151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[21:27]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en í raun og veru misskildi hann mig alfarið. Ég ætla að einfalda þetta eins og ég get. Telur hæstv. ráðherra að þegar við verðum vonandi búin að löggilda ákvæði í stjórnarskrá um að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni þá nái þau utan um þau réttindi sem hafa í rauninni þegar verið viðurkennd í sjávarútvegsauðlindinni? Ég er aðallega að hugsa um sjávarútvegsauðlindina akkúrat núna, ekki í rauninni neitt neðan jarðar, einhverja rafmagnsstrengi eða eitthvað svoleiðis.

Svo er annað sem ég ætla að bæta við hér í fljótheitum. Það er í sambandi við ákvæðið um umgengni, að almenningi sé heimil för um landið okkar. Gæti hugsast að þegar við verðum búin að koma þessu dásamlega ákvæði inn í stjórnarskrána að það myndi í rauninni strika út þá óvissu sem virðist vera núna um miðhálendisþjóðgarðinn og hvort við megum ganga um hann eða ekki?