uppboðsleiðina, svo ég lýsi því hvers ég var að vísa til, ég held að það hafi verið Síle, Rússland og Eistland sem hafa prófað þessar leiðir og þau hafa öll fallið frá þeim, Eistland þegar það var ráðstjórnarríki. Þess vegna var ég að vísa til þess. Hv. þingmaður þekkir kannski að ójöfnuðurinn í Síle er ævintýralegur og hann versnaði. Þess vegna féllu menn frá þessu og hættu við og þetta er ekki það sem almennt er notað, þannig að það er nú alveg skýrt.

Ég veit að hv. þingmanni og öðrum í flokki Pírata svíður það þegar maður segir að þeir hafi komið í veg fyrir breytingar, sem hafa hingað til sagt að ekki komi til greina að breyta neinu nema öllu verði breytt á grundvelli þeirrar aðferðafræði sem þeir vilja að sé notuð. Ég ætla að minna á að í ágúst 2016 tók nýr forseti við embætti í þessum sal. Í innsetningarræðu sinni sagði hann að lítil skref við breytingar á stjórnarskrá væru líka sigur og ég hef heyrt herra forseta lýðveldisins halda slíku fram síðar. Ég er sammála honum. Ég spyr hv. þingmann: Er hann sammála því?