151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[21:21]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það var nákvæmlega þetta sem ég var að tala um þegar ég sendi eiginlega orðræðuna um sýndarmennsku til baka í höfuð formanns Viðreisnar, með fullri virðingu, (Gripið fram í.) þegar sagt er að hér sé verið að tala annars vegar um virk eða óvirk ákvæði og hins vegar að hér sé stórkostleg ógn í gangi. (ÞKG: Það er það.) Það er það ekki. Það ákvæði sem ég las upp áðan er mjög skýrt á góðri íslensku, á góðri stjórnarskráríslensku, textinn er góður og (Gripið fram í.) skýringarnar eru mjög góðar. Ég verð síðan að segja að ég heyrði ekki formann Miðflokksins segja að þetta væri honum að skapi. Það getur vel verið að ég hafi heyrt rangt. Stundum hefur það komið fyrir að ég skilji ekki allt sem þaðan kemur. En mér finnst hv. þingmaður segja: Ef ekki er farin mín leið er ekki hægt að fara neina leið. Og það er það sama þegar ég var að ræða við hv. þingmann Pírata áðan.